Ástaróður til Mæðgnanna

Mánudaginn níunda apríl árið 2001 þegar ég var ekki orðin átta ára gömul hóf RÚV að sýna þáttaröðina Mæðgurnar sem er eflaust þekktari undir upphaflega heitinu Gilmore Girls. Íslenski titillinn stendur þó hjarta mínu nær, því það voru einmitt við mæðgurnar, ég og eldri systir mín og mamma okkar, sem hófum áhorf á þessa þætti stuttu síðar. Það er ótrúlegt að yfir tveimur áratugum síðar horfum við systur enn mjög reglulega á þessa þætti, og ég held að ekkert annað sjónvarpsefni hafi fylgt mér á sama hátt í gegnum lífið.

Fyrir þá sem hafa ekki kynnst þáttunum er fínt að nota lýsingu úr sjónvarpsdagskránni árið 2001: „Bandarísk þáttaröð um einstæða móður sem rekur gistihús í smábæ í Connecticut-ríki og dóttur hennar á unglingsaldri.“ Hljómar ekkert rosalega spennandi er það? Það vantar hins vegar þær lykilupplýsingar í þessa lýsingu að einungis er sextán ára aldursmunur á mæðgunum og því lifa þær meira eins og tvær vinkonur saman en móðir og dóttir.

Kvenorkan á heimilinu

Þegar við hófum áhorf vorum við mæðgurnar vægast sagt nánar, mamma var ein með okkur og bróðir minn fluttur að heiman og því mikil kvenorka á heimilinu. Það var auðvelt fyrir okkur að tengja við þættina, þær fjölluðu um óhefðbundið fjölskyldumynstur sem minnti okkur líklega á einhvern hátt á okkar eigið; mamma var ekki unglingur þegar hún átti okkur en eftir fráfall föður okkar þá kom hún oft fram við okkur systkini sem jafningja, spurði okkur hvað okkur fannst áður en hún tók stórar ákvarðanir um líf og framtíð fjölskyldunnar og leyfði okkur oftar en ekki að velja sjónvarpsefni og kvöldsnarlið svo eitthvað sé nefnt. Nándin var þó það stóra sem við áttum sameiginlegt með þeim Gilmore mæðgum, og þessi nánd er enn til staðar í dag eftir að við systur stofnuðum okkar eigin fjölskyldur. Líklega mun kvenorkan halda áfram enda eigum við systur enn sem komið er bara kvenkyns afkomendur.

Gilmore stelpurnar birtust á Netflix árið 2014 og þá kynntust margir sem höfðu ekki haft aldur eða áhuga til að horfa á þættina á RÚV í denn þeim mæðgum. Þættirnir voru gagnrýndir meira þá en upphaflega; Tíðarandinn hefur breyst og ljóst er að leikarahópurinn er ekki mjög fjölbreyttur og endurspeglar þannig ekki fjölbreytileikann í bandarísku þjóðfélagi. Engar opinberlega samkynhneigðar persónur koma við sögu (þó að þetta breyttist nú í þáttunum í Gilmore Girls – A year in the life sem voru framleiddir fyrir Netflix árið 2016). Rory, dóttirin, var kannski full ofdekruð og lifði í búbblu. Engu að síður urðu þættirnir afar vinsælir og eins og ég nefndi var framleidd ný sería (fjórar 90 mínútna „kvikmyndir“) um mæðgurnar. Ég, eins og margir aðrir, var ekkert rosalega hrifin af þeim. Tími Mæðgnanna hafði að mínu mati runnið sitt skeið, það var ánægjulegt að horfa á sumar senur vegna nostalgíu en ýmislegt var út úr karakter og hálf undarlegt í nýju þáttaröðinni.

Metnaðarfullar mæðgur

En hvað er það sem heldur manni föstum við sama sjónvarpsefni í tvo áratugi og hvað er svona sérstakt við Mæðgurnar? Þrátt fyrir alla galla persónanna þá eru ekki mikið af sjónvarpsefni þar sem konur eru í framsætinu, aðalpersónur þáttanna og höfundur þáttanna voru konur, þetta var ekki algengt fyrir tveimur áratugum og enn þann dag í dag alls ekki hlutfallslega eins og það ætti að vera (þó við getum þakkað fyrir miklar framfarir í þeim málum). Það eru jafnframt sjaldgjæft að unglingspersóna sé jafn metnaðarfull (Rory stefnir á Harvard háskóla frá fyrsta þætti) og sé á jafn raunsæjan hátt sýnd vera að vinna sér inn fyrir plássinu. En það er ekki bara Rory sem er metnaðarfull; Lorelai móðir hennar flúði æskuheimili sitt stuttu eftir að hafa eignast barn sextán ára gömul, hefur allar götur síðan staðið á eigin fótum og er að vinna í að uppfylla draum sinn um að reka eigið gistiheimili. Við mæðgurnar vorum allar mjög metnaðarfullar í mínum uppvexti og ég held að við systur höfum á vissan hátt átt góðar fyrirmyndir í þessum persónum. Systir mín endaði meira að segja á að fara í Harvard! Svo minnir Emily, móðir Lorelai, á skondinn hátt á ömmu mína sem á allan heiður af þeim mannasiðum sem ég hef tileinkað mér. En talandi um hana, þegar við mæðgur fluttum erlendis árið 2002 og ekkert RÚV í boði, haldið þið að amma hafi ekki tekið Mæðgurnar upp á spólu vikulega og sent okkur mánaðarskammt í einu: jább við vorum svona miklir aðdáendur og amma svona frábær!

Við fjárfestum í DVD safni Mæðgnanna þegar tæknin leyfði en nú eru þeir diskar löngu farnir í Góða Hirðinn og við horfum á Netflix. Ég hef fundið að þættirnir veita mér alltaf eitthvað öryggi og nýt ég þess að horfa á þá í blíðu og stríðu. Ég horfði á þá þegar ég flutti ein erlendis átján ára gömul og kom nokkrum háskólavinkonum á bragðið, þegar við systurnar bjuggum loksins báðar á Íslandi eftir mikið flakk horfðum við saman á þættina, og þegar nýburinn minn hékk á brjóstinu mínu heila nótt til þess að mjólkin myndi koma, hvað haldið þið þá að ég hafi horft á?

Ekki bara kvenaðdáendur!

Við eigum öll einhverja nostalgíu sem við leitum í, í bókum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum, en mér þykir merkilegt hversu margir eiga svona persónulegt samband við Mæðgurnar og geta horft endalaust á þær, hvenær sem þeir kynntust þeim fyrst. Þetta eru ekki bara konur ef einhver heldur það, einhverjir hörðustu aðdáendur þáttanna eru The Gilmore Guys sem gerðu hlaðvarp með einum þætti um hvern þátt seríunnar. Ég sé ekki fram á að það muni breytast þó áratugurnir líði, en ég og besta vinkona mín höfum einmitt rætt það að vera saman í herbergi á elliheimili ca árið 2100 og liggja yfir efninu eins og þegar við vorum unglingar. Það verður gaman að sjá hvort það rætist!

Kæri lesandi ég ætla ekki að skilja þig eftir með mikilvæga spurningu um afstöðu minni til þáttanna. Ég lýk þessum pistli með því að lýsa því yfir að ég er #TeamJess.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...