“Sem betur fer sé ég hann í tæka tíð, því það stóð bara að frúin Björns Ebenesers hefði dáið, kona Rósinkars Betúelssonar hefði dáið og kona Ólafs beykis Ólafssonar hefði dáið,” útskýrir Gratíana skilmerkilega. …”Já eins og þær væru ekki sjálfstæðar persónur,” (bls. 86-87) segir Gratíana Hansdóttir, forhertur upprenandi blaðamaður og söguhetjan í bókinni Hansdætrum eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur, eftir að hún hefur uppfært dálkinn um mannalát áður en hann fer í prentun blaðinu Erninum. Þetta atvik undirstrikar það sem Gratíana stendur fyrir sem femínisti með sterka réttlætiskennd í samfélagi sem er ef til vill ekki tilbúið í breytta tíma.

Raunsæ saga

Hansdætur, önnur skáldsaga Bennýjar Sifjar, kom út á dögunum en bókin er söguleg skáldsaga sem gerist í vestfirsku sjávarplássi í byrjun tuttugustu aldar. Harkið er mikið í plássinu og nær óhugsandi er að rjúfa mörk stéttar og stöðu. Bókin hefst á því að Evlalía, móðir Gratíönu, er að flytja sig og börn sín þrjú ásamt móður sinni sem alltaf er kölluð Mæamma inn til bróður síns, ritstjórans Björns Ebenesers í það sem kallað er blaðahúsið. Kona Björns, hin danska Ingeborg (Borga), hefur nýlega misst ungan son þeirra og hefur misst lífsviljann. Evlalía á að reyna að hjálpa henni að lifa og sjá um eftirlifandi börn hennar Sonju Karen og Mathilde á meðan Björn Ebeneser ritstýrir blaðinu Erninum. Evlalía á þrjú börn með þremur mönnum og á sér þar af leiðandi ekki viðreisnar von, en öll börnin eru kennd við Hans.

Bókin er lágstemmd í byrjun og fer dálítið hægt af stað, en mikið af fyrstu köflunum fer í að lýsa sögusviðinu, daglegu lífi og fólkinu í bænum. Benný Sif er menntaður þjóðfræðingur og rétt eins og í fyrri bók sinni Grímu hefur hún greinilega lagt í mikla rannsóknarvinnu á lífsháttum, málfari og samfélagssiði þessa tíma og kristallast í hversu raunsæ sagan og textinn er.

Femínisti með ríka réttlætiskennd

Ég var smá stund að koma mér almennilega inn í lesturinn en fljótlega datt ég í gírinn og hafði mjög gaman af bókinni sem mér þótti erfitt að leggja frá mér. Gratíana minnti mig í upphafi á Öggu úr Mávahlátri: hún er á barmi þess að vera barn og í fullorðinna manna tölu, umkringd stórri fjölskyldu og vill vera með það á hreinu hvað sé að gerast í hverju horni. Frameftir sögunni vex hún hins vegar mikið sem persóna, fer að skrifa í Örninn og verður blóðheit fyrir jafnréttismálum. Hún þráir framfarir, vill ganga í buxum, sækist eftir launajafnrétti og lætur sér hag annarra ungra kvenna varða; hún berst fyrir því að Rannveig vinkona hennar fái að ganga í skóla rétt eins og bræður hennar og vill að Sella systir sín fái að syngja.

Heilt yfir naut ég þess að lesa bókina. Mér þótti Gríma mjög góð frumraun, en fannst Hansdætur bera merki um höfund sem væri að þroskast í stíl sínum. Mér þótti sérstaklega eftirtektavert hvað Benný Sif notaði fallegt mál:

Söngurinn var ólíkur öllu sem Gratíana hafði áður heyrt og lagið sömuleiðis. Sella söng tóna en ekki lag og hún söng hljóð en ekki orð. Tónarnir voru eins og norðurljós á vetrarhimni og hljóðin eins og lóusöngur að vori en styrkur þeirra eins og mávanna þegar þeir slást um slógið. (bls. 95)

Bókin er vel uppbyggð örlagasaga og færist áhugi lesandans í aukana eftir því sem á líður. Benný Sif tekst vel að fanga tíðarandann, þó að mér þótti kannski full mikið að fá lýsingar af því hvernig koppar og kamrar fúnkeruðu. Þetta undirstrikaði þó það mikla strit og vinnu sem einkenndi rekstur stórs heimilis á þessum tíma. Persónusköpunin er afbragðsgóð og voru aukapersónur jafnt sem aðal persónur vel úthugsaðar og settu svip á söguna. Það er ekki oft sem ég klára bók og þrái framhald en nú biðla ég til höfundarins: Megum við fá frekari frásagnir af Gratíönu?

 

 

 

 

 

 

 

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...