Það er alltaf nóg í gangi á hinni skálduðu eyju Mure þrátt fyrir fáa íbúa og afskekkta staðsetningu en nú hefur Jenny Colgan gefið út fimmtu bókina sem gerist þar sem nefnist Jól á eyjahótelinu.

Eyjahótelið standsett

Angústúra gefur út bókina í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur. Bókin er sjálfstætt framhald af Mure-bókunum og því er hægt að lesa þessa bók án þess að hafa lesið hinar, þó að ég hafi persónulega haft gaman að því að vera búin að kynnast mörgum persónum í seríunni áður. Sem fyrr er Flora MacKenzie hér í aðalhlutverki. Hún er fædd og uppalin á eyjunni og hefur undanfarin ár rekið þar Sumareldhúsið sitt með dýrindis bakkelsi. 

Allt er með kyrrum kjörum í ástarlífi hennar, hún og Joel eru afar ánægð saman og hafa nýlega eignast soninn Douglas. Flora er þó ekki dugleg að vera í „orlofi“ heldur er á fullu að hjálpa Fintan bróður sínum að standsetja hótelið sem Colton eiginmaður hans lét eftir sig. Þau stefna á að opna það um jólin. Fintan er í miðju sorgarferli eftir fráfall Coltons og því þarf Flora að ganga í flest störf. Ekki hjálpar til að henni til aðstoðar séu bráðlyndi franski kokkurinn Gaspard og fordekraði norski drengurinn Konstantin sem hefur aldrei áður lyft fingri. Það er eitthvað gagn í Islu, aðstoðarstúlkunni í eldhúsinu, en hún er afar feimin og roðnar í hvert sinn sem á hana er yrt.

Mætti fara dýpra í sumt

Jenny Colgan skrifar bækur sem auðvelt er að sökkva sér í, persónurnar eru heilt yfir góðar manneskjur og vandamálin sem þær standa frammi fyrir eru flest hægt að leysa á tæplega 400 blaðsíðum. Það voru mjög margar persónur í þessari bók og hefði ef til vill mátt fara dýpra í sögu Lornu og læknisins Saifs eins og hefur verið gert í fyrri bókum, og sama má segja um það hve erfitt Flora átti með að tengja við móðurhlutverkið. En þetta verður eflaust tæklað áfram í næstu bókum í seríunni.

Frábær afþreying

Jól á eyjahótelinu uppfyllir allar kröfur sem maður setur um bókaafþreyingu á aðventunni. Hún er auðlesin, skemmtileg, fyndin á köflum og afar hugljúf. Ég mæli eindregið með því að lesa hana með kakóbolla í annarri hendi og piparkökukassann nálægt. Ég lá yfir henni eina helgi og naut þess að endurnýja kynnin við sumar sögupersónur sem og að kynnast nýjum. Ég er algjör sökker fyrir krúttlegum ástarsögum og hafði sérstaklega gaman af því að fylgjast með hinni feimnu Islu í sínu fyrsta ástarævintýri. Óhætt er því að mæla með þessari bók fyrir aðdáendur Jenny Colgan og hugljúfra ástarsagna!

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...