Wrong place wrong time

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur.

Isabel Allende, sem er frá Chile, hefur verið afar vinsæll höfundur frá því hún skaust á rithöfundasviðið með Húsi andanna fyrir um fjörutíu árum síðan. Ég er mikill aðdáandi verka hennar, sögusviðið er ríkt, atburðirnir spennandi og gaman að fá innsýn í land á hinum enda hnattarins.

Violeta er epísk saga. Bókin er sögð í bréfaformi frá hinni hundrað ára gömlu Violetu árið 2020 og er hún að skrifa til hins óþekkta Camilo (sem síðar kemur í ljós hver er). Violeta fæðist þegar spænska veikin er alls ráðandi og er ævi hennar að ljúka þegar Covid-19 faraldurinn herjar á heimsbyggðina.

Nóg af drama

Það skortir ekki drama í bókina, sögusviðið er ónefnt land í Suður-Ameríku (sem auðvelt er þó að ímynda sér að sé Chile) og sem fyrr segir er innri tími sögunnar langur. Violeta fæðist inn í ríka fjölskyldu eina stúlkan meðal sex eldri bræðra, en fjölskylduauðurinn fuðrar fljótt upp eftir fráfall föður hennar. Fjölskyldan flytur því í þorp þar sem hver og einn þarf að berjast fyrir lífi sínu og reynist Violeta vera með viðskiptavit. Hún byggir síðar upp mikið viðskiptaveldi og eflist af femínistunum í kringum sig, meðal annars gömlu barnfóstru sinni, hinni írsku Miss Taylor. Bókin er með undirtitilinn ástarsaga enda mikill fókus á ástarlíf Violetu, hið ástríðulausa fyrsta hjónaband hennar og einum of ástríðufullt samband hennar við flugmanninn Julian Bravo. Margt gerist á hundrað árum í ástarlífi Violetu sem missir aldrei áhugann fyrir hinu kyninu.

Skortir tilfinningalega dýpt

Sem fyrr segir hef ég notið þess að lesa bækur Isabel Allende og hef alltaf gaman af lestrinum, ég hreyfst af síðustu bók hennar Yfir höfin sem einnig spannar langan tímaramma. Hins vegar eins og á við um flesta höfunda sem hafa skrifað svona margar bækur á löngum ferli eru þær misgóðar. Mér þótti því miður Violeta of flöt í lestri. Þar sem bókin er einungis sögð í bréfaformi er lítið um samræður og stöðugar frásagnir af atburðum sem eru sumir hverjir mjög áhugaverðir, en það ber ekki á hefðbundinni uppbyggingu sem venjulega einkennir skáldskap og heldur lesandanum við efnið. Það er ekki næg dýpt tilfinningalega þegar Violeta ræðir áföll sín, undantekningar eins og þegar kemur að sögu dóttur hennar sýna hvað bókin hefði getað verið góð ef hefði verið staldrað meira við.

Bókin er á vissan hátt eins og ævisaga raunverulegrar manneskju og ef viðkomandi nær háaum aldri er lesturinn oft orðinn langdreginn undir lokin. Ég er viss um að einhverjir munu hafa gaman af þessari frásögn enda af nægu að taka, bókin auðlesin og Allende góður penni. Höfundurinn er þó að mínu mati mun sterkari þegar hún einblínir meira á tilfinningarnar og leyfir átökum milli persónanna að dýpka.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...