Valkvíði og bókaburður

Ég stend við bókahilluna og velti bók á milli handanna. Þessa hef ég lesið áður, kannski hentar hún núna. Næsta bók sem ég tek úr hillunni er ólesin. Já, alveg rétt ég ætlaði alltaf að lesa þessa. Nú væri rétti tíminn … eða hvað? Kannski ætti ég að taka þær báðar með. En, æ, það var sería á lesbrettinu mínu sem mig langaði svo að lesa líka. Kannski ég kippi því með líka, ef ég verði ekki í skapi fyrir hinar tvær. Fimm bækur? Vonandi sleppur það. Svo er fínt að hafa minnst fjórar bækur til að lesa með börnunum. Taka strákarnir ekki örugglega með sér bækur líka? 

Þegar allt er yfirstaðið, ákvarðanir hafa verið teknar (voru þær réttar?) loka ég töskunni með herkjum. Þessi helgarferð verður æðisleg! Það getur ekki annað verið: Ég er með tíu bækur í töskunni til að tryggja það.

Að hafa val

Kannast þú við þessa lýsingu sem fer hér að ofan? Ferðast þú alltaf með allt of margar bækur í farangrinum? Lestu þær allar? Nei, ég hélt ekki. Við náum sjaldnast að lesa þær allar í þessu stutta ferðalagi. Ég hef farið í helgarferð og ekki náð að lesa stafkrók alla ferðina. En því fylgir einhver öryggistilfinning að hafa bækurnar meðferðis. Að hafa val. 

Ég les bækur eftir skapi, veðri og tilfinningu (mjög óljósri og ég get ekki sett hana í orð). Skapið er óútreiknanlegt. Það gæti allt eins verið að ég detti í væmna gírinn og þrái ekkert heitar en að gleypa í mig eina dísæta ástarsögu, þá er nú gott að ég tók tvær með í ferðalagið. Langar mér að gleyma mér í geimnum? Þá er gott að ég get hlaðið niður einni grjótharðri vísindaskáldsögu til að taka mig upp í himinhvolfið. Er þungskýjað, rok og rigning í bústaðnum og ekki hægt að fara út? Þá er gott að ég tók með skáldsöguna sem allir eru að mæla með. 

Að gleyma bók

Fátt er verra en að sitja uppi lesefnislaus í bústað eða útilegu eða hvaða ferðalagi sem er. Sjálf hef þurft að grípa til þeirra ráða að lesa gömul tímarit í bústað, af því ég gleymdi bók. Hver vill ekki lesa gamla lífsreynslusögu í Vikunni?  Ég meira að segja gleymdi bók til að lesa fyrir börnin að kvöldi. Til allrar hamingju gátum við skáldað saman fábærar sögur um dreka, geimfara og tímaflakk, en þær sögustundir tóku eiginlega of langan tíma. Ég mæli með svoleiðis sögustundum í bílnum.

Til allrar lukku er oftast hægt að finna bók í bústað (eða gamla Viku). Yfirgefnu bækurnar eru betra en ekkert, ég lofa. Svo er hægt að nálgast krimma í næstu sjoppu, eða eina bók úr Rauðu seríunni.  Engann ætti að skorta nokkuð. En það er kannski ekki rétta bókin, sú sem þú vildir lesa akkúrat þá. Rétt eins og þú sérð eftir því að hafa ekki tekið með mjúku, fjólubláu flónelsnáttbuxurnar af því þú hélst að grænu bómullarnáttbuxurnar myndu duga. Og þessar fjólubláu voru í þvottinum. Þú skilur hvert ég er að fara.

Svo ef þú ert eins og ég, láttu þá vaða í öll kílóin af bókum. Taktu þær með. Ef þú vilt hafa léttari tösku á leiðinni heim þá geturðu skilið þær eftir svo aðrir geti notið. 

 

Lestu þetta næst