„Penelópa gegnir afar mikilvægu starfi,“ segir á fyrstu síðu nýútkominnar barnabókar, Penelópa bjargar prinsi, frá Bókabeitunni. „Hún er prinsessa.“

Á næstu síðum lærum við um skyldur Penelópu, en hún sækir meðal annars fundi og bjargar hundum, kyssir ungabörn og berst við dreka. En á kvöldin, áður en Penelópa fer að sofa, les pabbi hennar fyrir hana ævintýrið um prinsinn í kistunni. Prinsinn sem hefur legið hulinn glerhjúp á fjallstindi í hundrað ár. Hin ævintýragjarna og réttsýna Penelópa ákveður að eina vitið sé að leggja í langferð og bjarga aumingja prinsinum, pakkar sér nesti og heldur út í heiminn.

Á ferðalagi sínu til að bjarga prinsinum ónefnda hittir hún alls kyns fólk og furðuverur, og nær alltaf að snúa sig út úr vanda sem hefur verið ófáum prinsessum fyrr á öldum fjötur um fót. Hún til dæmis þiggur ekki mat frá ókunnugum (hún er með nesti), hún þvertekur fyrir að fara að vinna sem húshjálp hjá sjö lötum bræðrum og neitar bónorði, enda er hún bara barn.

Hún lítur út eins og ég

Ég las bókina með Efiu, átta ára stjúpdóttur minni, enda algjör vitleysa að ætla að dæma barnabækur án þess að prófa verkið á alvöru barni. Við opnuðum bókina og á fyrstu síðu er falleg og litrík mynd af Penelópu prinsessu að horfa yfir ríki sitt. Hún er í bleikum prinsessukjól og auðvitað með kórónu, en það sem greip athygli Efiu var brún húð prinsessunnar og dökkar krullurnar sem streyma niður bak hennar. „Er þetta ég?“ spurði Efia kampakát. Ég sagði henni að nei, þetta væri Penelópa prinsessa, en Efia lét það ekki stoppa sig. „Hún lítur út eins og ég!“ Já, það gerir hún svo sannarlega.

Þetta er í annað skiptið sem við Efia finnum góða birtingarmynd af lítilli stelpu sem lítur út eins og hún í barnaefni. Hina bókina myndskreytti ég sjálf. Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að finna svartar prinsessur eða stelpur í almennu afþreyingarefni fyrir börn, en það er erfitt. Því það er ekki nóg með að Efia vilji sjá sjálfa sig í bókum, hún vill líka hafa ánægju af lestrinum. Hvítir krakkar eiga auðveldara með að sjá sig í sínu uppáhalds efni því úrvalið er svo gríðarlegt, sérstaklega hér á landi þar sem höfundar og þýðendur gleyma oft að fagna fjölbreytileikanum sem Ísland býr yfir.

 

Beint í mark

Penelópa sló þess vegna algjörlega í gegn, en bókin er full af fallegum myndum af Penelópu, vel skrifuð og mjög fyndin. Efia hló upphátt (og ég líka) og þurfti að lesa nokkrar síður aftur oftar en einu sinni. Penelópa prinsessa er líka klár og ákveðin, hún er gerandi í eigin sögu og bókin snýr alls kyns ævintýra- og Disney klisjum beint á haus, Efiu til mikillar ánægju. Auk þessa eru aukapersónur bókarinnar alls konar, Penelópa er ekki eina brúna andlitið í hafsjó hvítra.

Bókin er harðspjalda, í A4 broti og dásamlega fallega myndlýst með litríkum myndum af Penelópu og ævintýrum hennar. Ég veit ekki fyrir hvaða aldur hún er hugsuð en hún virkar í það minnst mjög vel fyrir átta ára börn sem elska prinsessur, Disney og alls konar ævintýri. Sjö mánaða sonur minn var ekki jafn hrifinn, hann reyndi að sleikja bókina aðeins og snéri sér svo aftur að því að naga sitt uppáhalds skáldverk, Ljónsa eftir Birgittu Haukdal.

Lestu meira

Sóley í Undurheimum – skemmtileg saga, með fallegan boðskap.

Sóley í Undurheimum – skemmtileg saga, með fallegan boðskap.

Sóley í Undurheimum er nýjasta viðbótin í áskriftarklúbbi Bókabeitunnar, Ljósaseríunni. Þetta er önnur bókin um hana Sóley en höfundurinn Eygló Jónsdóttir hefur þar að auki gefið út tvær ljóðabækur. Bókin fjallar um Sóleyju, sem ásamt hundinum sínum Bóbó hrapar alveg...

Orrustan um Renóru

Orrustan um Renóru

Þriðja bókin í Dulstafa seríu Kristínar Bjargar er væntanlega í vikunni. Síðustu ár hefur Lestrarklefinn fengið að birta forkafla bókanna í Rithorninu og okkur þótti við hæfi að loka seríunni á sama hátt. Hér er því forkaflinn að bókinni Orrustan um Renóru eftir...

Lestu þetta næst

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...

Gríslingur á tímamótum

Gríslingur á tímamótum

Piglet er alveg að fara að gifta sig. Hún er trúlofuð Kit, sem kemur af ríku fólki og hærri stétt...

Þrjár ferskar spennusögur

Þrjár ferskar spennusögur

 Þegar mikið er um að vera í lífi og starfi eins og oft vill verða á vorin finnst mér fátt betra...