Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um hina leikhúsgestina, en við fengum öll nafnspjald um hálsinn, eins og við séum að mæta í vinnuna eða á ráðstefnu, ekki á sýningu í Tjarnarbíó.

Áhorfendabekkirnir hafa verið huldir og við áhorfendur, sem erum tæplega 40 talsins þó það sé fullur salur, setjumst á snúningsstóla framan við upphækkaðan stall, þar sem stólum leikaranna hefur verið komið fyrir. Við erum öll saman á sviðinu, áhorfendur og leikkonurnar Þórunn Lárusdóttir og Íris Tanja Flygenring leika nafnlausan yfirmann og Emmu, almennan starfsmann í söludeild, í nýjasta verki Mikes Bartlett, sem er þekktur fyrir áhrifamikil og dramatísk verk.

Enginn er svikinn um áhrifaríkt drama í Samdráttum. Yfirmaðurinn kallar Emmu á fund eftir fund, alltaf er eitthvað ósagt undir. Emma er á nálum, yfirmaðurinn hefur hana í lófa sér. Meira og meira kemur upp á yfirborðið á hverjum fundi, og áhorfandinn fer að átta sig á að þetta er kannski ekki alveg venjulegt fyrirtæki, eða hvað? Framvindan er hröð, tíminn líður mishratt milli sena og áhorfendur sjá glefsur úr lífi Emmu og hvernig ósveigjanlegt hamstrahjól vinnunnar rífur hana í sig. Þóra Karítas leikstjóri segir um verkið í viðtali við Fréttablaðið:

„Þegar fólk er að ganga í gegnum erfið­leika í einka­lífinu og á þá helst bara að drífa sig í vinnuna og halda á­fram. Hvað verður um börnin í þessu sam­fé­lagi þar sem allir eru bara að hugsa um ferilinn? Hvað verður um fjöl­skyldu­lífið og einka­lífið?“ 

Stjörnuleikur

Verkið er þannig að það stendur algerlega og fellur með leikurunum, en svipbrigði og blæbrigði í rödd, augngotur og líkamsbeiting er jafn mikilvæg og orðin sem þær segja. Bæði Íris Tanja og Þórunn eru magnaðar í hlutverkum sínum og heilla áhorfandann algjörlega. Nándin við leikarana þar sem við sitjum öll saman hefur líka þau áhrif að tilfinningarnar eru ljóslifandi fyrir framan mann, og erfitt er að vera ósnortinn. Þær Íris Tanja og Þórunn leika hlutverk sín báðar ótrúlega vel og fanga kjarna persónanna sem þær leika glæsilega. Leikritið er aðeins um klukkutími að lengd, en leikkonurnar eru báðar á sviðinu allan tíman og halda orkunni fullkomlega og fipast aldrei. Líkamsbeiting er sterk og ákveðin, sem og raddbeiting og blæbrigði tungumálsins. Notkun leikmuna er skapandi og nýtt vel, það er ekki mikið af munum á sviðinu en rýmið og hlutirnir eru allir notaðir til hins fyllsta. 

Kapítalismi og samskiptapólitík

Án þess að vilja uppljóstra um efni verksins kom það mér mikið á óvart, það var svo djúpt og spennandi og áhorfandi vissi aldrei í hvað stefndi, allt var mögulegt um leið og ekkert var það. Leikritið er einnig flott innlegg í umræðu um kapítalisma og vinnustaðamenningu, samskiptapólitík og hvað er persónulegt og hvað ekki, hvernig nútímamaðurinn er fangi peninga og fjárhags á kostnað alls annars og hversu auðvelt að það er að beygja einhvern og brjóta ef maður hefur öll völd í hendi sér. 

Án efa með flottari og sterkari sýningum ársins, Tjarnarbíó er mikil perla í leikhúsmenningu höfuðborgarinnar og á síðasta leikári hefur hvert verk sem ég séð þar verið öðru betra. 

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...