Að skrökva eða skapa: til varnar jólasveinunum

Það er svolítil saga sem við eigum saman. Í raun er það ekkert lítil saga, það er mjög stór saga. Saga sem við segjum hvoru öðru aftur og aftur, kynslóð fram af kynslóð. Saga sem við höfum  sett í bækur, kvikmyndir, margmiðlunarefni, auglýsingar og skráð í ótal söngva.  Hún er svo þekkt og svo oft sögð að hún er orðin hluti af menningu okkar, hefðum og siðum. Hún er rótgróin við okkar tilveru. Þetta er saga sem lifnar við á hverju einasta ári og því er hún töfrandi, magnþrungin og áhrifamikil. Þegar ég segi lifnar við, þá meina ég ekki eins og allar sögur lifna við í okkar hugskoti þegar við tengjum þær við ímyndunaraflið og tilfinningar okkar. Þessi saga lifnar nokkuð bókstaflega við og sprettur upp í raunveruleikanum, sem gerir hana stórmerkilega. 

Hvaða sögu er ég að tala um? Jú auðvitað um jólasveinana, eða jólasveininn (eftir því hvar við ólumst upp). Það er auðvitað undarlegt og jafnframt ótrúlega einstakt hvernig við tökum öll þátt í að skapa þessa sögu, þennan ævintýraheim sem sprettur upp í raunveruleikanum á hverjum jólum með allri sinni eftirvæntingu. Hugmyndin og sagan á bak við jólasveinana nærir ímyndunaraflið en á svo ótrúlega einstakan hátt. Við erum ekki einungis að lesa söguna fyrir börnin okkar heldur erum við að segja að hún sé sönn. Að þeir séu til í alvöru og við jafnvel göngum svo langt í þessum leikþætti að við stígum inn í hlutverk jólasveinanna aftur og aftur til þess að glæða þá lífi. En afhverju tökum við öll þátt í þessu?

Gömlum ræningjum treyst til að stinga hendi inn um glugga í barnaherbergjum landsins

Vissulega urðu jólasveinarnir til upphaflega á Íslandi til að hræða börn til hlýðni, en það hefur breyst með samfélagslegum breytingum og áhrifum frá öðrum menningarheimum. 

Eins og allir vita þá voru sögurnar um jólasveinana allt öðruvísi hér áður fyrr en við þekkjum þær í dag. Grýla átti ótal börn og voru sveinarnir því margir. En það var síðan Jón Árnason sem fastmótaði sameiginlegu hefðina okkar um sveinana þrettán. Skógjafirnar komu síðan um árið 1930 með erlendum áhrifum og það var fyrst árið 1938 sem íslensku jólasveinarnir þrettán birtust börnum í barnatíma útvarpsins á RÚV. Í dag eru jólasveinarnir glaðir, skrítnir og fyndnir og ætlaðir til skemmtunar. Þeir eiga að boða ánægju, jólagleði og gjafmildi. Þeir birtast á hinum ýmsu stöðum fyrir jól  og syngja, dansa og gefa gotterí úr poka og eitthvað skemmtilegt í skó í glugga. 

 

Leikurinn mikilvægur

Allur leikur hefur tilgang og í þessum leik okkar er tilgangurinn að skemmta og gleðja, koma á óvart og skapa töfrandi augnablik. Börn eru þekkt fyrir hlutverkaleiki og eru þeir í raun ákveðinn og mikilvægur liður í þroska þeirra.  Það er í gegnum leik barna sem þau uppgötva tilfinningar,  þróa með sér sköpunargáfu, læra að finna til samkenndar og leysa ágreininga eða vandamál. Margir vilja meina að hlutverkaleikur geti jafnvel stuðlað að því að byggja upp sjálfstraust barna. Það mætti segja að jólasveinarnir séu hlutverkaleikur sem hin eldri búa til fyrir börnin en það er ekki síður mikilvægt fyrir fullorðið fólk að leika sér eða taka þátt í leik með börnum sínum því leikur getur minnkað stress og hjálpað til við að styrkja samband foreldra og barna.

