Þinn innri maður er leiðinlegur

Tjarnarbíó sýnir fyrsta leikverk listamannsins Sigurðar Ámundasonar, Hið ósagða. Verkið er rúmur klukkutími í flutningi án hlés og nýtir upptökur, myndverk og fyrirframgerðan hljóðheim auk hefðbundins leiks til að segja sögu sína. Á sviðinu er einfalt borð fyrir þrjá og bar, og feiknastórt sýningatjald. Leikritið hefst á vídeóklippiverki þar sem skiptingar eru hraðar og mikið gengur á. Ég myndi þurfa að fara aftur á verkið til að geta greint almennilega frá því nákvæmlega hvað var sýnt, en það sem festist í minni mínu voru senur úr frægum hryllingsmyndum á borð við The Thing og Evil Dead, en þar sem ég er mikill hryllingsaðdáandi er spurning hvort önnur atriði hafi frekar náð athygli annarra.

 

Ósagður hryllingur hversdagsleikans

Undir opnunarvídeóverkinu standa leikarar, grafkyrrir eins og styttur, og bíða eftir línunum sínum. Og þá meina ég ekki bara þeirri stund að þeir hefji upp raust sína og segi línurnar sínar, heldur bíða þeir eftir hinum raunverulegu línum, því hljóðheimur verksins er tekinn upp sér og spilaður yfir látbragðsleik leikaranna. Þetta er áhugaverð tækni, sem hljómar kannski undarlega, en hún skilar sér ótrúlega vel á sviðinu. Leikarar gefa sig alla í líkamsbeitingu og svipbrigði, og tímasetning þeirra í að mæma línurnar er mjög nákvæm, en þó ekki svo að absúrdisminn sem fylgir þessari leikaðferð tapi sér. Með þessari aðferð er leikritið líka alltaf nákvæmlega eins texta- og tímalega séð, þó vissulega sé hægt að breyta eitthvað til í hreyfingum, og er því líkt og verkið sé hálft í hvoru bíómynd og hálft í hvoru leikhús.

Skyndimenning og yfirborðsmennska

Árni Vilhjálms og Ólafur Ásgeirsson stíga á svið, en sviðið er TGI Friday‘s í Smáralind. Árni leikur Hálfdán og nær að fanga snobbaðann 101-ista sem hangir sennilega of mikið á Twitter á dásamlegan hátt, en Ólafur leikur Gumma sem var að slá í gegn. Þeir félagar eru komnir í miðpunkt lágmenningarinnar (að eigin mati), Smáralindina, og hvernig þeir lýsa upplifun sinni á staðnum og stemningunni er fullkomið. Höfundi tekst að gera grín að snobbinu, Amerískri skyndimenningu og yfirborðsskap fjöldaframleiðslu sem og yfirborðsmennsku hinna svokölluðu þenkjandi stétta.

Sif, leikin af Kolfinnu Nikulásdóttur, hittir félaga sína þarna á Friday‘s, en þetta er í fyrsta sinn um langt skeið sem þau þrjú eru saman komin, og þegar líður á verkið sér áhorfandi nákvæmlega hvers vegna þau hittast ekki oft.

Ég fékk einkenni áfallastreituröskunar af stjörnuleik Kolfinnu, sem leikur einhvern sem er að vera leiðinlegur en samt að þykjast vera næs á dásamlega áhrifaríkan hátt. Hún er mjög vanmetin í hlutverki sínu sem Sif, en akkúrat alveg nóg, í fullkomnu samspili við stóran leik Árna sem Hálfdán, þar sem þau togast á um sál Gumma eins og tveir púkar sem beita ólíkri aðferð en hafa sama markmið. Viðbrögð Gumma eru svo mjög raunveruleg og vekja samkennd.

Mótvægi og viðnám

Sigurður Ámundason, höfundur verksins, Kolbeinn Gauti Friðriksson og Melkorka Gunborg Briansdóttir leika það sem mætti kalla „aukahlutverkin,“ þrátt fyrir að persónur þeirra séu jafn mikilvægar fyrir framvindu verksins og þremenningarnir. Þau leika sín hlutverk líka af mikilli færni, en þeirra persónur snúast í kring um aðalpersónurnar þrjár og virka sem mótvægi og viðnám við eitruðum samskiptum þremenninganna.

Vídeóverkið heldur áfram að spila stórt hlutverk á móti leiknum, fyrir fram uppteknar innri einræður, listræn samsuða af auglýsingamenningu og neysluhyggju og hið rétta magn sósu á nachos koma við sögu.

Ég vil ekki segja of mikið til að skemma ekki fyrir, en þetta er án efa ein skemmtilegasta sýning sem ég hef séð mjög lengi í íslensku leikhúsi, en hún er bæði óþægileg og erfið, fyndin og súrrealísk og á sama tíma nístandi raunsönn. Ég held að allir í salnum hafi sopið hveljur yfir grimmdinni í mannlegum samskiptum gamalla vina, sjúku samfélagi og auðvitað Smáralind.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...