Bókin í töskunni eða símanum

 Frá því ég man eftir mér hafa bækur og lestur verið stór hluti af mínu lífi. Fólk í kringum mig las eða las fyrir mig. Ég sjálf las mikið þegar ég hafði þroska til og bækur voru alltumlykjandi. Hvort sem það var bókaskápurinn stóri í kjallaranum heima hjá ömmu þar sem ég var í pössun á daginn eða bókaskáparnir á mínu eigin bernskuheimili, þá voru bækur alls staðar. Þegar ég fór sjálf að búa voru bækur auðvitað líka partur af lífinu, bókasafnið vissulega lítið til að byrja með en hefur undanfarin ár vaxið gríðarlega. 

Bókin með

Það hefur því líka alltaf þótt hinn eðlilegasti hlutur í mínu lífi að hafa bók með hvert sem ég hef farið, því það er alltaf hægt að finna tækifæri til að lesa. Í grunnskóla, þegar maður var kominn í heldri borgara stöðu unglingsins sem mátti vera inni í frímínútum, þá mátti finna mig úti í horni að lesa því ég var alltaf með bók í skólatöskunni. Eftir tímabilið bókin-í-skólatöskunni þá tók við bókin-í-veskinu. Þegar ég fór út úr húsi tók ég alltaf lykla, síma, veski og bók. Þetta voru þeir hlutir sem voru ómissandi út í daginn. Það gæti jú alltaf skapast tími til lesturs. Kaffi- eða hádegishlé í vinnunni, biðstofan hjá tannlækninum, biðin eftir að barn kláraði tómstunda æfingu. Alltaf tími til að lesa og ég nýtti hann svo sannarlega til lesturs. Það var jú ekkert annað að gera nema þá kannski að stara út í loftið eða, guð forði mér, ræða við aðra foreldra sem biðu eftir barninu sínu á æfingu. Einræna ég kaus bókina. 

Innreið snjallsímans

Síðan kom snjallsíminn. Sú frábæra en jafnframt vandmeðfarna uppfinning. Með snjallsímanum jukust möguleikarnir á að lesa allskonar bækur á allskonar formum og átti líka að auðvelda lesturinn. Liðnir væru dagarnir þar sem doðranturinn tæki mikið pláss í töskunni því nú væri bókin, og reyndar bækur í fleirtölu, með manni í símanum. Þvílíka úrvalið og fer ekkert fyrir þessu! Fyrst kom Kindle appið í símann svo nú gat ég lesið allar rafbækurnar sem ég átti á Kindlinum mínum í símanum. Þurfti ekki einu sinni að muna eftir að hafa hann í töskunni. Svo fékk ég aðgang að Rafbókasafninu þegar það varð aðgengilegt íslenskum bókasafnsnotendum. Loks var það svo hljóðbókin í gegnum Audible eða Storytel. Þvílíka hlaðborðið af bókum og úrval af lestraraðferðum! Lesa ritmál eða hlusta. Nú myndi ég aldeilis rjúka í gegnum hverja bókina á fætur annarri því ég myndi aldrei lenda í því aftur að hafa ekki bók meðferðis því ég gleymdi henni eða skaust rétt út og greip ekki töskuna með. 

Á biðstofuna mætti ég og á fótboltaæfinguna mætti ég líka með símann en enga bók en það skipti engu máli því bókin var jú í símanum. Símann tók ég upp og opnaði ég rafbókarappið? Nei ég fór alltaf frekar að renna í gegnum samfélagsmiðla eða endaði í einhverjum heiladeyfandi leik. Bókalesturinn við hin ýmsu tækifæri datt alveg niður. Bókalesturinn heima á kvöldin eftir vinnu eða um helgar datt líka niður því síminn var of nálægt. Það varð einfaldara að opna samfélagsmiðla og horfa á fyndin kattamyndbönd heldur en að taka upp bókina og lesa. Það var svo þægilegt í þreytunni eftir daginn. Fyrst fannst mér þetta svo sem ekki mikið mál. Það gerði lítið til þó að tækifærislesturinn minnkaði en ég fór að verða hugsi þó þegar þetta var farið að hafa áhrif á allan lestur. Þessi blessaði, frábæri, óþolandi snjallsími.

Sneri vörn í sókn

Þetta gekk ekki og varð ég að gera eitthvað í þessu. Ég setti sjálfri mér takmarkanir og úthlutaði mér símatíma líkt og ég geri með börnin mín. Ég fór að geyma símann á öðrum stað en ég sit vanalega og les á kvöldin því það kallaði á að ég þyrfti að standa upp og ná í símann. Það hjálpaði kvöldlestrinum að sjálfsögðu enda höfum við öll gott af því að takmarka tíma okkar með þessi tæki, hvort sem við lesum eða ekki. En hvernig fór með tækifærislesturinn, lesturinn á biðstofunni? Jú ég fór aftur að setja pappírsbók eða Kindleinn minn í töskuna því ég hugsaði með mér að þá þarf ég meðvitað leggja frá mér bókina og taka upp símann til að detta inn á samfélagsmiðla. Ekki bara skipta um app. Og þetta virkar! Fyrir mig virkar þetta. Ég er aftur farin að lesa við hin ýmsu tækifæri, ekki bara heima. Svo það skemmtilegasta við þetta, sem ég var búin að gleyma er að fólkið sem situr við hliðina á manni á það til að detta í spjall við mann um bókina eða höfundinn. Ég hef átt ófáar samræður við ókunnuga um bækur síðan ég byrjaði á þessu aftur og það er stórkostlegt. Ég er kannski ekki félagsleg á fótboltaæfingum barnanna spjallandi um allt og ekkert en ég er alltaf til í að tala um bækur. 

Leggjum stundum frá okkur símann, tökum upp bókina.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...