Harmsögur hafa löngum verið vinsælt umfjöllunarefni, það er eitthvað við það að fylgjast með sögupersónu berjast fyrir lífi sínu og annarra. Vita ekki hvernig endar. Einar Kárason hefur síðustu ár gefið út nokkrar bækur tileinkaðar þessu efni. Opið haf er þriðja bókin í röð bóka sem byggðar eru á sönnum harmsögum eða lífsháskasögum eins stundum er sagt. Opið haf fjallar um þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar sem eftir að hafa lent í skipskaða synti til lands í köldum sjónum. 

11. mars 1984 sökk Hellisey VE-503 með fimm menn innanborðs. Fjórir létu lífið en Guðlaugur komst einn lífs af með því að synda til Vestmannaeyja, um sex klukkustunda sund, og klöngrast til byggða í aðrar þrjár, blóðugur, berfættur og frosinn, yfir gróft og beitt Vestmannaeyjahraunið. Viðtal, er tekið var við Guðlaug í fréttum Rúv á þessum tíma, er án efa minnisstætt þeim sem á horfðu. Slíkt þrekvirki sem þetta, á ekki og átti ekki að vera mögulegt.

Einar svíkur ekki

Einar Kárason rekur lauslega aðdraganda slyssins en bókin segir aðallega frá sundi Guðlaugs. Kafað er inn í huga hans, örvæntingu, von, baráttu og uppgjöf. Einar er frábær sögumaður, lesandinn er í huganum farinn að hvetja sundmanninn áfram og fyrir þá sem ekki þekkja til sögu Guðlaugs eða þessa þrekvirkis er þetta án efa mun æsilegri lesning en fyrir þá sem þekkja til þrekraunarinnar.

Hvað fer um huga manns sem syndir sér til lífs, klukkustundum saman án þess að eygja land? Það er varla hægt að ímynda sér það en Einar gerir þó tilraun til þess og hún er afar trúverðug. Sundurleitar hugsanir, vanmáttur, hræðsla, bjartsýni og svartsýni takast á svo úr verður hrærigrautur hugsana og tilfinninga. Þessi litla nóvella er mun stærri en blaðsíðutal gefur til kynna og eftirminnileg lesning. Á köflum þó langdregin en það passar sögunni vel, að synda klukkustundum saman, aleinn á hafi úti, þessar klukkustundir hljóta að hafa virst honum sem heil mannsævi. Þegar langt var liðið á lesturinn vaknaði þessi spurning oftar en einu sinni: er maðurinn ekki að fara að komast í land? Sem er án efa sú spurning sem Guðlaugur sat með fasta í kollinum: Fer ég ekki að verða kominn að landi?

Ég má að lokum til með að hrósa kápunni, hún er ógnvænleg og seiðandi í senn og maður grínir í öldurnar og reynir að koma auga á manninn á sundi en án árangurs.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...