Rithöfundateymið á bak við verðlaunabókina Blokkin á heimsenda, þær Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir, snýr aftur með nýja bók! Það gladdi mig svo sannarlega að frétta af samstarfinu enda var ég mjög hrifin af Blokkinni og augljóst að miklir hæfileikar væru þarna á ferðinni. Fyrir bókina hlutu þær Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020. 

Í þetta skiptið tefla þær fram bókinni Mömmuskipti sem hefur sérlega athyglisverða og spennandi lýsingu. Linda er þekkt sem „klósettkrakkinn“. Það er ekki mjög spennandi viðurnefni. Mamma Lindu birti mynd af henni á netinu, mynd frá því hún var barn og sést sitjandi á klósettinu og ælandi í sömu andrá. Myndin varð … jú það sem kallað er „viral“ í dag og ALLIR kannast við klósettkrakkann og deila myndinni óspart. 

En Linda er ekkert hrifin af frægðinni, hún vill helst fá að vera í friði og stunda parkúr með Ölmu bestu vinkonu sinni. Systir Lindu, Barbara, er andstæða hennar. Hún er með bökunarþátt í gegnum samfélagsmiðla móður þeirra og nýtur athyglinnar. Það er nefnilega það, mamma þeirra hún Jara er svokallaður áhrifavaldur og líf þeirra systra snýst óþarflega mikið um uppstillingar, gervibros og að þóknast móður sinni svo að fasteignasalan hennar geti notið góðs af samfélagsmiðlafrægð fjölskyldunnar. 

Mamma Lindu fer síðan yfir strikið þegar hún skráir fjölskylduna í raunveruleikaþáttinn Mömmuskipti án samþykkis fjölskyldunnar. Linda er gjörsamlega á móti þessu en auðvitað fær mamma hennar sínu framgengt og skiptir um hlutverk við hippamóðurina Dellu í Kaliforníu en Della birtist á heimili Lindu, tilbúin að henda öllum dýraafurðum og mat með sykurinnihaldi út úr ísskápnum.

Hressandi persónusköpun

Mömmuskipti er skrifuð á fjörugan hátt, uppfull af leikgleði og galsa. Ég var mjög hrifin af persónusköpuninni en Linda er þrívíður karakter sem mörg börn ættu að tengja við. Aðrar persónur hafa öll sín skemmtilegu einkenni og eru passlega ýktar í stíl við hressilegt andrúmsloft söguheimsins. Jafnvel heimilistæki hafa sinn persónuleika en fyrir raunveruleikaþættina voru bæði heimilin uppfærð og fyllt af snjallheimilistækjum. Á heimili Lindu er  ísskápurinn með yfirstjórn yfir öllum raftækjunum og fær nafnið Jökull. Jökull er einstaklega kassalaga besserwisser sem ergir Lindu daglega, enda hefur hún ekki einungis misst mömmu sína og alla stjórn á sínu lífi í heilan mánuð, heldur getur hún ekki einu sinni fengið sér súkkulaði til að líða betur! 

Stórfyndin samfélagsádeila

Sem þrítug kona hef ég auðvitað annað sjónarhorn á Mömmuskipti en börn myndu hafa en frá mínum bæjardyrum séð er þetta alveg stórkostlega útfærð ádeila á áhrifavalda og hvernig þeir nýta börnin sín í hagnaðarskyni á samfélagsmiðlum. Höfundarnir gera þetta á svo skiljanlegan og fínlegan hátt, þannig að það er enginn predikunartónn til staðar, en Linda hefur sterka réttlætiskennd og í gegnum tilfinningar hennar og mótþróa er mjög auðvelt að sjá hversu mikið brot á friðhelgi barna þetta er. Við upphaf lesturs leið mér eiginlega bara alveg hræðilega þar sem ég hafði svo djúpa samkennd með Lindu, en auðvitað er það ekki eitthvað sem mun rista yngri lesendur jafn djúpt. Ádeilan er umvafin stórskemmtilegum húmor og léttleika sem krakkar munu hafa mikla ánægju af. 

 Hin fullkomna fjölskyldubók

Fyrir mér er þetta hin fullkomna fjölskyldubók, hún talar til svo fjölbreytts lesendahóps og er skrifuð á mörgum „plönum“. Börnin, sem hafa líklega minni skilning fyrir samfélagsádeilunni, lesa æsifjöruga og skemmtilega barnabók og foreldrarnir geta svo sannarlega hlegið með en einnig átt samtal við börnin um samþykki, að þeirra sé valið um hvort þau vilji að myndir af þeim birtist á samfélagsmiðlum og viðrað þeirra skoðanir á þessum málum. Þetta er auðvitað vaxandi vandamál í samfélaginu okkar og í dag eru þessi svokölluðu „netbörn“ farin að vaxa úr grasi og átta sig á því að barnamyndir af þeim munu lifa alla ævi þeirra, og lengur, á internetinu.  

Mömmuskipti er fjörug, stórfyndin og virkilega vel skrifuð barnabók. Ég mæli með henni helst í alla jólapakka því innihaldið mun gleðja hvern einasta fjölskyldumeðlim og jafnvel brydda upp á samræðum um virkilega mikilvæg málefni um réttindi barna í heimi samfélagsmiðla. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...