Að hlæja að eða með?

Við aldraður faðir minn sitjum fyrir miðju á þriðja bekk með fulkomið útsýni yfir sviðið í Tjarnarbíói. Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir mun innan skamms stíga á svið og flytja klukkustundarlanga uppistandið Madame Tourette. Salurinn næstum fyllist og stemning er í hópnum, enda frumsýningarkvöld. Tónlist heldur áhorfendum á tánum og hurðirnar lokast.

Þunn lína, að eða með?

Áður en maddaman sjálf stígur á svið undir dynjandi lófaklappi flytur líkamslaus rödd stutta kynningu á Elvu. Röddin lýsir henni með röð móðgana í dulbúningi hróss, svolítið eins og bandarískur pick up artisti, svona gæi sem fer upp að fallegustu konunni á barnum og móðghrósar henni í þeirri von að hún verði nógu lítil í sér til að sofa hjá honum (dæmi: „Fæstum fer vel að vera með svona ógeðslega stórt nef en þú púllar það alveg.“) Setur þessi kynning ákveðin tón sem er gegnumgangandi í verkinu, að hlæja fremur en með.

Á síðustu árum höfum við sem neytendur húmors lært heilmikið um að kýla upp eða niður fyrir sig. Það að kýla upp er að vaða í meirihlutahópa og stórveldi, það að kýla niður er að taka fyrir minnihlutahópa og gera grín að þeim á þeirra kostnað. Sem dæmi má nefna muninn á að gera til dæmis grín að Bjarna Ben annars vegar og fötluðu fólki hins vegar. Elva virðist hafa lært af kýla niður skólanum, sem er ekki skrítið miðað við aldur hennar og þær áskoranir sem hún hefur tekist á við í lífinu sem fötluð kona í siðlausu samfélagi. Það hefur og notið mikilla vinsælda að kýla sjálfan sig niður á síðustu áratugum, en það er aðeins að breytast.

Grínistar stíga á stokk og tala um hvað þeir eru misheppnaðir, heimskir, ljótir og feitir, og áhorfendur hlæja og hlæja að þeim viðtekna sannleik að heimskir, feitir og ljótir séu verra fólk en aðrir. Ef áhorfandinn er ósammála þeim útgangspunkti virkar grínið ekki. Ef uppistandarinn er svo hinsegin eða fatlaður eða brúnn þá er hafsjórinn af bröndurum á kostnað hans enn dýpri, og öllum boðið að hlæja. Ástralski uppistandarinn Hannah Gadsby tók einmitt fyrir áhrif sjálfsniðurlægjandi húmors á hana sem fatlaða hinsegin konu í sýningunni Nanette og hvernig hún hefur ákveðið að hætta að gera grín að sjálfri sér og að bjóða almenningi að hlæja á hennar kostnað.

Þegar kýlt er upp á við

Sýning Elvu stendur ekki og fellur með því að áhorfenda finnist eitthvað að því að vera fatlaður, en það eru ósköp margir brandarar sem eru mun fyndnari ef horft er með þeim augum. Sé áhorfandi samþykkur þeirri skoðun að fötlun sé óæskileg, að fatlað fólk séu ekki kynverur og geti ekki unnið fyrir sér er verkið algjör veisla fyrir hláturtaugarnar. Elva gefur þessum áhorfendum langþráð leyfi til að horfa og hlæja að fatlaðri manneskju og salurinn er í kasti. Það er greinilegt að margir þurftu akkúrat á þessari sýningu að halda og finnst hún ofboðslega fyndin. Elva hefur þannig alveg rétt fyrir sér í því að áætla hvað fær þetta fólk til að hlæja, ég er því miður bara ekki markhópurinn.

Þó fannst mér sýningin oft mjög fyndin. Elva er dásamlegur performer, með heillandi nærveru og fallega og sterka rödd. Tourette kækirnir hennar skapa ljóðræna hreyfingu og dansandi fegurð, og vinna með karakter Elvu til að skapa einn flottasta uppistandara sem ég hef séð lengi – á köflum. Þegar Elva gerir grín að samfélaginu og hvernig það kemur fáránlega fram við fatlaða er hún nefnilega, að mínu mati, ógeðslega fyndin. Hún er þá einmitt að kýla upp á við, í smettið á öllu samfélaginu. Orðanotkun, orðaleikir og óvæntar vendingar eru einnig tækni sem hún hefur meistaraleg tök á og sem sögumaður er hún óborganleg.

Annað sem ég myndi vilja sjá aðeins unnið í er tempóið. Elva byrjar feikna sterk en missir aðeins þráðinn um mitt verk. Ég hefði viljað láta workshoppa sýninguna örlítið meira, halda því sem línulegri frásögn með útúrdúrum en brjóta það ekki upp í einstaka sketcha. Auk þess er ég persónulega hrifin af því að nýta upprifjun (e. call back) og saknaði þess stundum að líta til baka og endurvekja fyrri brandara.

Á heildina er þetta á margan hátt dásamleg sýning, svo ekki sé minnst á hvað það er svakalega mikið þrekvirki að halda sal í klukkutíma, hvað þá sal sem er víraður til að vera þér óvinveittur. Skot á Þjóðleikhúsið var gull og ég er viss um að eftir því sem sýningin er flutt oftar slípast hún aðeins til og rennur betur. Við pabbi skemmtum okkur og hlógum oft, en vorum þó sammála um að við vildum frekar að gert væri grín að heimsku samfélagsins en Elvu sjálfri og öðrum fötluðum einstaklingum.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...