Eva Björg Ægisdóttir

Falleg kápa og flottur bókatitill eru oft nóg til að gera bók aðlaðandi. En það var ekki einungis þetta tvennt sem dró mig að Þetta rauða, það er ástin eftir Rögnu Sigurðardóttur, rithöfund og myndlistarmann. Það var síðasta verk hennar Vetrargulrætur sem kom út árið 2019 sem var einstaklega vel heppnað smásagnasafn sem ég hugsa ennþá oft um. Í Vetrargulrótum var ein smásaga sem mér þótti sérstaklega ljúfsár en hún var um listakonu á sjötta áratug síðustu aldar sem hafði gift sig og í framhaldinu þurft að gefa listamannsdrauminn upp á bátinn. Mér þótti því afar áhugavert að Ragna hefði nú sent frá sér skáldsögu sem gerist á sjötta áratugnum og segir frá ungri konu, Elsu, sem er að elta listamannsdrauminn í París.

 

Í hringiðu listarinnar í París

Bókin hefst í Frakklandi í júní árið 1952, Elsa, sem við vitum ekkert um, svarar símann þar sem hún er staðsett með manni að nafni Marcel. Á línunni er Kjartan, maður sem hún á greinilega fortíð með, að boða komu sína með nemendahóp í heimsókn. Næsti kafli segir frá þeirra kynnum einhverju áður, en ekki er þó ljóst fyrr en í lok sögu hve langur tími er liðinn.

Elsa er nýflutt til Parísar þegar hún kynnist Kjartani. Hún er ung og efnileg listakona í framhaldsnámi sem þráir það mest að komast í einkatíma hjá frægasta kennara borgarinnar Granier. Hún hefur þurft að færa einhverjar fórnir til að komast til Parísar og mun ekki geta verið þar lengi án þess að hljóta námsstyrk, en hún telur að einkatímar hjá fræga kennaranum muni styðja mjög við styrksumsóknina. Elsa er afar einbeitt, málar alla eftirmiðdaga frekar en að fara að hitta hina Íslendingana og hanga á Select í Montparnasse. Hún er svo sannarlega ekki að leita að ástinni, en þá er hún auðvitað svo gjörn á að koma. Og ástin flækir allt.

Lágstemmd en tilfinningaþrungin

Það er erfitt að segja mikið meira um söguþráð bókarinnar án þess að afhjúpa hvað í henni gerist, en sagan er frekar lágstemmd. Kjarninn snýst um samband Elsu og Kjartans og hvernig konur gátu sjaldnast valið bæði frama og ástina á þessum tíma í sögunni. Bókin á auðvitað erindi við samtímann því þetta er togstreita sem margar konur upplifa meira að segja í okkar nútímasamfélagi. Sagan er tilfinningaþrungin, ástarsambandið er heitt og treginn mikill yfir því sem helst ósagt. Ragna lýsir af raunsæi lífinu í París á sjötta áratugnum, daglegu lífi íslensku stúdentanna og ástríðu ungrar listakonu. Mér hefði hins vegar þótt gaman að sjá fleiri atburði í bókinni og að fá að vita meira um baksögu Elsu og hvernig hún hafði komist áfram sem listakona þegar mjög fáar fyrirmyndir voru til staðar.

Þetta rauða, það er ástin er bók sem auðvelt er að sökkva sér ofan í og er sögusviðið ljóslifandi. Ragna Sigurðardóttir nýtir sína lífsreynslu til að lýsa sköpunargleðinni á sannfærandi hátt og dregur upp hve miklu konur hafa oft þurft að fórna til að fylgja sínum draumum. 

Lestu þetta næst