Ímyndunaraflið er einnig mikilvægur þáttur í þroska til þess að skilja raunveruleikann. Þetta er jú saga sem við gefum þeim en það að hún lifnar við virkjar aðrar ímyndunarstöðvar. Ef jólasveinarnir geta lifnað við – geta þá ekki fleiri ótrúlegir hlutir raungerst? Svo er það það, að það er að vissu leyti dýrmætt og hreint ótrúlegt að við eigum einhverja sameiginlega sögu, jafnvel þvert á menningarheima, sem við segjum næstu kynslóðum. Sögu sem við búum til leik úr í þeim tilgangi að vekja gleði, virkja ímyndunaraflið og skapa töfraljóma út frá.

Það er kannski rétt að taka það fram strax að tilgangur minn með þessum pistli er að verja þessa undarlegu hefð að skrökva meðvitað að börnum okkar að jólasveinarnir séu til –  ef sá tilgangur minn var ekki ljós nú þegar. Auðvitað er margt sem getur talað á móti mér í þessum tilgangi og má þá fyrst nefna stéttaskiptinguna sem getur myndast í gjöfum sveinanna og svo auðvitað markaðsöflin sem hafa svo sannarlega ákveðið að taka þátt í þessari sköpun okkar til þess að græða peninga. 

 

Leikþáttur eða lygi 

Ég velti því samt fyrir mér, erum við að skrökva? Eða erum við bara að búa til þykjustuleik? Og væri mögulega hægt að líta á allan skáldskap sem ákveðin þykjustuleik? Vissulega ekki á sama hátt eins og leikþáttinn í kringum jólasveinana.  Og ef við lítum á íslensku jólasveinana sem bókmenntir að þá erum við vissulega að skoða sögu sem er mjög grípandi, með sterkum persónum sem vekja upp margs konar tilfinningar. En það er ekki einungis sagan sem að hefur hér úrslitavald heldur er það hvernig við höfum glætt hana lífi. Hún er einmitt svona gríðarlega áhrifarík vegna þess að við tökum öll þátt í að skapa hana í sameiningu. En hér er vert að nefna tengsl skáldskapar og tilfinninga, en margir þekkja það eflaust að hafa upplifað mjög sterkar tilfinningar við lestur á bókum eða í leikhúsinu. Þetta samspil er áhugavert og má segja að tilfinningar okkar verði þannig hluti af hinum skáldaða heimi. 

Og þetta er ekki einungis sameiginleg saga og þykjustuleikur heldur er þetta einnig hefð. Það er mikilvægur þáttur vegna þess að hefðir eru okkur mikilvægar. En hefð er í raun sameiningartákn ákveðinna hópa og því eitthvað sem við varðveitum. Hefð er einnig hluti af sjálfsmyndarsköpun okkar og leið okkar til að tengjast fyrri kynslóðum og fortíðinni. 

 

Mega sögur lifna við?

Það sem kveikti á mér að skrifa þennan pistil er kannski aðallega sú spurning sem ég fór að velta fyrir mér: mega sögur lifna við, eða þurfum við alltaf að vera á undan barninu að segja að keisarinn sé ekki í fötum? Margir hafa á undanförnum árum farið að efast um þessa hefð, um þennan hlutverkaleik eða þessa lygi sem við höldum uppi. Sagan var jú upphaflega ætluð til að hræða börn til hlýðni sem fer illa ofan í marga – en tilgangurinn hefur breyst í að vera ætlað til að auka gleði. Er það tilgangurinn sem helgar meðalið? Eða erum við að gera óleik? Og er það ekki líka merkilegt að flest börn eru ekkert að spá mikið í því að í öllum kvikmyndum og margmiðlunarefni að þá er jólasveinninn aðeins einn og flýgur um á hreindýrum. Ég held það sé vegna þess að innst inni vita þau að þetta er leikur. En það er kannski ekki bara gleðin og undrunin sem verður til sem lætur mig vilja verja jólasveinaleikinn heldur ekki síður hvað þessi sagnahefð hefur varðveist og hversu vel við höldum upp á hana og hvernig töfrarnir skapast við það að við öll stígum inn í hana og verðum hluti af henni.

