Fyrir allnokkru síðan skrifaði ég pistil um bókaflokkinn Rauðu seríuna, sem er gefinn út af Ás-útgáfunni, og opinberaði þar með veikleika mína gagnvart ákveðnum tegundum bóka, bóka sem hafa í gegnum tíðina ekki alveg náð á efstu tinda hvað varðar sölulista og verðlaunatilnefningar. Þessar bækur hafa eiginlega ekki einu sinni fengið að verma startreitinn þegar kemur að einhversskonar keppnum um söluhæstu titla eða bestu þýðingarnar. Hver ástæðan sé er erfitt að segja en þó gæti verið að bókaútgáfan sjái ekki tilgang með að gefa kost á þessum bókum í slíkar keppnir þar sem líklega yrðu þær aldrei teknar alvarlega. En allavega, Rauða serían sem slík er ekki hér til umfjöllunar, pistillinn minn forðum segir allt sem ég vildi segja um þann bókaflokk einan og sér. Ég má þó til með að útskýra eitt varðandi þessar bækur til að fólk skilji hvað ég á við hér á eftir.
Þegar síðari heimstyrjöldin skall á lofaði útgáfan lesendum því að koma bókunum alltaf í bókabúðir, sama hvað. Konur voru hvattar til að skrifa fyrir forlagið og fengu þá senda uppskrift að byggingu sögunnar og grind til að skrifa eftir. Margar fátækar ekkjur eftir stríðið náðu sér þannig í aukapening. Það voru eingöngu konur sem skrifuðu þessar bækur fyrir útgáfuna fyrir utan einn, Roger Sanderson fékk að skrifa en undir nafni konu sinnar Gill Sanderson. Þannig er það enn þann dag í dag að konur sjá eingöngu um skrif þessara bóka fyrir Mills & Boon.
Dulkóðuð væmni.
Það sem hinsvegar grasserar í kollinum á mér snýr að skvísusögum. Skvísusögur eru gríðarlega vinsælar þegar þetta er skrifað og þar sem nú er sumar flæða þessar bækur um allar koppagrundir. En hvaða bækur og hvernig, eru þessar skvísusögur? Þetta eru á vondri íslensku svokallaðar „feel good“ bækur með fallegri og girnilegri kápu. En af hverju eru þetta kallaðar skvísusögur? Bækur Ás útgáfunnar eru ekki flokkaðar sem skvísusögur en munurinn á þessum bókum er samt engin. Og þó? Jú skvísusögurnar eru þykkari, söguþráðurinn er teygður enn lengur en engu að síður vitum við frá því að við lítum kápuna augum hvernig sagan endar. Innihaldslausar, karakterslausar og oft á tíðum illa skrifaðar en samt sem áður ávanabindandi, vinsælar og uppörvandi bækur. Og bókaforlögin geta státað sig af því að vera ekki að gefa út bækur sem séu álíka sorp í hugum þenkjandi bókmenntafrömuða og Rauða serían er.
„Skvísusögur“ þykir sniðugt og grípandi heiti og enginn skömm ætti að vera af slíkum útgáfum. Þær fá meira að segja stundum pláss í bókamenntaþáttum í sjónvarpinu eða jafnvel þokkalega gagnrýni á síðum dagblaða. Höfundar eins og Jenny Colgan, Sara Morgan, Jojo Moyes og Jill Mansell fá þann heiður að vera titlaðir metsöluhöfundar þó svo að bækurnar þeirra séu byggðar upp á nákvæmlega sömu grind og bækurnar frá Mills & Boon og hafa ekkert umfram þær bækur sem einstæðar mæður skrifuðu í bílförmum hér áður fyrr til að framfleyta sér og sínum. Og áhrifavaldar hika ekki við að mæla með þessum höfundum og hvetja til lesturs bóka þeirra.
En hvað er þetta með orðið skvísusögur? Hér áður fyrr hefði afi minn kallað svona bækur kerlingabækur. Þurfum við virkilega að dulkóða þessar tegundir af bókum og ber það ekki eilítinn vott um minnimáttarkennd? Eins og bækurnar geti ekki staðið og fallið með þeim sjálfum. Þurfum við svona markaðsbrellu til að fela eitthvað? Getum við ekki bara komið hreint fram, kallað þetta ástarsögur og viðkennt aðdáun okkar á þeim?
Hin feminíska og rómantíska Simona Ahrnstedt.
En þá er komið að máli málanna í þessum pistli. Höfundurinn Simona Ahrnstedt er sænsk ástarsagnadrotting, sú allra vinsælasta þeirra Svía, talin skrifa bækur með femíniskum áhrifum og um bókina Aðeins ein nótt skrifar hið virta dagblað Litteraturmagazinet: „Mjög vel skrifuð, blæbrigðarík og flott saga, krydduð krassandi erótík og ástarþrá.“ Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála. Ég átta mig ekki alveg á þessum femísku áhrifum. Jú konurnar gegna karllægum störfum en þar með er það upptalið, allar þurfa þær karlana til að bjarga sér úr einhversskonar aðstæðum. Og yfirleitt taka karlarnir stjórnina bæði í svefnherberginu sem og utan.
