Trúður á tímamótum

Þegar Virginia fékk heilablóðfall árið 2018 þurfti hún að læra allt upp á nýtt – að tala, hreyfa sig, smyrja brauð – nefndu það, hún þurfti að læra það. Virginia er menntaður leikari og áður en hún fékk heilablóðfallið örlagaríka vann hún sem sjúkrahústrúður í Skotlandi. Það starfsheiti hljómar eins og uppspuni úr rómantískri gamanmynd, en er í raun bæði raunverulegt og mikilvægt starf sem Virginia sinnti í 7 ár. Núna, fimm árum eftir heilablóðfallið notar hún trúðatæknina til að segja sögu sína á sviðinu í Tjarnarbíó í verkinu Stroke.

 

Að berjast við eigin líkama

Það fyrsta sem grípur mann þegar gengið er inn í salin er einföld sviðsetning og stór mynd af mannsheila sem varpað er á skjá. Heilamysntraður poki og kringlótt motta eru einu leikmunirnir sem eru á sviðinu þar til sýningin byrjar. Ég fékk að sitja á fremsta bekk sem þýðir að ég sé búin að meika það sem leikhúsgagnrýnandi í Tjarnarbíói, en það er víst ekki aðalatriðið hér. Á sviðið stíga hjónin Virginia og Sæmundur, sem hafa verið gift síðan 1994, bæði með trúðanef og í sínu fínasta pússi.

Verkinu er skipt á milli myndbandsbrota, leik og upptökum og tónlist er notuð á fallegan hátt í senum trúðanna. Við sjáum myndbönd af æsku Virginiu og heyrum hana tala um trúðalistina, um leiklistina og vinnuna sína og hvernig hún og maðurinn hennar kynntust. Sæmundur segir okkur frá því þegar hann gat ekki vakið konu sína eina nóttina og áttaði sig á því að eitthvað mikið væri að. Við heyrum af sjúkdómsgreiningu Virginiu og endurhæfingunni, því að þurfa að læra allt upp á nýtt. Á sviðinu sýnir Virginia okkur í leikrænni túlkun trúðarins Cookie hvernig er að þurfa að berjast við eigin líkama fyrir hverri einustu litlu hreyfingu sem við langflest tökum sem sjálfsögðum. Það að borða, drekka kaffi, skera brauðsneið, tjá sig, allt er ótrúlega erfitt þegar maður kann það skyndilega ekki lengur.

Mannleg og einlæg sýning

Stundum er sýningin ótrúlega frústrerandi, en það að þurfa að horfa á Virginiu endurtaka og endurtaka sama hlutinn án þess að ná merkjanlegum árangri er ótrúlega mikilvægur partur af því að sýna áhorfendanum örlítið brot af því hvernig lífið er eftir heilablóðfall. Ef mér finnst pirrandi að sitja í klukkutíma og horfa á konu reyna að smyrja brauð, hvernig myndi mér þá finnast að þurfa sjálf að sitja með brauðhnífinn í annarri höndinni og brauðið í hinni og ná enganvegin að smyrja mér hádegismat, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð? Hvernig myndi mér finnast ef þetta ætti ekki eingöngu við um brauðsneiðar og át heldur allar daglegar þarfir og venjur?

Þessi sýning er svo falleg, svo mannleg, svo djúp og einlæg og yndisleg. Virginia gefur okkur svo fallega gjöf með því að stíga á svið og segja sögu sína. Viðtalið við hana í lok verksins var svo nístandi fallegt, að sjá hana á sviðinu, í essinu sínu, að gera það sem hún gerir best var dásamleg gjöf fyrir alla viðstadda. Án þess að vera of dramatísk má segja að Virginia hafi í þessu verki gert jafn mikið jákvætt fyrir orðspor trúða og Stephen King hefur gert neikvætt fyrir það.

Ef ég gæti hvatt alla á Íslandi til að fara á bara eitt verk í leikhúsi í ár, þá yrði Stroke hiklaust fyrir valinu.

 

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...