Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur er glæný barnabók en hún kom út í íslenskri þýðingu þann 19. október síðastliðinn og verður henni fagnað með útgáfuhófi í dag. Tímasetning útgáfuhófsins er engin tilviljun: Í dag er kvennaverkfall! Undirtitill bókarinnar er Þegar íslenskar konur höfðu svo hátt að allur heimurinn heyrði í þeim en fókus bókarinnar er á Kvennafrídaginn árið 1975. Bókin kom fyrst út í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári en kemur nú í fyrsta sinn út á íslensku.

Bókin hefst á því að Vera og mamma hennar eru að undirbúa sig til að fara niður í bæ þar sem konur landsins ætla að ganga út. Óljóst er hvaða ár er en mamma Veru rifjar það upp að á þessum degi þegar hún var á aldur við Veru fór hún niður í bæ með mömmu sinni ásamt þúsundum annarra kvenna en það var á Kvennafrídaginn árið 1975. Mamma segir Veru frá því hvers vegna konur gengu út og leggur Vera orð í belg að það hafi nú verið fáranlegt hvernig stúlkur áttu að vera heima að hjálpa á meðan strákar fengu að sækja sér menntun! Réttindi kvenna unnust smátt og smátt en árið 1975 var samt mikið ójafnrétti, laun kvenna ójöfn karla og konum fannst þær vera ósýnilegar. Mamma segir Veru í smáatriðum frá því hvernig konur um allt land brugðust við þessu ástandi og tóku sér frí og hvernig karlmenn landsins þurftu að taka við störfum þeirra þennan dag.

Merkileg saga sem er aldrei of oft sögð

Undanfarin árin hefur orðið aukning í útgáfu barnabóka sem fræða börn um kvenréttindabaráttuna hér á landi og merkilegar konur í sögu þjóðarinnar. Má þar nefna bók Ránar Flygenring um Vigdísi forseta og Íslandsdætur eftir Nínu Björk Jónsdóttur ogAuði Ýr Elísabetardóttur. Þessu ber að fagna enda er saga kvenréttindabaráttunnar hér á landi afar sérstök og hefur hún vakið athygli langt út fyrir landsteina.

Saga Kvennafrídagsins er saga sem við þekkjum flest, sérstaklega eftir mikla upprifjun á þessum degi undanfarið í fjölmiðlum, en það breytir því ekki að þetta var stórmerkilegur viðburður sem gaman er að geta nú frætt börn um með bók Lindu Ólafsdóttur. Vandað hefur verið til verka við að segja söguna á aðgengilegan hátt, myndirnar eru framúrskarandi og er bókin mjög falleg, jafnframt eru stuttar setningar á hverri síðu svo auðvelt er að halda athygli yngri lesenda. Sagt er frá því sem fór fram þennan dag en fyrir mér stóðu upp úr frásagnirnar utan Reykjavíkur sem ég hafði ekki heyrt áður, til dæmis af þernum á millilandaskipi sem lágu sem fastast í kojum sínum og tókst svo að sannfæra loftskeytamanninn um að senda skeyti á fundinn í Reykjavík. Það var svo lesið upp við tryllt lófatak allra viðstaddra!

Baráttan heldur áfram

Þó að bókin segi í lokin frá sigrum sem hafa unnist frá 1975 lýkur sögunni á þeim mikilvægu skilaboðum að við verðum að halda áfram að berjast. Enda er ekki að ástæðulausu að Vera og mamma hennar eru að taka þátt í göngu og að konur ætla að ganga aftur út í dag. Bók Lindu er vel heppnuð frásögn af einum merkasta degi í sögu þjóðarinnar. Linda er margverðlaunuð fyrir bækur sínar og afar fær myndhöfundur. Það segir mikið um myndirnar í bókinni að mig langar helst að geta keypt þær sem myndir og rammað þær inn! Bókin er aðgengileg fyrir flesta aldurshópa þó að minn aðstoðarlesandi, tæplega tveggja ára, vildi bara benda mér á strætóana og hundinn í bókinni, þessi bók á því kannski betur erindi til eldri lesenda. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gefa yngri börnum bókina og lesa hana bara seinna saman! Enda erindið afar mikilvægt. Gleðilegt kvennaverkfall!

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...