Ofbeldið er alltaf til staðar

„Ég hitti manninn minn í röðinni um borð í EasyJet flug,“ segir Björk Guðmundsdóttir leikkona spenntum áhorfendasal á frumsýningarkvöldi verksins Stelpur og Strákar í Tjarnarbíói. Sviðsmyndin er hrá en sterk; byggingaplast á gólfi og hangandi úr loftinu í einfaldri röð og lítil, óræð hrúga fyrir miðju sviði. Stóll. Björk er í svörtum buxum hvítum bol og skóm, einlæg á svipinn. Hún leikur aðalpersónu verksins í uppsetningu leikhópsins Fullorðið fólk sem samanstendur af henni sjálfri og sviðslistakonunni Önnulísu Hermannsdóttur sem leikstýrir sýningunni og hannar sviðsmyndina, en miklum áhrifum er náð með lýsingu og takmarkaður hljóðheimur nýttur til hins ýtrasta.

Stelpur og Strákar

Þetta er í annað sinn sem sýningin er sett upp, en hún var frumsýnd á íslensku í Gaflaraleikhúsinu í maí 2022 og í framhaldi varð hún farandsýning og var sýnd á Seyðisfirði, og Eskifirði, í Borgarnesi, á Selfossi og Þingeyri, en nú á hún fast heimili í Tjarnarbíói. Höfundur verksins er breska leikskáldið Dennis Kelly, og var það fyrst sýnt í Royal Court Theatre í London árið 2018. Íslensk þýðing var í höndum Matthíasar Tryggva Haraldssonar og Melkorku Gunborg Briansdóttur.

Við fylgjum ónefndri aðal- (og einu) persónu verksins í gegn um tilhugalíf, hjónaband og skilnaðarpælingar, nýtt starf og nýjan feril, frama og föll. Leikur Bjarkar er ótrúlega sterkur, hún heldur salnum spenntum og með sér í liði allan tímann. Hún er skýrmælt og áhorfandi skilur allt sem hún segir, án þess að hún tali ónáttúrulega á nokkurn hátt. Það er ótrúlegt þrekvirki að halda sal á tánum í heila tvo klukkutíma, en Björk fer létt með það. Hún grípur athygli og vekur samkennd um leið og hún stígur á sviðið og heldur henni út í gegn. Þegar róðurinn fer að þyngjast hjá aðalpersónunni okkar finna áhorfendur til með henni, þegar sársaukinn kemur heimsækir hann alla jafnt.

Bráðfyndin og sorgleg

Sýningin er framan af ógeðslega fyndin, sögur um mök í nágrenni ælupolla og drusluskap hitta alltaf í mark, sem og sammannleg andúð á biðröðum og efri stéttinni í bland við hversdagslegt bras og exellíkindareikning um lengd ástarsambanda, en brátt víkur húmorinn fyrir alvarleika. Sambönd fara að taka á, starfsferlar kosta fórnir, barneignir breyta öllu. 

Ég vil ekki segja of mikið en alls ekki of litið, því ég vil að allir sem treysta sér til sjái þetta verk. Sýningunni fylgir viðvörun um að í henni sé lýsing á ofbeldi en það er svo miklu meira en bara ein bein lýsing sem gerir sýninguna að þeim breiska og margslungna mannlega hryllingi sem hún er. Ofbeldið er alltaf til staðar, undirliggjandi, lúmskt og lifandi biður það færist úr skuggunum. Eftir á að hyggja eru örlög elskendanna óumflýjanleg og í þokkabót algengari en maður vill meðtaka. Samskipti mannanna eru oft á tíðum ógeðsleg, en það sem skín þó í gegn í þessari sýningu er að verkið gleymir ekki að minna mann á hvað lífið er líka undur fallegt. Hvað ást getur verið hrein og sterk. Að það eru bönd sem ekkert getur nokkurn tímann slitið. Að það besta sem við getum óskað okkur og öðrum er að fá smjörþefinn af hamingjunni og ástinni, að við fáum öll að upplifa eitthvað fallegt.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...