Hvar er mamma? eftir Chris Haughton er bók sem við yngsti sonurinn römbuðum á í vikulegri ferð okkar á bókasafnið. Bókin er harðspjaldabók sem hefði allt eins getað sómt sér í pappírsbók, en það er vissulega mikill sjarmi við að bókin sé harðspjalda. Bókin kom fyrst út árið 2010 í Bretlandi undir titlinum A bit lost, en birtist okkur Íslendingum í frábærri íslenskri þýðingu Guðrúnar Urfalino Kristinsdóttur árið 2019. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Litli sæhesturinn sem gefur út einstaklega fallegar og vandaðar barnabækur sem vert er að taka eftir –  má þar nefna hinar ómótstæðilegu bækur um Dinnu.

Einföld og einlæg saga

Ugla litla fellur úr hreiðrinu og þarf að finna mömmu sína aftur. Til allrar hamingju er íkornin til í að hjálpa. Saman leita íkorninn og ugla litla að mömmu, sem er stór, með sperrt eyru og stór augu. Það ætti ekki að vera erfitt.

Litapallettan í bókinni er æpandi bleik, róandi mosagræn, dökkblá í bland við öskandi appelsínugulan. Hún er því allt í senn róandi og örvandi. Litapallettan minnir mig samt sterkt á heitt síðsumarkvöld, rétt í ljósaskiptunum. Vegna þess hve ég nýt þess að horfa á bókina, klappa henni og skoða þá finnst mér hún tilvalin fjölskyldubók. Við mægðinin höfum núna skoðað bókina ansi oft saman, hún er mjög vinsæl, og ég er ekki enn orðin leið á henni, heldur finn ég nýtt smáatriði að skoða við hverja lesningu. Eða nýtt umræðuefni að ræða við son minn.

Sagan í bókinni er einföld leit að mömmu, með útúrdúrum enda ruglast íkorninn ansi oft á því hver mamma sé. Börn geta auðveldlega samsvarað sig við viðfangsefni bókarinnar, þau skilja söguþráðinn og hlæja að bröndurunum. Það er til dæmis alveg bráðfyndin myndin af skógarbirninum bláa sem íkorninn heldur að sé mamma uglunnar. Hann situr svo skemmtilega álkulegur, hissa á svip með starandi augu. Húmorinn leynist í samspili texta og mynda.

Gæða harðspjaldabók

Að lokum kemst Ugla litla heim til mömmu, sem grætur af létti við að finna litla ungann sinn, annað sem börn skilja mjög auðveldlega – léttirinn að komast í mömmufang. Uglumamma býður bjargvættunum upp í hreiður í kex, annað sem börn geta auðveldlega tengt við. Kex er gott. En Ugla litla er klaufsk sem áður og bókin endar á yfirvofandi falli hennar úr hreiðrinu. Þannig endar bókin á byrjunarreit og hægt er að hefja lesturinn upp á nýtt.

Það er ómetanlegt að fá gæða harðspjaldabækur sem þessa þýdda yfir á íslensku. Bókin er listaverk og við einfalda leit sá ég að Haughton hefur nú þegar skrifað fjölda barnabóka í sama stíl og þessi. Þar af hefur ein önnur bók verið þýdd yfir á íslensku – Æi nei, Georg þó um hundinn Georg sem er ansi óþekkur. Sú bók er orðin að leiksýningu fyrir yngstu börnin í heimalandinu og hér að neðan er hægt að sjá klippu úr sýningunni. Ég vona að fleiri bækur Haughton verði þýddar yfir á íslensku.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...