Þitt annað heimili – fullt af bókum!

Mitt hverfisbókasafn var Kringlusafnið. Nema á þeim tíma var það ekki í Kringlunni heldur í kjallara Bústaðakirkju og var kallað Bústaðasafn. Ég man eftir bókahillum upp í loft, stuttum göngutúrnum frá húsinu mínu í átt að spennandi lesefni. Ég man þetta líklega skakkt, eins og flest okkar gerum, allavega þetta með hillurnar upp í loft og mikilfengleika alls. Ég man óljóst eftir þessum tíma. En það var eitthvað heilagt við bókasafnið, og kannski var það vegna þess að það var hýst á neðri hæð kirkjunnar, eða kannski vegna þess að ég dýrkaði bækur og elskaði að lesa. Líklega einhver blanda af báðu.

En þangað fór maður og sótti sér bækur. Því það var einmitt hlutverk bókasafnsins á þeim tíma, að geyma bækurnar sem fólk sótti sér til aflestrar. Þar átti að vera grafarþögn (hugmyndin um sussandi bókasafnsfræðinginn er jafnvel enn í dag rótföst í hugmyndafræði hvers mannsbarns) og þar var kannski einn fúllyndur fræðimaður að grúska í myrkvuðu horni. Nema hornin voru reyndar aldrei myrkvuð, heldur upplýst af stofnanalegum flúorljósum.

En þetta var líka staður þar sem hægt var að finna ótal ævintýraheima. Staður þar sem hægt var að fara í tímaflakk, svífa í aðra veröld, setja sig í önnur spor. Enn þann daginn í dag hafa bókasöfn einmitt að geyma þennan töfrandi og magnþrungna möguleika –  í öllum þeim hundruðum eða þúsundum bókatitla sem er að finna í hillunum. Allt fyrir lítið árgjald. Opið öllum og aðgengilegt.

Dýrmæt uppspretta

En ég hugsa oft um það hvað það hefði verið mér dýrmætt ef bókasöfn hefðu verið komin á þann stað þá, og þau eru komin á nú. Hvað litla Díana hefði haft mikið gagn og gaman af endurbættri starfsemi bókasafna. Bókasöfn hafa vaxið svo mikið og svo hratt að orðið „bókasafn“ nær varla utan um starfsemina. Það er svo margt sem bókasöfnin bjóða okkur upp á í dag. Þar á meðal fríar ritsmiðjur fyrir börn undir handleiðslu stærstu rithöfunda þjóðarinnar, litla Díana hefði pissað í sig af spenningi og mögulega náð að virkja þá sköpunargáfu mikið fyrr, sköpunarrými með vínylskera og þrívíddarprentara, tækifæri til að búa til sitt eigið barmmerki, tónlistarsmiðjur, smiðjur sem bjóða upp á tækifærið til að sjá myndmál kvikmynda og bókmennta, og námskeið sem kenna forritun á nýjan og spennandi hátt. Aðgengileikinn er líka lykilatriði hérna. Allir hafa aðgang og allir eru velkomnir. Bókasöfn nútímans eru á sama tíma verkfærakista og þitt annað heimili. Þau hafa að geyma tól og tækifæri. Viltu sauma en átt ekki saumavél? Bókasafnið reddar þér. Vantar þig verkfæri? Bókasafnið reddar þér. Kökuform eða borðspil? Þið vitið svarið.

Bækurnar eru auðvitað ennþá í stóru hlutverki – en söfnin eru ekki lengur hugsuð sem geymslustaður, heldur sem lifandi miðstöð þekkingar og afþreyingar.

Með öðrum orðum þá er bókasafnið í dag rými til að uppgötva nýja hluti, skapa með öðrum, grúska og leika sér. Ekki einungis verður skáldskapurinn meira lifandi í samtölum, í fyrirlestrum og á námskeiðum heldur verða aðrir angar menningar og sköpunar hluti af breytunni. Bækurnar eru auðvitað ennþá í stóru hlutverki – en söfnin eru ekki lengur hugsuð sem geymslustaður, heldur sem lifandi miðstöð þekkingar og afþreyingar. Staður fyrir fólk til að deila þekkingu. Við töpum ef við gefum bókasafninu einungis einhliða hlutverk.

Hugsjónin komin aðeins hálfa leið

Söfn úti í heimi eru alltaf nokkrum skrefum á undan okkur en þar er þessi hugsjón um að bókasafnið eigi að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir fræðslu, afþreyingu, tólum, tækjum, rýmum, miðlunarleiðum – og á sama tíma vera lifandi og sífellt vaxandi rými til sköpunar, löngu orðin samþykkt og sjálfsögð. Hér er þetta að þokast í þá átt að einhverju leyti, en breytingarnar koma seint og of hægt vegna þess að hér hefur innstimplunin um breytt hlutverk bókasafna ekki náð jafn vel inn til allra.

Í dag nýt ég þess heiðurs að vinna á bókasafni sem viðburðarstjóri svo litla Díana hefur tækifæri til að gefa öðrum litlum tækifæri á að kynnast nýjum, spennandi möguleikum. En margir eru enn fastir í gamalli hugsun og vita ekki endilega af þeim verkfærum og upplifunum sem bókasafnið getur boðið samfélaginu upp á. Bókasafnið er og ætti alltaf að vera menningarmiðja og kjarni hvers samfélags. Og í þessa þungamiðju ætti að leggja mikla alúð, hún skal vegsömuð og gert hátt undir höfði. Ef ekki, þá er samfélagið að tapa miklum verðmætum og tækifærum.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...