Hinsegin leslisti

Rétt tæpum áratug eftir að Samtökin ‘78 voru stofnuð var sett á fót bókasafn með verkum sem fjölluðu um menningu og líf hinsegin fólks. Það er jú gott og gríðarlega mikilvægt að geta speglað sjálft sig í öðrum, séð fyrirmyndir og ólíkar birtingarmyndir í listum og menningu. Bókasafn Samtakanna hefur nú sameinast Borgarbókasafninu og um að gera fyrir þau sem eru forvitin að kíkja í þær hillur. En á meðan þá eru þetta mín meðmæli fyrir hinsegin september.

Girl, Woman, Other – Bernardine Evaristo

Girl, Woman Other er einstök bók sem ég var reyndar bara að ljúka við að lesa. Lesendur Lestrarklefans kannast örugglega við hana enda verið töluvert í umræðunni og ekki að ástæðulausu finnst mér. Stíllinn er ólíkur flestu öðru sem ég les og ég þurfti að setja mig í stellingar við fyrstu kynni af bókinni. En textinn er sterkur og dró mig inn í þessar tólf sögur af svörtum konum, hinsegin konum, trans körlum og jaðarsettu fólki undir feðraveldi og nýlendustefnu í Bretlandi. Þannig vefur saman sögu hinsegin fólks á Englandi, bæði í okkar tíð og fyrr í gegnum sögur fyrstu, annarrar og þriðju kynslóða innflytjenda. Sögurnar fléttast saman á hversdagslegan hátt sem mér fannst frískandi og ég hlakka til að lesa þessa bók aftur.

Mánasteinn – drengurinn sem aldrei var til – Sjón

Þessi skáldsaga Sjóns hafði mikil áhrif á mig þegar ég las hana árið 2014. Kynhneigð Mána Steins Karlssonar er ekki aðalumfjöllunarefnið hér heldur er kynhneigðin frásagnartæki og setur lesanda inn í samhengi fyrstu áratuga 20. aldar. Ég man sérstaklega eftir að hafa lesið kynlífssenuna milli Mána Steins og annars karlmanns og hafði þá aldrei lesið slíkt áður. Bókin er hlaðin vísunum í drungalega menningu tuttugustu aldar, hinar þöglu kvikmyndir, og svo er spænska veikin ekki langt undan fyrir þau sem hafa ekki fengið nóg af farsóttum.

Flæðarmál eftir Sjöfn Hauksdóttur

Spennusaga sem gerist í nútímanum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta skáldsaga Sjafnar Hauksdóttur og fjallar um Sóleyju sem veit ekki hvað hefur orðið um fyrrum samstarfskonu sína, Melkorku.  Ég er ekki alveg hlutlaus í garð höfundarins en ég fékk að lesa handritið áður en það fékk Eyrað, verðlaun Storytel árið 2020 og hlustaði svo á hana í gegnum forritið. Ég var virkilega hrifin af bæði sögu og lesurum, en bókin fæst líka sem rafbók. Söguþráðurinn er frumlega unninn og hinseginleiki Melkorku er fléttaður inn í frásögnina á áreynslulausan hátt.

Morgunverkin og Háttatími – Lawrence Schimel, myndskreytt af Elina Braslina

Við í Samtökunum ‘78 getum ekki beðið eftir að fá að kynna íslendinga fyrir þessum barnabókum. Þær eru gefnar út af Samtökunum ‘78, þýddar af Þorbjörgu Þorvaldsdóttur og Bjarndísi Helgu Tómasdóttur. Þær henta börnum á öllum aldri og eru dýrmæt viðbót í barnabókaflóruna á Íslandi. Morgunverkin segir frá morgni ungs drengs með tveimur mömmum sínum og Háttatími fjallar um kvöld ungrar stúlku með pöbbunum sínum tveimur. Notalegar og fallega myndskreyttar bækur fyrir alla fjölskylduna.

Meðmæli frá stjórn Samtakanna ‘78

Svo veistu að þú varst ekki hér– hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi ritstýrt af Írisi Ellenberger, Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur er fyrsta íslenska fræðiritið á sviði hinsegin sögu.

The Velvet Rage: Overcoming the Pain of Growing Up Gay in a Straight Man’s World eftir Alan Downs. Þó að þessi bók sé skrifuð sérstaklega fyrir (og af) homma er vel þess virði fyrir annað hinsegin fólk að lesa hana. Bókin er  opinberandi en færir lesandanum líka nokkur mikilvæg og dýrmæt bjargráð. Þetta er sjálfshjálparbókin sem við þurfum öll á að halda.

Stone Butch Blues var nefnd af tveimur stjórnarmeðlimum, skrifuð af Leslie Feinberg og er söguleg skáldsaga um það að vera butch lesbía á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum.

Call Me By Your Name eftir André Aciman, þessa ættu flest að hafa heyrt um eða séð kvikmyndaaðlögunina, um ástir Elio og Oliver sem hefst eitt sumar á Ítalíu.

Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur er nýleg ljóðabók sem ég ætla að sækja sem allra fyrst á næsta bókasafn.

Bi: Notes for a Bisexual Revolution eftir Shiri Eisner fjallar á pólitískan og feminískan hátt um kynhneigðina sem gleymist oft eða er stimpluð sem athyglissýki og setur fram þá kenningu að tvíkynhneigð geti verið byltingarkennd.

Tipping the Velvet eftir Söruh Waters er eldheit söguleg skáldsaga, lesbísk þroskasaga og fékk meðmæli frá tveimur stjórnarmeðlimum.

Mundu, líkami er safn ljóðaþýðinga Þorsteins Vilhjálmssonar á grískum og latneskum ljóðum frá því fyrir Krist sem hafa flest verið ritskoðuð fyrir birtingarmyndir samkynja ástar og óheflaðs myndmáls.

Bergrún Andra Hölludóttir tók saman listann hér að ofan. Bergrún er bókmennta- og kynjafræðingur sem semur ljóð í frítíma og starfar sem móttökuritari Samtakanna ‘78, ásamt því að vera að vinna að meistararitgerð í menningarfræði. Hún hefur áður birt ljóð og menningargagnrýni í Víu (áður Flóru) tímariti og í Rithorni Lestrarklefans.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...