Fimm ár af Lestrarklefanum

Lestrarklefinn fagnar fimm ára afmæli í ár. Fyrsta umfjöllunin birtist á síðunni 18. janúar 2018. Katrín Lilja stofnaði síðuna í fæðingarorlofi í þeim tilgangi að skapa sér tilgang með auknum lestri. Upphaflega síðan var bloggsíða, þar sem áhugafólk um bækur gat skrifað þanka um síðasta lestur sinn. Síðan þá hefur Lestrarklefinn vaxið og dafnað og orðið meira en upphaflega var lagt upp með. Hér má nálgast fjölbreyttar umfjallanir um alls kyns bækur, meðal annars bækur sem fá sjaldan umfjöllun í öðrum miðlum eins og skvísubækur, léttar glæpasögur og barnabækur. 

Síðan fyrsta umfjöllunin birtist höfum við lagt metnað okkar í að birta að minnsta kosti eina umfjöllun í viku á síðuna, en einnig höfum við birt leikhúsdóma, smásögur, hlaðvörp og sjónvarpsþætti. 

Lífleg og fjölbreytt vaxtaskeið

Lestrarklefinn hefur gengið í gegnum fjöldamörg vaxtaskeið. Upphaflega voru pennarnir mun færri. En við fundum fljótlega fyrir því að það væri þörf fyrir síðu sem okkar. Það var þörf fyrir líflega og fjölbreytta umræðu um bækur, skrifaðar af fólki sem les bækur af ástríðu og áhuga. Alls konar bækur! Ekki bara bækur sem hljóta virt verðlaun (enginn skal þó efast um að við elskum þær líka).  Eftir því sem síðan óx bættust við pennar á síðuna, oftar en ekki hefur fólk sótt sjálft um að komast í hópinn en nokkra penna höfum við sótt inn í hópinn. Sérstaklega þótti okkur skemmtilegt þegar Victoria Bakshina bað um að slást í hópinn en þar fengum við okkar fyrsta penna sem er ekki með íslensku sem móðurmál og er með allt annað sjónarhorn á íslenskar bókmenntir.

Vaxtaskeiðin hafa verið mörg og misblómleg. Til dæmis var hlaðvarp Lestrarklefans rekið á tímabili árið 2019 og 2020, skemmtilegur tími sem gaf okkur tækifæri til að taka viðtöl við nokkra af okkar uppáhalds höfundum. Einnig fékk Lestrarklefinn styrk árið 2020 til að halda úti þáttunum Bókamerkið í samstarfi við Bókasafn Garðabæjar.

Rétt fyrir tíma Covid stigu Díana Sjöfn og Sjöfn um borð. Ætlunin var að þær myndu halda uppi lifandi leikhúsgagnrýni á síðunni, en fengu annað hlutverk þar sem öll leikhús lokuðu stuttu eftir þær gengu til liðs við síðuna. Nú má þó segja að leikhúsrýni sé hlut af efni Lestrarklefans.

Árið 2021 fékk Lestrarklefinn líka styrk fyrir viðburðinum Eftir flóðiðþar sem við hömpuðum bókum sem okkur þótti hafa farið of leynt í jólabókaflóðinu. Jólabókaflóðið er skemmtileg hefð á íslenskum bókamarkaði en gallinn við flóðið er að margar bækur fá ekki þá athygli sem þær eiga skilið. Viðburðurinn var tekinn upp og honum deilt á samfélagsmiðlum við góðar viðtökur. 

Lýsum inn í skuggann 

Framtíðin er björt fyrir Lestrarklefann. Umfjallanir munu halda áfram að berast frá Lestrarklefanum og áætlanir eru um að auka umsvif enn frekar. 

Við höfum lagt okkur fram við að varpa ljósi á bókmenntir sem fá alla jafnan ekki mikla athygli á stærri fréttamiðlum. Umfjallanir um barnabækur, ungmennabækur, ljóðabækur, skvísubækur og glæpasögur eiga sérstakan stað í hjarta okkar. Barnabókaumfjöllunin okkar gefur foreldrum tækifæri til að kynna sér lesefni barna sinna, ömmum og öfum tækifæri til að velja réttu bókina fyrir barnabarnið og öðrum tækifæri til að kynna sér gróskuna sem er í íslenskri barnabókaflóru. Við höfum fylgst með nýjum höfundum stíga sín fyrstu skref og sigra heiminn og við höldum með þeim af öllum hjarta. 

Á bak við Lestrarklefann er í dag fjölbreyttur hópur af fólki sem brennur fyrir bókmenntum. Við erum sagnfræðingar, blaðamenn, bókmenntafræðingar, bóksalar, lögfræðingar, rithöfundar, ritstjórar og svo margt fleira og sum okkar bera fleiri en einn titil. Lestrarklefinn hefur gefið okkur tækifæri til að fjalla um bækur af alúð og ástríðu. Lestrarklefinn er rekinn í sjálfboðastarfi en hægt er að styrkja starfið.

Frá árshátíðarferð Lestrarklefans á Siglufirði í maí 2023.

Það dýrmætasta af öllu þessu ævintýri er ómetanlegur vinskapur sem hefur myndast á furðu stuttum tíma í gegnum árin. Þegar líkir hugar koma saman til að skapa eitthvað skemmtilegt myndast eitthvað töfrandi og djúpur vinskapur. Fólk sem hefði alla jafnan ekki kynnst, nema í gegnum þennan félagsskap. Við erum þakklát fyrir hvort annað.

Lestu þetta næst