Aðeins ein nótt er fyrsta bókin í þriggja bóka röð, hinar sem komu á eftir heita, Aðeins eitt leyndarmál og Aðeins ein áhætta. Allar bækurnar tengjast með einhverjum hætti, aðalpersóna einnar bókar tengist aðalpersónu bókarinnar á undan o.s.frv. Og það er gott fyrir lesanda eins og mig sem á stundum erfitt með að kveðja persónurnar þegar bók er lokið.
Allar eru bækurnar með uppskrift Rauðu seríunnar, þær teygjast þó lengur á langinn enda hver bók um 500 bls., persónusköpun er ábótavant, karlmaðurinn er þessi týpíska hetja og með staðalútlit, grannur, vöðvastæltur, hávaxinn. Hvernig væri nú að skrifa einu sinni aðalpersónuna miðaldra bumbukarl með hækkandi kollvik? Samræður eru yfirborðskenndar og auðvitað sigrar ástin að lokum. Kynlífssenur eru klisjukenndar og vekja oft á tíðum kjánahroll, lýsingar opinskáar og djarfar og mikið af þeim. Svo mikið kynlíf er í bókunum að ósjálfrátt fer maður að fletta yfir þá kafla, jafnvel geispandi.
Ávanabindandi dagdraumalestur með dass af kjánahrolli.
Að þessu öllu sögðu og eins og mér finnast þessar sögur óttaleg fjöldaframleiðsluskrif, þá gat ég ekki hætt að lesa! Ég gleypti þá fyrstu í mig, las fram á nótt og mætti grá og guggin í vinnuna, með það markmið að koma við í bókabúðinni í hádeginu og ná í þá næstu. Á þeim tíma var ég að lesa ágætis bók eftir Bonnie Garmus sem heitir Inngangur að efnafræði en átti erfitt með að koma mér í að klára þá bók þar sem Simona dáleiddi mig til sín.
Ég hreinlega veit ekki hvað þetta er, hvort þetta sé þorsti í góðan endi, (dætur mínar, lokið augunum og ekki lesa lengra) krassandi kynlífslýsingar eða ásókn í að lesa eitthvað sem ekkert skilur eftir og hugurinn þarf ekki að bræða úr sér við að melta. Eða hvort mig innst inni dreymir um vöðvastæltan og hávaxinn karlmann sem er eins og klipptur út úr ættartré Cristiano Ronaldo (og þar með er það sagt og hjónabandið mitt hangir á bláþræði). Ég veit ekki hvort ég vil vita svarið við þessu en staðreyndin er hins vegar sú að svona bækur eru hvíld, hvíld frá því að rökræða í huganum við aðalpersónur eða aukapersónur eða jafnvel höfundinn sjálfan (guð veit að ég hef átt margar og erfiðar samræður í huganum við Hallgrím Helgason). Hvíld frá oft á tíðum grámyglulegum raunveruleikanum og hvíld frá því að lesa um hörmungar, erfið lífshlaup, ofbeldi, stríð og mannréttindabrot. Því allar góðar bókmenntir þurfa einhvern veginn að kalla fram tár og stundum viðbjóð og bestu bókmenntirnar enda oftast illa og skilja mann eftir í sárum, andvaka eða með vondar draumfarir. Bækur Simonu gera ekkert af þessu, nema þó helst það að ræna mann svefninum svo hægt sé að klára og byrja á þeirri næstu og þeirri næstu og þeirri næstu…
„Uss elskan, ekki trufla mömmu, hún er að lesa“
Skvísusögur eru græðandi, þær róa hugann, veita frið fyrir áleitnum áhyggjum og válegum tíðindum utan út heimi. Skvísusögur sefa ástarsorg, veita fögur fyrirheit um að einhversstaðar bíði þessi fullkomni karlmaður og já ég segi karlmaður, því enn þekki ég ekki karlmann sem les þessa tegund bóka nema í leyni (ég meina, hvaða karlmaður vill láta grípa sig í bólinu lesandi skvísusögu?) og enn hef ég ekki rekist á skvísusögu sem fjallar um samkynhneigt par. Ástin sigrar allt í þessum bókum, viljum við ekki öll trúa því? Og umfram allt þá veita þessar sögur grið fyrir óhreinum þvotti, börnum með hor, uppvaskinu sem bíður frá því í gær og hrjótandi miðaldra karlinum sem er löngu hættur að koma heim með ilmandi rósir og súkkulaði í hjartalaga öskju.
Ég kláraði bækurnar þrjár eftir Simona Ahrnstedt og mæli svo sannarlega með þeim, hinar bíða lokkandi í hillum en ég læt sem ég sjái þær ekki, lít undan og hleyp út, sökkvi mér í sögulegar skáldsögur um lífshlaup biskupa í Skálholti og kvenna á 18. öld, sem áttu mörg börn og báru þau út í íslenskt hraunið með harmkvælum og brostnum hjörtum. Ég sé fram á erfiðar draumfarir, ef ég næ að sofna yfir höfuð en get þó huggað mig við að menningarvitund minni er betur borgið á íslenskri 18. öld innan um illa þefjandi bændur, heldur en í París með bróður hans Ronaldo. Kona má þó láta sig dreyma eða hvað?