Karlar sem elska sjálfa sig

Nú hafa leikhúsin opnað aftur eftir gott sumarfrí og unnendur sviðslista geta snúið aftur í stóru salina og notið sjónarspils komandi leikárs. Borgaleikhúsið bauð upp á Umbúðalaust festival laugardagskvöldið 3. september og ég ákvað ég að skella mér á þær sýningar sem Lestrarklefinn hefur ekki þegar fjallað um, en Sjöfn Hauksdóttir fór á FemCon á síðasta leikári. Fyrir þá sem ekki vita þá er „markmiðið með Umbúðalausu er að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur.“ (borgarleikhusid.is)

Hér verður fjallað um verkið How to make love to a man og svo mun vera hægt að lesa um verkið Á vísum stað í framhaldsfærslu. Því miður verður ekki hægt að ganga að sýningunum vísum á næstunni þar sem þær voru aðeins sýndar aftur þetta eina kvöld. Búið er að kynna nýju leiksýningarnar sem taka þátt í Umbúðalaust á þessu leikári, en verkefnið hlaut einmitt Sprota ársins 2022 á Grímunni.

Gráir jakkar, gráir gallar

Þegar áhorfendur ganga inn á Nýja sviðið þar sem festivalið er haldið (en yfirleitt er Umbúðalaust sýnt í einum af æfingasölum Borgarleikhúsins á þriðju hæð) blasa við þeim hrúgurnar af stöfluðum dekkjum á víð og dreif um sviðið. Þrír gráir jakkafatajakkar hanga úr loftinu, en ef vel er að gáð má sjá stöku litrík gerviblóm og aðra leikmuni inni í nokkrum dekkjum. Sýningin hefst og þrír leikarar birtast á sviðinu. Meðlimir sviðslistahópsins, sem kalla sigToxic Kings, eru þeir Andrés P. Þorvaldsson, Ari Ísfeld Óskarsson og Helgi Grímur Hermannsson. Fjórði meðlimur hópsins, Tómas Helgi Baldursson, sá um leikstjórn ásamt því að fara með nokkrar línur úr sal seinna í sýningunni. Leikararnir þrír standa í hring og stara upp á jakkafatajakkana, teygja sig í þá, rétt ná að snerta þá, en sjálfir eru þeir klæddir gráum kósígöllum. Sýningin er svolítið lengi að byrja, það er þó eitthvað kómískt við að horfa á fullvaxta menn reyna að teygja sig upp í jakkana og mistakast ítrekað. Þegar kemur að senuskiptingunni þá er hún snögg en þessi skipting er það sem einkennir sýninguna. Farið er inn og út úr senum á snarpan máta, jafnvel stundum  að því er virðist eins og þær séu samtengdar, þó að þær séu það ekki.

Pússíkarl heima

How to make love to a man er yfirskrift fyrirlesturs sem tveir af þeim eru að æfa í einni senunni, þið þekkið þetta, svona sjálfshjálpar-fyrirlestur sem á að fylla alla viðstadda af innblæstri og orku. Hér er karlmennskan tekin fyrir. Hvernig karlmenn eiga að elska sjálfa sig. Annar fyrirlesaranna er þó ekki sannfærður, honum finnst þetta of ýkt og vill meina að menn séu bara alltaf að þykjast og vilji frekar vera pússíkarlar heima. Nú klæddir í svarta boli með áletruninni pússíkarl heima í áberandi og litríku letri. 

Senurnar flæða fram hver af annarri og allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eitraða karlmennsku, hvað það þýðir að vera karlmaður í nútímasamfélagi. Erkitýpa kúrekans í villta vestrinu kemur fyrir, leikin af Andrési P. Þorvaldssyni, en hann er sonurinn sem vill verða listamaður og afneita föður sínum og fjölskyldufyrirtækinu í Kúrekabæ. Ari Ísfeld fór alveg hamförum sem aldraður faðirinn sem er fastur í fortíðinni, situr í loðfeld og húfu og étur rófu, alveg þessi týpíska erkitýpa af rússneskum karlmanni. Senan átti endurkomu í seinni part verksins og hláturinn glumdi um salinn vegna Ara sem gjörsamlega gekk af göflunum í hlutverkinu. Rófubitar frussuðust úr munni hans er hann úthúðaði syninum sem hann ætlaði svo sannarlega að afneita ef hann yrði væminn listamaður sem myndi yfirgefa Kúrekabæ.

