Lík í Leiruvoginum og tæpur lögfræðingur

Sálfræðitryllirinn Kverkatak eftir Kára Valtýsson kom út hjá bókaútgáfunni Hringaná í mars. Áður hefur Kári gefið út tvær bækur – vestrana Hefnd og Heift. En að þessu sinni er það ekki Villta Vestrið sem er til umfjöllunar heldur Ísland nútímans.

Hægfara niðurbrot

Bókin er harðsoðinn sálfræðitryllir um miðaldra lögfræðing sem lifir í vellystingum; á fallega konu, ríkmannlegt heimili, flottann bíl og stöðuga vinnu. En það er eitthvað sem skortir og þegar gríðarlegt áfall ríður yfir fjölskylduna myndast sprungur í lífi hans hægt og rólega brotnar allt niður í lífi hans. Þegar við bætist að nýr lögfræðingur tekur til starfa hjá tryggingafélaginu, ung og aðlaðandi kona, fara undarlegir hlutir að gerast. Hvernig endar miðaldra lögfræðingur á því að fela lík í Leiruvognum?

Yfir öllum textanum er kuldi, raki, vond lykt og tilfinningin fyrir því að aðalsögupersónan sé á ystu nöf. Dauði sonar hans hefur ýtt honum út að mörkunum. Hann sefur ekki og samband hans við konuna hans hefur farið hríðversnandi. Þegar næsta áfall ríður yfir á brotnar allt.

Fléttan í bókinni er þétt og sannfærandi. Við hvert atvik í lífi lögfræðingsins sekkur lesandinn lengra niður í fenið með lögfræðingnum. Það er eiginlega engin leið að hætta að lesa bókina. Leitin að sannleikanum verður alltumlykjandi.

Myndrænn stíll

Ef ég ætti að lýsa stíl Kára með einu orði, þá væri það “hráslagalegur”. Textinn er mjög hlaðinn lýsingarorðum, sumum hefði vel mátt sleppa eða skipta út fyrir önnur. Mér dettur í hug orðið “kámugt”. Orðið var of mikið notað til að gefa í skyn bæði sinnuleysi og hrörnandi heimsmynd persónanna í sögunni. Sagan er mjög myndræn, sem er stíll sem Kári hefur verið að vinna með í fyrri bókum líka.

Mér þótti greinilegt af flæði textans og sögunnar að höfundur tekst á við efni sem hann þekkir betur en Villta-Vestrið. Kári hefur sjálfur sagt að tengingin á milli aðalpersónunnar í bókinni og hans sjálfs sé ekki meiri en sú að hann er líka lögfræðingur. Sem betur fer! Það sést að þetta er heimur sem er honum tamari og það skilar sér í bókinni. Umfjöllun um samninga, landkaup og annað svolítið (að mínu mati) óspennandi verður að vendipunkti í sögunni. Og Kári kemur þessi mjög vel til skila. Sjálf hefði ég viljað ögn meiri innsýn í fortíð lögfræðingsins.

Ég átti erfitt með að slíta mig frá söguþræðinum, þótt fléttan hafi verið örlítið fyrirsjáanleg og stíllinn aðeins of hlaðinn lýsingaorðum. Kári fléttar fleiri óvissuþáttum inn í söguþráðinn sem gerir Kverkatak að spennandi sálfræðitrylli sem fær lesandann til að fletta áfram.

 

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...