Nýlega kom út bókin Tríó eftir hina ungu Johönnu Hedman. Halla Kjartansdóttir þýddi. Bókin fjallar um þrjú sænsk ungmenni sem eru að fóta sig í lífinu. Þau ganga í háskóla í Stokkhólmi og eru af mismunandi uppruna og samfélagsstigi. Hugo fær herbergi í húsi foreldra Thoru sem er af umdeildri sænskri yfirstétt, Stiller fjölskyldunni. Besti vinur hennar er August, ungur listamaður sem vinnur þó á auglýsingastofu til að framfleyta sér. Hugo hrífst að Thoru og August, og nánu sambandi þeirra. Eru þau elskendur, eða bara æskuvinir? Lengi fylgist hann með þeim í fjarlægð en að lokum vingast hann við þau bæði og við það myndast hálf furðulegt tríó þar sem þau öll tengjast strekum böndum og mörkin milli vina afmást.

Nýstúdentar í Stokkhólmi

Frásagnarheimurinn er lifandi, Stokkhólmur stekkur af blaðsíðunum og lesandinn fær sterka tilfinningu fyrir tilveru þessara ungmenna. Þau hjóla í partý, læra á bókasafninu, fara í tíma og hittast á kaffihúsum. Lifa frekar hefðbundnu lífi nýstúdenta og fólks sem er að fóta sig í lífinu. Það er þó stéttarmunur sem kemur alltaf sterkar og sterkar í ljós. Thora þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum, gæti í rauninni fengið allt upp í hendurnar ef hún vildi. Móðir hennar er listfræðingur og uppreisn Thoru gegn móður sinni er að fara í lögfræði, sem flestir myndu nú telja vera metnaðarfullt, en á heimili Thoru er það ómerkilegt þar sem listin er í hávegum höfð. Thora er sjálf svolítið í mótsögn við sjálfa sig en hún skráir sig í bókmenntakúrs á kvöldin sem veldur því að hún og Hugo kynnast betur. Það eru þó Hugo og August sem ná fyrst saman og verða bestu vinir. Thora öfundar þá af vináttu þeirra í fyrstu en verður svo hluti af þeirra hring þegar Thora og Hugo brjóta loks odd á oflæti sínu og ná saman.

Samskipti og samskiptaleysi

Bókin fjallar mikið um samskipti, beint og óbeint. Lesandinn fær að fara inn í hugsanir Hugo og Thoru til skiptist og fær að sjá framvinduna með þeirra sjónarhorni. Oft er það samskiptaleysi sem verður þeim að kolli, þau segja ekki það sem þau meina og þora ekki að bera upp tilfinningar sínar eða viðurkenna ást sína. Þau kjósa frekar að þjást í þögn. Sem er orðið svolítið algengt þema í bókmenntum þar sem þessi aldur kemur við sögu en sem dæmi má nefna allar skáldsögur Sally Rooney sem fjalla líka um ungmenni sem virðast ekki geta tjáð sig né ást sína almennilega. Þá á ég við bækur á borð við Okkar á milli, Eins og fólk er flest og Beautiful World, Where are You?Sjálf hef ég mjög gaman að þessum bókum og sekk ofan í heim persónanna þó að mig langi stundum til að taka og hrista þær til svo þau komi út úr sér því sem þau virkilega meina.

 

Tríó er vel skrifuð og sterk skáldsaga um ungt fólk sem er að feta sín fyrstu skref inn í heim fullorðinna. Þau deila á samfélagið og brenna fyrir að breyta heiminum en geta svo ekki tekið stjórn á sínu eigin lífi. Ástin og nándin er alltumlykjandi en þeim gengur misvel að leyfa sér að vera hamingjusöm.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.