Gráu svæði karlmennskunnar

Senurnar voru missterkar, misvel skrifaðar. En sumar hittu alveg gjörsamlega í mark í ádeilu sinni á eitraða karlmennsku. Ég verð að nefna tvær senur sem runnu saman hvor í aðra. Tveir vinir sitja í heita pottinum og ræða um daginn og veginn. Samræðurnar stöðvast þó skyndilega og þeir líta rólega frá hægri til vinstri, eins og einhver mjög áhugaverður sé að ganga framhjá. Þetta er auðvitað sprenghlægilegt þar sem það er auðvelt að ímynda sér hvað þeir sáu, ekki satt? En svo kemur þriðji vinurinn sem er augljóslega giftur, en hann horfir vandræðalega niður og til hliðanna þegar þessi áhugaverða manneskja gengur aftur framhjá þeim. Þetta vakti mikla kátínu meðal áhorfanda en þessi sena leiddi beint inn í áhrifamikla einræðu Helga Gríms þar sem hann leikur föður ungrar unglingsstúlku. Hann útskýrir fyrir henni hvernig hún muni nú hætta að vera barn og verða að kjötstykki sem karlmenn eigi fullan rétt á að hlutgera. Þeir muni horfa á rassinn hennar í sundi eins og hann sé almenningseign og vera óþægilegir við hana á djamminu. Faðirinn útskýrir einnig fyrir dóttur sinni að hann mun mótmæla góðlátlega þegar vinir hans haga sér svona en skipta sér ekki af því. Hér kemur sýningin inn á sínar sterkustu hliðar, þegar hún fer inn á þessi gráu svæði sem karlmenn þora ekki að tala um eða orða. Þegar þeir sjá vini sína áreita aðrar konur, þegar þeir gera ekkert til að bæta heiminn fyrir dætur sínar, grípa ekki inn í þegar óviðeigandi hegðun á sér stað.

Skemmtilegir, ríkir, góðir læknar

Það er þó einnig mikið af knúsum og fallegri karlmennsku í verkinu, leikararnir þrír sjást í einni senu sem æskuvinir, litlir pollar að leika sér með Action Man og trésverð. Þeir spjalla um framtíðina og ákveða að verða skemmtilegir, ríkir og góðir læknar. En í næstu senu þegar þeir hittast 18 árum síðar eru þeir allar vanhæfir til að tjá sig við hvorn annan, geta ekki sýnt hvor öðrum samúð eða opnað sig. Tilfinningaþroskinn gjörsamlega staðnaður.

Þegar fyrirlesarararnir snúa aftur í lok sýningar segir annar þeirra stopp og ákveður að hætta. Honum finnst fyrirlesturinn innihaldslaust blaður, það fer enginn á fyrirlestur og lærir að vera betri maður, stökkbreytist á tveimur klukkutímum með ráðum eins og „Drekktu vatn“. Hér er verið að benda á að karlmennskan er töluvert flóknara fyrirbæri en sumir gera sér grein fyrir. Það er þung byrði sem hangir á baki þeirra sem passa ekki inn í hið fyrirfram ákveðna form karlmennskunnar. Þeir þurfa að synda á móti straumnum og berjast gegn fordómum, bælingu tilfinninga og úreltum samfélagsvenjum. Og já, það má vera pússíkarl heima. 

How to make love to a man er stórskemmtileg sýning með beittri ádeilu. Hún er með virkilega góða spretti en inn á milli hefði mátt fínpússa senurnar betur, taka út langdregna kafla og styrkja tengingarnar og þræðina í verkinu. Leikurunum þremur tókst mjög vel að skapa ánægjulega kvöldstund en sýningin styrktist til muna eftir því sem leið á hana. Oft byrja sýningar með sprengju og dala svo, en því var öfugt farið hér. Seinni partur sýningarinnar, þegar tengingarnar á milli senanna urðu skýrari, var stórfyndinn og ádeilan náði betur í gegn.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...