Áfengi, kynlíf og stormasamt ástarsamband

Fíkn eftir Rannveigu Borg Sigurðardóttur hefur fengið gott umtal bæði meðal bókaunnenda og hlustenda á Storytel. Ég ákvað að hlusta á hljóðbókina og skrifa því þennan dóm út frá henni. Lesarar voru Birna Pétursdóttir og Haraldur Ari Stefánsson. Sögur útgáfa gefur út.

Snarpur frásagnarstíll

Bókin fjallar um stormasamt og munúðarfullt samband Ellerts og Freyju Negroni. Frá fyrstu kynnum laðast þau að hvort öðru og dragast inn í veröld þar sem kynlíf, þráhyggja og fíkn ráða ríkjum. Þau lifa frekar ólíku lífi; Ellert er með níu til fimm vinnu, hittir félagana reglulega og finnst gaman að taka ljósmyndir. Hin dularfulla Freyja er hins vegar myndlistakona sem lærði á Ítalíu og öll frjálslegri og ævintýragjarnari. Sjónarhornið í bókinni skiptist oft og hratt á milli Ellerts og Freyju en einnig koma inn önnur sjónarhorn, meðal annars vinar Ellerts, móður hans og móður hennar. Þessi frásagnastíll gerir bókina snarpa þó að stundum valdi þetta því að sumt í atburðarrásinni er endurtekið óþarflega oft, í gegnum sjónarhorn mismunandi persóna.

Ástar-, áfengis- og kynlífsfíkn

Aðalumfjöllunarefni bókarinnar er ástin og fíknin. Freyja er haldin áfengisfíkn en Ellert myndi ég segja sé ástarfíkill, allavega Freyjufíkill. Hann sér ekki sólina fyrir henni, hún er svo heit, djúp og frábrugðin öllum þeim konum sem hann hefur áður kynnst. Síðan er það kynlífsfíknin en þau Ellert og Freyja fara ósjaldan til rekkju eða þá bara gera það standandi á þeim stað sem þau eru á þá stundina.

Stundum er of mikið sagt hreint út í bókinni, lesandinn er mataður af ástandi og tilfinningum persónanna. Þá er sérstaklega mikil greining á ástandi Freyju og alkóhólisma í seinni hluta bókarinnar í stað þess að sýna og treysta lesandanum til að komast að sömu niðurstöðu varðandi þennan fíknisjúkdóm.

Misræmi í lífssýn

Yfir heildina hefði mátt vinna aðeins betur í textanum sjálfum en sagan af Freyju og Ellert heldur lesandanum við efnið. Hvert mun þetta óheilbrigða samband leiða þau? Lesandinn getur ekki treyst frásögn Freyju né Ellerts þar sem hann er alltaf að fá mismunandi hliðar og sér hlutina með augum þeirra beggja. Þannig skapast samlíðan með báðum persónum á sama tíma og auðvelt er að efast um þær vegna misræmis í lífssýn þeirra. Einnig er áhugavert að sjá hversu ólíkar hugsanir þeirra eru, þau eru algjörlega svart og hvítt og halda ekki uppi sömu siðferðislegu gildum.

Fíkn er snörp, grípandi og ögrandi skáldsaga sem margir ættu að hafa gaman af. Það hefði þó mátt kafa dýpra ofan í textann og slípa frásögnina örlítið betur.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...