Leyniguðspjöll og leyndardómar Mar Saba

Biblían: Bók bókanna. Maður er vanur þeirri tilhugsun að biblían sé fasti, innan hennar skrautlegu banda sé ákveðinn fjöldi guðspjalla, bréfa og fornra hebreskra texta sem breytist ekki. En raunin er önnur. Í fyrsta lagi er biblían að sjálfsögðu þýdd úr grísku og hebresku og þýðingar breytast, síðast á Íslandi árið 2007, og urðu ekki allir ánægðir, eins og ég hef skrifað um annarsstaðar. Sömuleiðis er val þeirra texta sem tilheyra biblíunni ekki undir Guði komið heldur mönnum, eða öllu heldur valdamönnum kirkjudeildanna. Þannig eru 66 bækur í biblíu mótmælenda, 73 í biblíu kaþólikka, og heil 81 bók í biblíu eþíópísku réttrúnaðarkirkjunnar, sem er frjálslyndust kirkja í þessum efnum. En þrátt fyrir þessar staðreyndir eru allar tilraunir til að hrófla við biblíutextunum umdeildar. Fólk vill hafa þetta bjargfast og óhreyfanlegt: Það þarf mikið til að það sætti sig við jafnvel minni háttar breytingar.

Þannig er það skiljanlegt en jafnframt leitt hversu fáir hafa heyrt um einhverja áhugaverðustu viðbót við biblíuna sem hefur komið fram í aldaraðir: hið svokallaða „leyniguðspjall Markúsar“. Er það fölsun? Er það raunveruleiki? Er það raunveruleiki sem er of ótrúlegur til að við getum horfst í augu við hann? Ég ætla engu að svara en frekar að velta upp hinni stórundarlegu sögu „guðspjallsins“ og leyfa lesendum að draga eigin ályktanir. Í það minnsta er þetta umfjöllunarefni sem ætti að vera miklu betur þekkt en það er í dag, svo ruglað er það.

Forsagan er (hugsanlega) þessi. Árið 1958 fór bandaríski fornaldarsagnfræðingurinn Morton Smith (1915–1991) í rannsóknarferð um löndin við botn Miðjarðarhafs til að leita að gömlum handritum. Á ferð sinni dvaldi hann um tíma í Mar Saba, ævafornu grísku rétttrúnaðarklaustri í Palestínu. Þar fann hann engin forn handrit, en á meðan hann var að flokka bækur í bókasafni klaustursins sér til dundurs fann hann gamla prentbók – engan sérstakan dýrgrip svosem, útgáfu Vossiusar frá 1646 af verkum kirkjuföðursins Ignatíusar frá Antíokkíu. En aftast í þeirri bók fann hann eitthvað mjög óvenjulegt. Á þrjú saurblöð hafði einhver handskrifað texta á forngrísku með 18. aldar grískri skrift. Textinn vakti áhuga Smith, þótt ekki hafi hann verið nægilegur grískumaður til að vera alveg viss um hvað hann hefði þarna í höndunum. Smith tók ljósmyndir af textanum og skilaði svo bókinni aftur í hillur bókasafnsins í Mar Saba. Þegar heim var komið til Bandaríkjanna fór Smith að rannsaka ljósmyndirnar, rita upp textann, þýða, greina, og rannsaka. Og það sem hann fann var sprengja.

Mar Saba-klaustrið ca. 1900.

 

Morton Smith á gamals aldri.

Textinn virtist vera brot af bréfi frá kirkjuföðurnum Klemensi frá Alexandríu (ca. 150–215 e. Kr.) til manns að nafni Þeódóros, sem ekkert meira er vitað um. Sá hafði sent Klemensi fyrirspurn eftir að hafa heyrt orðróma um að til væri önnur útgáfa af Markúsarguðspjalli en sú sem alþekkt var. Hann hefði heyrt að þar væri meðal annars að finna orðin gymnos gymnôi, „nakinn maður með nöktum manni“, og fleira vafasamt. Væri eitthvað til í þessu? Í bréfinu svaraði Klemens því játandi. Markús hefði skrifað lengri, andlegri og dulúðugri útgáfu guðspjalls síns, s.s. það sem við í dag köllum „leyniguðspjall Markúsar“. Þetta guðspjall væri geymt í Alexandríu og aðeins útvöldum leyft að komast í það. Klemens hafnaði því hinsvegar að neinn „nakinn maður“ hafi verið með „nöktum manni“ í lengri útgáfunni og kvartar yfir því að sá orðrómur sé runninn undan rifjum einhverra kynóðra villutrúarkristinna sem hafi búið til sína eigin útgáfu af Markúsi. Klemens vitnar svo í tvo kafla úr leyniguðspjallinu og útskýrir hvar þeir bætist við hið hið alþekkta Markúsarguðspjall. Svo endar bréfbrotið, lokaorðin hafa ekki varðveist.

