Chimamanda Ngozi Adichie er stórstjarna í bókmenntaheiminum um þessar mundir. Það sást skýrt þegar hún hélt hátíðarfyrirlestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík fyrir fullum sal í Háskólabíói um miðjan september. Hún ber út fagnaðarerindi femínismans út um allan heim og er þekkt fyrir hinn vinsæla fyrirlestur Við ættum öll að vera femínistar sem kom einnig út í bókarformi árið 2017 hjá Benedikt bókaútgáfu. Áður hefur verið þýdd skáldsagan hennar Hálfgul sól (2006) en í tilefni komu Adichie á bókmenntahátíð kom út smásagnasafnið hennar Það sem hangir um hálsinn frá árinu 2009 í íslenskri þýðingu Janusar Christiansen.

Smásögurnar eru fjölbreyttar en eiga það sameiginlegt að fjalla um raunveruleika nígerísks fólks, af öllum kynjum og samfélagsstéttum. Óeirðir, ástir, innflytjendur, ófrjósemi, rasismi, ofbeldi og kynjamisrétti eru meðal annars viðfangsefni sem Adichie tekur fyrir í sögunum. Átakanlegt er orðið sem kom upp í huga mér við lesturinn, sögurnar eru átakanlegar og innihaldsríkar, raunverulegar.

Skilmálar lífsins

Í svona stuttri færslu get ég auðvitað ekki komist yfir allar þær tólf sögur sem safnið inniheldur en smásagan sem ber sama nafn og bókin sjálf er líklega uppáhaldssagan mín úr safninu. Þó að valið hafi verið mjög erfitt því allar eru sögurnar þaulúthugsaðar og vel skrifaðar.

Sagan Það sem hangir um hálsinn segir af ungri konu sem vinnur græna kortið í happdrætti og flytur til Bandaríkjanna til að vinna og senda pening til fjölskyldu sinnar í Nígeríu. Lífið í Bandaríkjunum er einmanalegt og erfitt, ekki umvafið þessum dýrðarljóma sem fjölskylda hennar í Lagos heldur að einkenni allt þar í landi. Hún fær að búa hjá frændfólki sínu en flýr þaðan þegar frændi hennar (óblóðskyldur) reynir að misnota hana. Hún fær vinnu á veitingastað og kynnist hvítum manni. Samband og samskipti þeirra varpa ljósi á þá gjá sem menningarmunurinn er. Þó að maðurinn hafi ferðast til Afríku og hafi ákveðin skilning á lífinu þar, fengu þau augljóslega mismikil forréttindi í vöggugjöf. Það sést skýrt hér í þesssu stutta broti úr sögunni:

„Hann sagðist hafa tekið nokkurra ára frí til að finna sjálfan sig og ferðast, aðallega um Afríku og Asíu. Þú spurðir hvar hann hefði á endanum fundið sig og hann hló. Þú hlóst ekki. Þú vissir ekki að fóllk gæti einfaldlega valið að fara ekki í skóla, að fólk gæti sett lífinu skilmála. Þú varst vön að taka við því sem lífið færði þér, fara eftir skilmálunum sem lífið setti þér.“ (bls. 156)

Það sem er sjálfsagt hér á vesturlöndum, að fara í heimsreisu og hafa val um það að fara í háskóla, er svo fjarri því að vera sjálfsagt annarsstaðar. Þegar lesandinn sér heiminn með augum nígerísku stúlkunnar er auðvelt fyrir hann að setja sig í hennar spor og sjá hversu mikil forréttindi við búum við hér á landi. Einnig að við tökum þeim sem sjálfsögðum hlut, kunnum jafnvel ekki að meta öll þessi tækifæri sem okkur er veitt án þess að hafa gert neitt annað en að einfaldlega fæðast á Íslandi.

Áhrifarík ádeila

Þessi bók var algjör yndislestur, sögurnar eru áhugaverðar, djúpar og djúsí. Þær eru einnig fræðandi og varpa ljósi á Nígeríska menningu, bæði hana sem ríkir þar í landi og í Bandaríkjunum hjá aðfluttum Nígeríubúum. Ég dáðist að ádeilunni sem mátti finna í hverri einustu sögu, ádeilunni á stöðu kvenna, stöðu innflytjenda í Bandaríkjunum og allt þetta ofbeldi sem fylgir stríði og ósætti. Hún gerði tilfinningum þeirra sem verða fyrir missi, sorg og bæði hversdagslegu og óheyrilegu óréttlæti góð skil. Ég mæli innilega með þessu smásagnasafni sem ég þori að segja að sé besta bókin sem ég hef lesið á þessu ári.

Lestu þetta næst

Dulmögnuð spennusaga

Dulmögnuð spennusaga

Nýlega kom út framhald bókarinnar Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen inn á Storytel. Bannhelgi...

Föst í Hulduheimi

Föst í Hulduheimi

Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf...

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...