Óraunveruleikatilfinningin tekur yfir

Nýlega gaf Sverrir Norland frá sér skáldsöguna Kletturinn en það er fyrsta skáldsagan sem hann gefur frá sér í fullri lengd síðan Fyrir allra augum kom út árið 2016. Í millitíðinni hefur hann brasað margt, þar á meðal stofnað bókaútgáfuna AM forlag, gefið út bókaknippi og bókina Stríð og kliður (2021) sem er uppfull af hugleiðingum um stærstu spurningar samtímans. Sverri er margt til lista lagt en ég var einstaklega spennt að frétta af nýrri skáldsögu úr hans smiðju, enda er það mitt uppáhaldsform.

   Hinn fullkomni fjölskyldufaðir

„Þú virkar alltaf á mig sem svo venjulegur maður. Hinn fullkomni fjölskyldufaðir, með allt á hreinu. Barn í annarri hendi, innkaupapoka í hinni, nýútfyllta skattskýrslu í rassvasanum …“

(bls. 206)

Kletturinn fjallar um Einar, heimilisföður á fertugsaldri sem á erfitt með að fóta sig í lífinu eftir að honum er sagt upp sem handritshöfundur og hann þarf að gegna megin umönnunarhlutverki barnanna sinna þriggja. Embla Eiðsdóttir, kona hans, er á hraðri framabraut og eina fyrirvinnan á heimilinu. Hún er landsfrægt glæsikvendi sem Einar sér fyrir sér að endi einn daginn á sjálfum Bessastöðum.

Ekki hjálpar það tilveru Einars þegar áföll úr fortíðinni fara að fljóta upp á yfirborðið en heil tuttugu ár eru liðin frá því að besti vinur hans, Gúi, lést í hræðilegu slysi í útilegu í Hvalfirði. Viðstaddir voru Einar og Brynjar sem hafa misst sambandið í gegnum árin. Brynjar hefur átt farsælan feril í Bandaríkjunum með konu sinni, fyrrverandi fyrirsætunni Tinu Birnu en nú hafa þau snúið aftur til landsins til að gifta sig og koma litlum erfingja í heiminn. 

Stöðug skilaboð frá Brynjari og boðskort í brúðkaupið hans byrja að valda Einari hugarangri, hann reynir að hunsa Brynjar, en án árangurs. Við tekur mikil innri barátta í huga og hjarta Einars. Það sem gerðist þegar þeir voru ungir menn er enn óuppgert og Einar byrjar að missa tökin á raunveruleikanum. Frásögnin skiptist í senur úr nútímanum og senum úr fortíðinni, eða endurminningum Einars. Það er hressandi léttleiki yfir stílnum sem er þó stundum á skjön við alvarleika umfjöllunarefnisins, en það er mikill leikur í textanum og grátbroslegt viðmót gegn lífinu. 

Eitraða karlmennskan

„Ímyndaðu þér alla pabbana sem kunna ekki að elska syni sína og alla synina sem þrá að elska feður sína en geta það einhvernveginn ekki. Og öll vináttusambönd karlmanna sem einkennast af ógnarjafnvægi og metingi frekar en hlýju og kærleika. Hvers vegna er þetta svona og hvernig getum við breytt þessu?“

(bls. 206)

Eitt meginþema og umfjöllunarefni bókarinnar er tilvera Einars sem karlmaður; karl sem er faðir, eiginmaður, sonur, bróðir, vinur, listamaður og heimavinnandi. Samband Einars við föður sinn spilar mikilvægt hlutverk í frásögninni en hann lést þegar slæmt var á milli þeirra feðga. Sú staðreynd hangir yfir Einari og sitja slæmar minningar um föður hans eftir. Einnig er það vinátta Einars, Gúa og Brynjars sem er í fyrirrúmi, en oft og tíðum einkenndist hún af metingi, stéttaskiptingu og ónærgætni. Þeir kynnast í menntaskóla, þegar þroskinn er nú ekki mikill fyrir. Einar er öðruvísi en þeir, kemur úr „sveit“ í Grafarholti, á meðan þeir tveir koma af vel efnuðum fjölskyldum og skilja varla þennan metnað að taka Strætó úr Grafarholtinu alla leið niður í miðbæ alla daga. Ekki gengur hlutverk Einars sem eiginmaður heldur vel, þar sem ákveðnir brestir hafa nýlega orðið í hjónabandinu. Einar er því að missa undan sig fótunum á öllum vígvöllum, og kannski ekki skrítið að hann fari að missa tökin þegar skuggar fortíðar fara að króa hann af.

Veruleikinn er ofbeldi

„Ég sagði henni frá óraunveruleikatilfinningunni sem helltist reglulega yfir mig. Að óraunveruleikatilfinningin lýsti sér þannig að umheimurinn yrði skyndilega svo falskur og gervilegur – hávaði, bara endalaus hávaði. Þá þyrfti ég nauðsynlega á einveru og kyrrð að halda til að endurvekja trúverðugleika hlutanna í kringum mig.“ (bls. 205)

Kletturinn er áhugaverð rannsókn á innra lífi manns sem getur ekki horfst í augu við sjálfan sig eða eigin gjörðir. Þegar raunveruleikinn verður honum um of lýsir hann honum sem „ofbeldi“, „áreiti“ og tilfinninguna sem hellist yfir hann hefur hann nefnt „óraunveruleikatilfinninguna“. Frásögnin er sannfærandi og fannst mér áhugaverðast þegar kafað var einmitt ofan í þessa óraunveruleikatilfinningu  sem Einar hefur nánast alltaf upplifað og magnaðist enn meir eftir dauða Gúa. Hún er við það að taka algjörlega yfir þegar lesandanum er boðið inn í hans líf.  

Kletturinn er bók sem vekur upp margar spurningar um lífið, kynjahlutverk og vináttu. Ég rann í gegnum bókina á stuttum tíma, stíllinn er léttur og leikandi og umfjöllunarefnin áhugaverð. Vegferð Einars er harmræn en einnig grátbrosleg á köflum og heldur lesandanum við efnið. Bókin er auk þess í styttri kantinum og án allra óþarfa málalenginga. En það sem situr eftir í mér eftir lesturinn er þessi óvissa um hvaða mann Einar hefur raunverulega að geyma, er hann þessi ráðvillti góðviljaði heimilisfaðir eða er það gríma sem hylur myrkari og óhugnanlegri hlið sem hann hefur bælt niður í ótal ár? 

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.