Jólakósýrómans af bestu gerð

Undanfarin ár hefur Bókabeitan, undir nafninu Björt bókaútgáfa, gefið út í íslenskri þýðingu jólabækur eftir breska rithöfundinn Söruh Morgan. Bókin Jólasysturnar kom út árið 2019 og Brúðkaup í desember kom út árið 2020 og nú í nóvember kom út bókin Vetrarfrí í Hálöndunum. Bækurnar eru allar stakar skáldsögur þ.e. þær tilheyra ekki seríu líkt og margar bækur Söruh gera en þær eiga það þó allar sameiginlegt að þetta eru ástarsögur sem gerast um jól. Sarah Morgan er afkastamikill höfundur ástarsagna og hefur skrifað um 80 bækur frá því hún byrjaði að skrifa í kringum aldamótin og hafa aðrar bækur hennar einnig verið þýddar og gefnar út á íslensku bæði af Bókabeitunni sem og Ásútgáfunni. Bókabeitan hefur til dæmis einnig gefið út bækurnar Sumar í París (2020) og Fjölskylda fyrir byrjendur (2021). Katrín Lilja fjallaði um Sumar í París hér á vef Lestrarklefans í júlí 2020.

Fjölskylduerjur um jól

Vetrarfrí í Hálöndunum fjallar um móðurina Gayle og dætur hennar, Samönthu og Ellu sem eiga, svo vægt sé til orða tekið, erfitt mæðgnasamband. Þær hafa hvorki hist né talað saman í fimm ár. Gayle er ákveðin og kröfuhörð kona sem á mikillar velgengni að fagna með ráðgjafafyrirtæki sitt og er höfundur sjálfshjálparbóka. Þeirri velgengni hefur hún þó ekki náð án þess að færa fórnir og mögulega hafa kröfur hennar, sumar hverjar óraunhæfar, ekki síst beinst að henni sjálfri og dætrum hennar. Eldri dóttirin Samantha hefur fetað í fótspor móður sinnar að einhverju leyti sem viðskiptakona og rekur sitt eigið ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að skipuleggja sérstakar upplifunarferðir um jól fyrir sína viðskiptavini. Yngri dóttirin Ella er hinsvegar algjör andstæða við móður sína, hún er gift heimavinnandi móðir fimm ára stúlku. Hún hefur helgað sig fjölskyldu sinni af öllu hjarta og gefið starf sitt sem kennari upp á bátinn, allavega í bili.

Í upphafi sögunnar verður ákveðinn atburður til þess að Gayle hefur samband við dætur sínar og vill hitta þær. Systurnar fara á fund móður sinnar en það reynist þeim erfitt enda miklar tilfinningar óuppgerðar á milli þeirra allra. Gayle óskar hinsvegar eftir því að þær eyði meiri tíma saman og byrji á að vera saman um jólin sem eru á næsta leiti. Úr verður að þær gera nákvæmlega það, eyða jólunum saman en þær gera það í skosku Hálöndunum. Sagan gerist því ekki bara um jól heldur í algjöru vetrarríki sem Hálönd Skotlands geta verið.

Jóla, jólabókaútgáfa

Útgáfa Bókabeitunnar á þessum jólabókum Söruh Morgan
eru farnar að verða að skemmtilegri jólahefð, í það minnsta hjá mér. Líkt og fyrri jólabækur Söruh þá er Vetrarfrí í Hálöndunum það sem ég kalla kósý og notaleg bók sem er tilvalið að lesa á aðventunni og yfir hátíðarnar þó auðvitað megi lesa þær á öðrum tímum ársins. Sjálf er ég farin að bíða spennt á hverju ári eftir að sjá tilkynningu frá Bókabeitunni um hvaða jólabók kemur út næst og gladdi það mig virkilega að sjá að Vetrarfrí í Hálöndunum kom ekki eingöngu út á pappír í nóvember heldur kom hún einnig út á mjög svipuðum tíma sem hljóðbók og rafbók á Storytel. Því ber að fagna og hrósa þegar hugsað er um allar tegundir lesenda við útgáfu bókar.

Frí frá amstri dagsins

Það má vissulega segja að þessi tiltekna bók sem og aðrar bækur Söruh eru að einhverju leyti skrifaðar eftir ákveðinni ástarsögu formúlu en þær hafa líka dýpt, mismikla en hún er þarna. En svo má líka spyrja sig, skiptir það einhverju máli þó persónur eða söguþráðurinn sjálfur hafi litla dýpt? Mega bækur ekki bara vera notalegar og kósý? Bækur sem krefjast einskis af manni og leyfa manni að flýja amstur dagsins í smá stund. Við virðumst sjaldnar krefja fjöldaframleiddar glæpasögur um dýpt og að þær skilji eitthvað eftir sig en við gerum með ástarsögur. Við virðumst vera kröfurharðari þegar kemur að þeim, eitthvað sem við höfum gert áratugum saman sem ég sjálf skil ekki. Ástarsögur eru bestu sögurnar. Hvort sem það eru bækur Söruh Morgan eða Guðrúnar frá Lundi. Við getum öll tengt við ástina á einhvern hátt, við höfum öll elskað eitthvað, einhverntímann.

Ef þið lesið ástarsögur þá get ég ekki nógu mikið mælt með að koma sér fyrir á góðum stað með jóla ástarsögu, umkringd jólaljósum og skrauti, kannski með kerti logandi og góðan kaffi- eða kakóbolla í hönd. Við leyfum hinum að lesa krimmana

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.