 

Sátt og þakklæti 

Ég man að ég sjálf  varð ekki fyrir vonbrigðum þegar ég uppgötvaði að jólasveininn væri ekki raunverulegur. Ég get þó ekki munað hvort að það átti sér samtal milli mín og foreldra minna en ég held það hafi frekar bara verið eitthvað sem ég áttaði mig á og sem að átti sér ekkert sérstakt uppgjör. Það var þó eitt árið, þegar ég var ekki tilbúin til að sleppa takinu á sögunni og á leiknum en var samt farið að gruna eitthvað innst inni, að bekkjarsystir mín heimtaði að segja mér sannleikann. Ég var mjög fúl út í hana. Afhverju var hún að voga sér að eyðileggja þessa upplifun fyrir mér – þessi áhrif? Síðan kom sá tími þar sem ég var tilbúin til að sleppa takinu og þá var það ekkert erfitt. Þetta voru auðveld sætti. Kannski eru einhverjir þarna úti sem upplifðu það að verða sárir út í foreldra sína fyrir að plata sig svona og eru mögulega með einhverjar hugmyndir um að þetta eyðileggi eðlilega þróun til rökhugsunar, eða aðra eins vitleysu, en mín skoðun er sú að það að gefa trú, jafnvel þó hún sé bara skammvinn eða tímabundin, sé svo mögnuð gjöf  og sem gefur svo mikið meðan hún varir að það geti ekki verið að það séu særindi eftir uppgötvunina. Þetta er bara hluti af raunveruleikanum. Eins þverstæðukennt og það hljómar. Ég finn einungis til óendanlegs þakklætis til móður minnar, til foreldra minna, fyrir að skapa upplifun og trú fyrir mig sem ég get aldrei fengið aftur á sama hátt í neinu formi. 

Þetta er einmitt eitthvað sem við kynnumst að einhverju leyti þegar við lesum skáldskap, að finnast við tilheyra einhverri veröld, einhverjum ævintýraheimi eða magnþrungnu augnabliki. Við vitum að þessi heimur er ekki sannur en á meðan á lestri stendur að  þá líður okkur svo vel – og við höfum svo gott af því að dvelja í einhverju töfrandi. En þessi jólasveinaveröld hefur þá sérstöðu að það eru ekki einungis lesendurnir, sumsé börnin, sem fá upplifunina, heldur einnig foreldrarnir og þeir eldri með því að vera þátttakendur og hluti af sköpuninni þegar þeir raungera söguna og þar af leiðandi töfrana.

 

Ábyrgð jólasveinanna mikil

En vert er að muna að foreldrar bera ábyrgð á hegðun jólasveinsins og hvernig önnur börn upplifa hann. Það vita allir að börn hittast í skólum og leikskólum og tala um skógjafirnar sín á milli og bera þær saman og því nauðsynlegt að muna að jólasveinninn getur haft neikvæð áhrif á líðan barna ef hann gefur börnum mjög dýrar gjafir á einu heimili en ekki á því næsta. Þetta er gríðarmikil ábyrgð og því skal taka hana alvarlega. Ef við ætlum að eiga þennan leik saman verðum við að muna að við erum ekki einungis að taka þátt í leiknum fyrir okkar eigin börn heldur öll börn. 

 

Heimildir:

https://www.scholastic.com/parents/kids-activities-and-printables/activities-for-kids/arts-and-craft-ideas/importance-pretend-play.html

https://www.healthline.com/health/the-importance-of-play#ideas-for-play

https://extension.usu.edu/relationships/faq/the-importance-of-playing-with-your-child#:~:text=Playing%20with%20your%20child%20offers,with%20trust%20and%20relationship%20building.

https://www.leikvitund.is/blog/um-mikilvaegi-leiks

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...