Margir foreldrar kannast eflaust við þá áskorun sem felst í að bursta tennurnar í börnum sínum þegar fara á að sofa. Mér gekk í fyrstu mjög vel að bursta tennurnar í syni mínum þar sem honum þótti það spennandi. Svo varð tannburstunin allt í einu mikill bardagi. Ég batt vonir við að Tannbursturnardagurinn mikli efti Sophie Schoenwald gæti auðveldað okkur þetta hversdagsverk.

Schoenwald er menntuð sem sérfræðingur í mannlegum samskiptum. Hún er fædd árið 1980 og býr í Köln. Systir Sophie er tannlæknir og sagði dóttur sinni sögur af dýrum að bursta tennurnar. Þannig fékk Sophie hugmyndina að bókinni en hún hefur gefið út fjölda barnabóka.

Gunther Jakobs er myndhöfundur bókarinnar. Hann er menntaður í heimspeki og myndlist og á þrjú börn sem finnst ekkert gaman að láta bursta í sér tennurnar. Hann hefur bæði myndlýst fjölda bóka og sjálfur skrifað bækur.

Hvaða fýla er þetta?

Þegar forstjóri dýragarðsins mætir til vinnu finnur hann mikla fýlu. Hann talar við Boga Pétur broddgölt sem segir forstjóranum að dýrin í garðinum séu hætt að bursta tennurnar. Þeim þyki það einfaldlega of erfitt. Daginn eftir er dýragarðinum lokað því það er tannburstunardagurinn mikli. Saman hjálpast forstjórinn og Bogi Pétur að við að bursta tennurnar í öllum dýrunum. Þeir nota þó nokkuð óvenjulega aðferð þar sem broddgölturinn sjálfur er tannburstinn! Honum finnst það reyndar ekki svo slæmt nema þegar þeir fara í ljónagryfjuna. Þeim tekst í sameiningu að bursta tennur allra dýranna í garðinum.

Ekki löðurmannleg!

Bókin var fyrst gefin út í Þýskalandi árið 2018 en þýðingin er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta. Orðaforðinn í bókinni er almennt einfaldur en inn á milli koma orð eins og löðurmannlegt sem ég viðurkenni að ég þurfti að glöggva mig á. Fyrir ykkur sem voruð óviss um merkingu orðsins, eins og ég, þá þýðir það að vera ómerkilegur eða lítilmannlegur. Þetta er einmitt það sem er svo skemmtilegt við lestur, maður er alltaf að læra!

Það er mikilvægt að barnabækur séu líka fyrir fullorðna. Við erum þau sem lesum þær aftur og aftur og það er því nauðsynlegt að við þreytumst ekki á þeim. Ég hef lesið þessa bók nokkrum sinnum og er allavega ekki enn komin með nóg af henni. Þar spila myndirnar stórt hlutverk. Þær drógu mig strax inn í sögunni enda hefur Gunther skemmtilegan stíl og í myndunum er bæði mikil hlýja og kímni.

Bókin er prentuð í þægilegri stærð og er í fallegu umbroti. Hún hentar vel fyrir þau sem eru að byrja að lesa en svo er auðvitað hægt að lesa hana fyrir yngri börn. Sagan er bæði hnyttin og skemmtileg og myndirnar draga lesendur alveg inn. Það vill jú enginn vera andfúll!

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....