Ljósmynd sem Smith tók af bréfi Klemens (til hægri). Til vinstri má sjá lok Ignatíus-bókarinnar.

Leyniguðspjallskaflarnir sem Klemens birtir snúast báðir um ákveðinn ungan mann sem Jesús kynntist. Hér er sá fyrri, sem birtist milli kafla 10:34 og 10:35 í okkar þekkta Markúsarguðspjalli (mín þýðing):

Og þeir [Jesús og lærisveinarnir] koma til Beþaníu og þar var kona ein sem hafði misst bróður sinn. Og hún kom og féll frammi fyrir fótum Jesú og sagði honum, „sonur Davíðs, aumkvaðu þig yfir mig“. En lærisveinarnir skömmuðu hana. Og Jesús reiddist þeim og fór með henni í garðinn þar sem grafhýsið var, og strax heyrðist úr grafhýsinu mikil rödd, og Jesús gekk upp að því og velti steininum frá hurð grafhýsisins, og hann fór strax inn þar sem ungi maðurinn var og rétti fram hönd sína og tók um hönd hans og vakti hann, en ungi maðurinn virti hann fyrir sér og elskaði hann og fór að hvetja hann til að koma með sér. Og þeir fóru úr grafhýsinu og fóru inn í hús unga mannsins, því hann var ríkur. Og eftir sex daga skipaði Jesús honum fyrir, og um kvöldið fer ungi maðurinn til hans íklæddur línklæði yfir nekt sína, og hann dvaldi með honum þá nótt. Því Jesús kenndi honum leyndardóma konungsríkis Guðs. En er hann hafði staðið upp þaðan sneri hann [Jesús] aftur til hins bakka Jórdanfljóts.

Næsti kafli er örstutt viðbót sem birtist í miðjum kafla 10:46, sem einmitt er undarlega endasleppur í Markúsarguðspjalli eins og við þekkjum það:

[Og þeir komu til Jeríkó] og þar var systir unga mannsins, sem Jesús elskaði, og móðir hans og Salóme, og Jesús tók ekki á móti þeim. [Og þegar Jesús fór út úr borginni…]

Hvað merkja þessar viðbætur? Morton Smith var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lagði fram afskaplega róttæka hómóerótíska túlkun á sambandi Jesúsar og unga mannsins auðuga. Þótt ekki hafi verið neinn „nakinn maður með nöktum manni“ í hinu raunverulega leyniguðspjalli vildi Smith lesa ýmislegt í það að Jesús hverfi inn í hús með unga manninum í sex daga, á meðan lærisveinarnir þurftu að dúsa fyrir utan, að Jesús skipi honum svo að koma fáklæddur til hans um nótt, og svo taki við kennsla í leyndardómum konungsríkis Guðs—if you know what I mean.

Þessi túlkun var eldfim, en raunar var hægt að komast hjá því að þurfa að glíma við hana af alvöru. Í fyrsta lagi var ekkert víst að hér væri um raunverulegt bréf Klemensar að ræða; jafnvel þótt svo væri var ekkert víst að hér væru raunverulega á ferðinni tilvitnanir í eitthvað „leyniguðspjall“, heldur gæti þetta bara verið einhver textasamtíningur ótengdur Markúsi, þótt Klemens hefði kannski haldið annað. Í þriðja lagi gæti Smith bara verið að lesa alltof mikið í textann. En alvarlegri ásökun kom fram um miðjan 8. áratuginn: Að öll sú saga sem ég hef rakið hingað til í þessari grein væri helbert kjaftæði, og að höfundur „leyniguðspjallsins“ væri enginn annar en Morton Smith sjálfur.

