Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara bókmenntaform þar en hér á Íslandi og í Suður-Ameríku eru fremstu höfundar þessa forms. Nýlega kom út smásaganasafnið Allt sem við misstum í eldinum í áskriftarseríu Angústúru. Bókin er skrifuð af Mariönu Enriquez og kemur út í íslenskri þýðingu Jón Halls Stefánssonar.

Í fyrrasumar las ég einmitt annað smásagnasafn eftir hana, The Dangers of Smoking in Bed, og var hrifin. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég frétti af þessari þýðingu og að annað smásagnasafn hafi orðið fyrir valinu sem vísaði í eld í titlinum. Bækurnar eru mjög keimlíkar og er Mariana með einkennandi stíl og skapar ókennilegar og oft á tíðum gróteskar smásögur sem dansa á mörkum veruleika og súrrealisma. Þær sverja sig svo sannarlega inn í sterka hefð töfraraunsæis Suður-Ameríku. Þó vill Mariana ekki skilgreina skrif sín sem töfraraunsæi heldur „skrítinn skáldskap“ (e. weird fiction) en sögur hennar gætu rétt eins verið kallaðar fantasíur, hryllingssögur eða jafnvel gotneskar. 

Fátækt, stéttarskipting og spilling

Ég ætla að byrja á því að segja að þessar sögur eru ekki fyrir viðkvæma. Ég átti aldrei í vandræðum með að lesa ógeðslegar, hryllilegar og grófar lýsingar á yngri árum, en eftir að ég varð móðir skera slíkir textar dýpra og ég þurfti að hraðlesa í gegnum sumar lýsingarnar í bókinni, sérstaklega þegar börn komu við sögu. Mariana er óhrædd við draga upp ógeðfelldar og gróteskar lýsingar til að vekja upp áhrif og undirstrika mál sitt. Sögurnar gerast í borgum og bæjum Argentínu þar sem alltaf má finna hverfi þar sem ríkir mikil fátækt og spilling. Fólkið á jaðrinum er oftar en ekki til umfjöllunar, fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi, eiturlyfjafíklar, götubörn og ógæfufólk. Aðalsögupersónurnar eru þó oft af mið- eða hástétt til að undirstrika gífurlegu stéttaskiptinguna þar í landi. Þetta er mjög áhrifarík aðferð og tekst Mariönu þannig að fjalla um ólíkar hliðar samfélagsins, en í sögunum öllum má finna skæða samfélagsádeilu.

Sturlað smásagnasafn

Allt sem við misstum í eldinum er gjörsamlega sturlað smásagnasafn sem ögrar skynjun og tilfinningum lesandans. Ég var hrifin af þessu smásagnasafni en mun ekki mæla með því við hvern sem er. Persónulega finnst mér sumar sögurnar innihalda einfaldlega of hrottalegar lýsingar á ofbeldi, og jafnvel morðum á ungum börnum, til að geta með góðri samvisku dreift fagnaðarerindi hennar. Þrátt fyrir það finnst mér Mariana virkilega flinkur penni, það getur ekki hver sem er skrifað svona sögur og tekist svona vel til.

Sögurnar eru án tilgerðar og rífa gjörsamlega í hjartað, heimurinn er svo sannarlega ljótur og bækurnar sem fegra hann ekki eru líka nauðsynlegar. Það sem auðvitað hjálpar er að sögurnar falla inn í flokk töfraraunsæis og fantasíu og getur lesandinn huggað sig við þá tilhugsun að þetta sé ekki raunveruleikinn þar sem hið yfirnáttúrulega er alltaf handan við hornið.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...