Lestrarlægðin og núvitundin

Allir kannast við það að lenda í smá lestrarlægð. Þegar ekkert virðist grípa mann, þegar persónur bókanna hætta að lifna við, þegar einbeitingu skortir. Það er hræðilega leiðinlegt og virðist vera að koma æ oftar fyrir mig upp á síðkastið. Ég veit ekki hvort það sé aldurinn með síauknu stressi um að þurfa endalaust að vera gera eitthvað ‘’af viti’’ – eða hvort það sé sínálægi skjárinn sem hefur að geyma alls kyns afþreyingu. Auðveldur og ávanabindandi. Með fögur fyrirheit en oft og tíðum ekkert gagnlegt innihald.

Í vinnunni er ég umkringd bókum. Svo mörgum spennandi og áhugaverðum bókum sem gerast í fjarlægum löndum, sem tala inn í kviku, sem hrífa mann eða framkalla tár. Ég á erfitt með að velja einungis eina í einu. Þetta er því orðið vandamál. Ég vil lesa, en gef mér ekki tíma til að ná að lesa. 

Það er þetta með hraða samfélagsins, með sívaxandi óróann og athyglisbrestinn innra með okkur öllum. Hvernig við getum aldrei verið almennilega á staðnum. 

Ég veit ekki hversu oft ég hef staðið mig að því að vera horfa á þátt á Netflix, með símann í hönd að skrolla og ekki með fulla athygli á neinu. Bara hugsanalaust skroll, myndir og ljós. Ekkert situr eftir. Ég eyddi tíma. Svo eru  þeir dagar þar sem ég hef ekki litið í símann í langan tíma, heldur frekar leikið mér – og að loknum degi kíki ég og sé að ég hef ekki misst af neinu.

Bók í nesti

Á tímum þegar flestir vilja finna núvitund er einmitt gott að minna á að lestur er ágætis núvitund. Ég þarf að minna sjálfa mig á þetta reglulega. En núvitund er sú vitund sem skapast við að beina athyglinni með ásetningi. Að setjast niður með bók, lesa og einbeita sér eingöngu að orðum. Að sökkva inn í sagnaheim í huganum er bæði góð heilaleikfimi en einnig góð leið til að róa hugann. Að hverfa frá um stund, en á þann hátt að þurfa að efla skilningarvitin, hugsun og ímyndunaraflið. 

Ég hef því ákveðið að setja mér þann sið að lesa bók í kaffipásunni í vinnunni, frekar en að líta á einhliða sögu uppstilltra mynda á samfélagsmiðlum. Einnig reyni ég að finna tíma allavega eina kvöldstund í viku til að lesa heima. En ég passa mig alltaf að setja ekki of mikla pressu á mig. Ekki of háleit markmið. Bara að lesa lestursins vegna.

En þau ráð sem ég hef til að losna úr lestrarlægð eru helst þau að velja fremur stutta og snarpa bók, jafnvel spennusögu eða vel skrifað smásagnahefti. Á þessum óeirðartímum er ekki gott að velja hnausþykka doðrantinn sem þú hefur alltaf ætlað að lesa því að einhver sagði að það væri voða kúl. Og ekki reyna að rembast við að klára bók sem er ekki að hræra neitt innra með þér. Þegar orðin virðast bara flögra í gegnum höfuðið án þess að skila sér almennilega í gegn. Eða þegar þú ert sífellt að kíkja á klukkuna, eða hversu margar blaðsíður eru eftir. Og mundu, það má hætta í miðri bók og velja aðra. Það er líka gott að koma sér vel fyrir, hafa drykk við hönd og gera meira úr upplifuninni. Lestrarlægðin fer um leið og lesturinn er kominn í takt, um leið og það er orðið að skemmtun en ekki skyldu. Um leið og sagan vekur áhuga. 

Nokkrar stuttar og snarpar sem ég mæli með:

 

Ru – Kim Thúy 

Myrkrið milli stjarnanna – Hildur Knútsdóttir

Lífið að leysa – Alice Munro 

Sumarbókin – Tove Jansson

Kvika – Þóra Hjörleifsdóttir

Aldingarðurinn – Ólafur Jóhann Ólafsson

 

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...