Af ávöxtunum skulu þér nú þekkja þá

Loksins fæ ég skilið lagið Úti er alltaf að snjóa og alla þessar vísanir í ávexti í textanum. Svarið fékk ég í Borgarleikhúsinu á nýjustu uppfærslunni á söngleiknum Deleríum Búbónis, sem er verk eftir þá bræður Jón Múla og Jónas Árnason. Fyrir mína kynslóð, og þær sem koma á eftir minni, eru ávextir kannski ekki það fyrsta sem við tengjum við jólin. En Deleríum Búbónis var auðvitað fyrst frumflutt árið 1954, þegar ávextir voru aðal, og jafnvel eina, jólanammið. Leikritið, sem nú brátt fagnar sjötugsafmæli, var upphaflega útvarpsleikrit en það var síðan Leikfélag Reykjavíkur sem færði verkið fyrst á svið árið 1959.

Lög bræðranna föst í íslenskri dægurmenningu

Söngleikurinn Deleríum Búbónis hefur komið sér makindalega fyrir í íslenskri dægurmenningu, og mætti jafnvel segja í íslenskri þjóðarsál, en mörg laganna sem upphaflega komu fram í verkinu eru vel þekkt og lifa mjög góðu lífi enn í dag. Í raun hafa þau tekið fram úr verkinu, því að margir, þar á meðal undirrituð, vissu ekki að dægurlagaperlur á borð við Einu sinni á ágústkvöldi kæmu upphaflega þaðan.

Við sögu koma viðskiptamaðurinn Ægir Ó. Ægis, dóttir hans Guðrún Ægis og kona hans Pálína. Ægir þessi er í ávaxta- og jólatrésbransanum en nýjasta sendingin hans er föst niðri á höfn. Dóttir hans og kona hugsa meira um að stimpla sig inn í listalífið með uppsetningu á ballettinum Djákninn á Myrká en Ægir fær mág sinn, jafnvægismálaráðherrann, til að aðstoða sig við að fá sendinguna í gegn og um leið að knésetja helsta keppinaut sinn, Einar í Einiberjarunni. Ástarþríhyrningur kemur einnig við sögu en tveir ungir menn, þeir Leifur og Unndór, keppast um ástir hinnar fögru Guðrúnar.

Sjónarspil og gott sjóv

Deleríum Búbónis er sýnt á stóra sviði Borgarleikhússins og það í tryggri leikstjórn Bergs Þór Ingólfssonar. Með aðalhlutverk fara Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Esther Thalía Casey, Halldór Gylfason, Sigurður Þór Óskarsson, Valur Freyr Einarsson, Vilhelm Neto, Sólveig Guðmundsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson ásamt Birni Stefánssyni í hlutverki Einars í Einiberjarunni. Sýningin er þétt og söngvarnir margir, lófatakið dynur þess á milli. Áhorfendum er skemmt, þeir vilja sífellt meira. Og ekki er að undra, Deleríum Búbónis hefur allt til þess fallið að skapa skemmtilegt sjóv.

Í raun eru það samt lögin sem eru í aðalhlutverki og því frábær ákvörðun að hafa lifandi band að spila á sviðinu, en með tónlistarstjórn fer Agnar Már Magnússon. Lögin hljóma einnig vel í meðförum leikarana en þar er Esther Talía öðrum fremri og túlkun hennar á bæði lagatextum og á persónu sinni, móðurinni Pálínu sem þráir ekkert heitar en ákveðna númeraplötu á bíl, er firnasterk og full af lífi.

Kómedía með pólitísku biti

Verkið er þó ekki einungis söngleikur heldur líka kómedía með pólitísku biti. Ég veit í raun ekki hversu miklu er búið að breyta frá upprunalega textanum, ef það er þá eitthvað yfir höfuð, en umfjöllunarefnið og satíran á alveg jafn vel við í dag og þegar það var skrifað. Enda eru þarna kannski málefni sem virðast einhvernveginn alltaf plaga okkur; græðgi, spilling, frændhygli og stéttaskipting, til að nefna nokkur. Augljóslega hefur ekkert breyst. Þetta er skemmtilegt verk og fyndið og það á mjög góða spretti, þó að það hafi reyndar farið svolítið hægt af stað. En fljótt fer það á flug og um miðbikið nær það öllum salnum á sitt band. Og í því samhengi mætti jafnvel segja að áhorfendurnir spili mikilvægt hlutverk í að gefa verkinu auka dýnamík. Stemmingin í salnum á nefninlega mikinn þátt í góðri upplifun. Sigurður Þór var síðan alveg einstaklega frábær í slapstick húmornum og sprelli en orkan sem hann gaf frá sér var rafmögnuð og smitandi (Ég held ég hafi reyndar aldrei séð verk með Sigurði þar sem hann stelur ekki senunni).

Deleríum Kóvid

Það hefði þó kannski verið hægt að leika sér með verkið og taka einhvern nútímasnúning á það og sjá hvað úr yrði. Allir með hinar kunnuglegu sóttvarnargrímur og að spritta sig vegna þess að Deleríum Búbónis smithættan er yfirvofandi. En ætli Bergur og listræna teymið hans hafi ekki hugsað að það væru allir komnir með upp í kok af Covid minningum. Og líklega þótti of erfitt að heimfæra jólabisness sem byggist á ávaxtasölu yfir á nútímann. Enda er skemmtileg áminning og lærdómur að sjá verkið í sínum gamla búning. En með leikmynd og búningavali er ýtt undir ákveðna nostalgíu. Kjólarnir hennar Guðrúnar í höndum Stefaníu Adolfsdóttur eiga þar skilið sérstakt lof enda hver öðrum fallegri.

Deleríum Búbónis smitar út frá sér gleði og góða kvöldstund. Það er öruggt að allir þeir sem elska söngleiki, íslensk dægurlög eða dans og kómedíuleikhús muni skemmta sér vel á Deleríum Búbónis í vetur. Leikhópurinn, sem samansettur er af sprúðlandi reynsluboltum, er sterkur og flottur og það er næstum víst að flestir fái harðsperrur í hláturvöðvana og illt í lófa eftir sýningu.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...