Helsti hvatamaður þeirrar kenningar var guðfræðingur að nafni Quentin Quesnell (1927–2012) sem hóf gagnsókn sína gegn Morton Smith upp úr miðjum 8. áratugnum. Hann benti á að enginn hefði séð umrætt bréf Klemensar nema Smith sjálfur. Hann hefði haft bæði menntunina og hvötina til að semja þetta bréf, skrifa það upp á saurblöð bókarinnar eftir Ignatíus, smygla henni inn í Mar Saba, og látast hafa fundið hana þar. Aðrir gengu enn lengra og efuðust um að bókin væri yfirleitt í klaustrinu, enda bara orð Smiths fyrir því. En þótt erfitt sé að komast inn í hið forna klaustur Mar Saba (konum er t.d. algjörlega bannaður aðgangur að þessum helga stað) fengu nokkrir (karlkyns) fræðimenn að feta í fótspor Smith árið 1976 og sannreyndu að jú, bókin var vissulega í bókasafni klaustursins. Þeir fengu að taka hana með sér til Jerúsalem þar sem henni var komið fyrir í bókasafni gríska patríarkans þar í borg, og fengu aðrir fræðimenn, þar með talið Quesnell, að skoða hana og tóku fleiri myndir. En upp úr 1990 hvarf Ignatíusarbókin úr bókasafninu í Jerúsalem—hugsanlega losuðu þarlendir kirkjunnar menn sig viljandi við hana út af hómóerótískri túlkun Smith á efni „leyniguðspjallsins“. Þannig er ekki hægt að gera nútímalegar rannsóknir á bleki bréfsins til að sannreyna aldur þess: Við þurfum að taka Smith meira og minna á orðinu.

Smith sjálfur tók til varna gegn þessum ásökunum, enda grafalvarlegar—ef þær væru sannar væri þetta „fölsun aldarinnar“, eins og einn fræðimaður orðaði það. Smith benti hinsvegar á að til væru heimildir um að handrit sem geymdu bréf Klemensar hefðu vissulega einu sinni verið til í Mar Saba, þótt þau væru öll týnd í dag. Snemma á 18. öld hefði brotist út eldur í klaustrinu og handrit brunnið; þar kynnu bréf Klemensar að hafa glatast, en nokkur snifsi kannski lifað af, og eitt þeirra snifsa hefði verið ritað upp á saurblöð Ignatíusarbókarinnar af einhverjum 18. aldar munki í Mar Saba. Þetta væri miklu einfaldari skýring heldur en að hann hefði falsað bréfið: Þeir sem héldu því fram hefðu annarlegar hvatir, vildu kannski ekki að sannleikurinn um Jesús og unga manninn kæmi í ljós. Aðrir bentu einfaldlega á að þvert á það sem Quesnell hefði sagt, þá hefði Smith einfaldlega ekki getuna til að falsa bréfið. Til þess þyrfti 1) mikla kunnáttu í Nýjatestamentisgrísku, 2) mjög mikla kunnáttu í grísku Klemensar frá Alexandríu, sem hafði mjög sérstakan stíl, 3) þekkingu á rithönd 18. aldar grískra munka (!) Fjöldi þeirra sem hefði öll þrjú atriðin á sínu valdi var mjög einfaldlega hverfandi á heimsvísu, og fyrrum nemendur Smith sögðu að grískukunnátta hans hefði raunar verið frekar grunn, hvergi nærri því stigi sem fölsunin krefðist. Eins og annar fræðimaður orðaði það: Ef Smith falsaði bréf Klemensar, þá væri sú fölsun í sjálfu sér eitthvað magnaðasta fræðilega afrek 20. aldarinnar.

