Barnabókin Hringavitleysa er fyrsta bók Sigurrósar Jónu Oddsdóttur sem er kennari, móðir og sagnakona. Um er að ræða fjöruga og skemmtilega frásögn af stjúpsystkinunum Fjólu og Lárusi þegar þau lenda óvænt í ævintýraheimi í vettfangsferð með skólanum. Bókabeitan gefur út.

Snúið upp á sagnaarfinn

Í Hringavitleysu eru íslenskar þjóðsögur notaðar sem efniviður í ævintýri Fjólu og Lárusar. Það er gert á skemmtilegan hátt þó að það sé ekki nýtt af nálinni í íslenskum barnabókum og vona ég að börnin sem lesi bókina kannist við sögurnar um Búkollu, Gilitrutt og Hlina kóngsson. Ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei heyrt þessa síðastnefndu en rámaði í nafnið. Það kom þó ekki að sök og ef börnin, sem lesa bókina, þekkja ekki sögurnar nú þegar þá verður bókin hvatning fyrir þau að kynna sér þær á meðan lestrinum stendur, eða að honum loknum. Þessar þrjár þjóðsögur blandast saman í einn graut, eða hringavitleysu, og fannst mér sérstaklega skemmtilegt hvernig Sigurrós Jóna tengir sögurnar saman á óvæntan hátt. Það er hlutverk Fjólu og Lárusar að koma öllum þessum þjóðsögum á réttan kjöl en svo virðist sem eitthvað hafi misfarist í þeim öllum.

Sannfærandi þroskasaga

Fjóla og Lárus eru sannkölluð nútímabörn og skilja illa þennan fornaldar ævintýraheim. Það er lán í óláni að þau séu föst saman í þessum skrítna heimi en fallegt er að fylgjast með því hvernig vináttubönd myndast á milli barnanna en áður höfðu þau mikla fordóma gagnvart hvoru öðru. Fjólu fannst Lárus vera algjör vandræðagemsi og Lárusi fannst Fjóla vera óþolandi og með fullkomnunaráráttu. Þroskasaga þeirra er sannfærandi og gleðst lesandinn með þeim í lok bókar þegar þau hafa loks tekið hvort annað í sátt sem alvöru systkini.

Hringavitleysa er hröð, spennandi og stórfyndin barnabók sem heldur lesendum vel við efnið. Það er sífellt eitthvað nýtt og furðulegt að gerast og bæði Fjóla og Lárus eru viðkunnalegar persónur sem auðvelt verður fyrir börn að tengja við. Virkilega vel heppnuð fyrsta bók höfundar.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.