Er bréfið þá raunverulega fornt? Ja, nú kemur allra undarlegasti partur sögunnar. Árið 2001 var bent á tilvist áður gleymdrar bókar frá árinu 1940, kristins reifara eftir bandaríska rithöfundinn James H. Hunter sem kallaðist The Mystery of Mar Saba. Bókin fjallar um hvernig nasistar falsa nýtt guðspjall sem kollvarpar undirstöðum kristninnar og koma því fyrir í Mar Saba, þar sem það uppgötvast og efni þess fréttist út. Hetjulegir kristnir menn ná hinsvegar að afhjúpa gabbið á síðustu stundu. Einn þeirra heitir hvorki meira né minna en Lord Moreton – sbr. nafn Mortons Smith. Bókin kom út ári áður en Smith fékk boðið til að heimsækja Mar Saba í leit að handritum. Var Smith innblásinn af bókinni og ákvað að endurskapa plott hennar í raunheimum? Getur það virkilega verið að ódýr kristinn sjoppuþriller frá 1940 sé orsökin að þessu öllusaman? Eða getur það raunverulega verið að þetta sé tilviljun?

Kápa bókarinnar “The Mystery of Mar Saba”.

Eins og kannski sést þá er þetta mál sem fólk getur týnst ofan í og hætt að ná áttum. Einn fræðimaður sem er mjög áfram um að Smith sé falsari hefur t.d. haldið því fram að Smith hafi skilið eftir leynilega brandara í bréfi Klemensar, til að gera grín að þeim auðtrúa vitleysingum sem keyptu söguna. Í bréfinu er til að mynda notuð myndlíking um salt sem fræðimaðurinn fullyrðir að geri ráð fyrir flæðandi borðsalti, sem sé nútímauppfinning – og ekki bara það, heldur líka uppfinning saltfyrirtækisins Morton Salt Company (nafn falsarans einu sinni enn!) Þetta er bara einn af mörgum „bröndurum“ sem þessi fræðimaður telur sig finna í bréfinu. Aðrir segja að hér séu menn komnir út í móa og það sé verið að fullkomlega misskilja þetta með saltið (kannast fræðimaðurinn ekki við myndlíkingu Krists um salt jarðar, spyr maður sig?) Þá vilja aðrir meina að „leyniguðspjallið“ sé augljóslega skrifað með það í huga að gera Krist samkynhneigðan, og að slík hugmynd geti eingöngu komið frá 20. aldar fólki með sínar nútímalegu hugmyndir um kynhneigðir. En hér eru menn í kostulegri mótsögn: Það eru þeir sjálfir sem lesa þessar vísanir í samkynhneigð inn í textann, allt sem þar raunverulega stendur er að Jesús fari með unga manninum inn í hús og kenni honum eitthvað um himnaríki.

Loks er bent á að brotin úr „leyniguðspjallinu“ passi grunsamlega vel við restina af Markúsarguðspjalli, þar sem oft birtist á vappi einhver ungur maður, stundum ríkur, stundum í línklæðum yfir nekt sinni, alveg eins og í „leyniguðspjallinu“ (10:17–22; 14:51–52, 16:5). Sömuleiðis minnir sagan um upprisu þessa unga manns mjög á söguna af Lasarusi í Jóhannesarguðspjalli (11:5), en það guðspjall var samið löngu á eftir Markúsarguðspjalli. Þetta þykir benda til að „leyniguðspjallið“ hafi verið samið af einhverjum sem þekkti Markúsarguðspjall og Jóhannesarguðspjall vel, og getur hann þá ekki verið Markús sjálfur. En þá má alveg eins halda því fram að þetta passi svona vel saman út af því að „leyniguðspjallið“ sé upprunalega útgáfa Markúsarguðspjalls eftir Markús, en að útgáfan sem við þekkjum sé stytt og stýfð; og að Jóhannesarguðspjall sæki söguna af Lasarusi einmitt í þessa frumútgáfu Markúsar. Eins og Pílatus sagði, hvað er sannleikur? Ekki veit ég: Ég þvæ hendur mínar af þessu. Hugsanlega má þó segja að „leyniguðspjallið“, sé það raunverulega fornt, sýni aðallega þá þekktu staðreynd að til voru fleiri en ein útgáfa af hinu helga orði á fyrstu og annarri öld eftir Krist. Það er kannski aðallega synd að við vitum ekki meira um útgáfuna sem hafði „nakinn mann með nöktum manni“: Það væri almennilegt!

Lestu þetta næst