Högni – tilfinningalegur hryðjuverkamaður?

Slaufunarmenning, mannleg samskipti, hin hliðin, allt er þetta umfjöllunarefni Auðar Jónsdóttur í bókinni Högni sem Bjartur gefur út. Auður er afkastamikill höfundur en eftir hana liggja til að mynda bækurnar Tryggðarpantur (2006) og Stóri skjálfti (2015) en þær voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þau verðlaun hlaut hún árið 2005 fyrir Fólkið í kjallaranum sem einnig var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið eftir.

Auður er margreyndur og verðlaunaður höfundur og bækur hennar hafa verið þýddar á fjöldamörg tungumál. 

Skáldsagan Högni fjallar um fráskilda umhverfisfræðinginn Högna sem treður réttlætiskenndinni öfugt ofan í samstarfsfólk sitt og þá er verða fyrir honum hverju sinni. Hans vinna snýst um að áhættumeta framkvæmdir hins opinbera með tilliti til loftlagsáhrifa og hann telur sig góðan í sínu fagi. Einkalífið vefst þó örlítið fyrir honum. Að hans eigin mati er hann kvennagull en síðar kemur í ljós að framkoma hans gagnvart kvenfólki er honum ekki til sóma. Alls kyns uppákomur, hver annarri verri, leiða til þess að Högni siglir beint í strand og skolast niður í ræsi samfélagsmiðlanna. Hann kemur lesanda fyrir sjónir sem hálfgerður furðufugl sem kann ekki mannleg samskipti, veit ekki hvar mörkin liggja en virðist samt geta blikkað konur inn í svefnherbergi til sín eins og ekkert sé. Þarna er svolítil þversögn í persónu hans sem gengur ekki alveg upp. 

Er hann tilfinningalegur hryðjuverkamaður?

Konurnar sem hafa átt í samskiptum við hann ríða ekki feitum hesti frá þessari bók, þær hafa flestar ekki burði til að standa með sjálfri sér. Karlpersónurnar beita ofbeldi og yfirgangi en skáka í skjóli þess að hafa átt ömurlega æsku. Mögulega á lesandinn að upplifa afhjúpun á rót vanda karlpersónanna, þar sem allt kemur heim og saman og útskýrir hegðun þeirra. En gerir það samt ekki. Það útskýrir ekki af hverju við ættum að sýna Högna mildi eftir hans framkomu. Erfið bernska afsakar ekki ákveðna framkomu síðar á lífsleiðinni þó vissulega geti hún útskýrt gjörðirnar. Svo er það þetta með kvenlega eiginleika og viðbrögð sem konur hafa og sýna, en karlmönnum er meinað um.

Ég græt segir hann þurrlega. Sjáið, helvítið grætur! Kerlingin í karlinum. Sú sem hann á ekkert tilkall til. Því konur eru passífar. Viðkvæmar! Dulúðlegar. Feimnar. Óvissar. Hörfandi… þær eiga að hörfa.

Karl með þá eiginleika – er hann skíthæll? Óheiðarlegur? Karlmaður sem hörfar? Óviss? Er hann tilfinningalegur hryðjuverkamaður?

(bls. 203)

Erum við konur með einkarétt á því að sýna ákveðin viðbrögð sem svo körlum á álasað fyrir? Er það þá hin hliðin á samskiptum kynjanna?

Það er erfitt að hafa samúð með Högna og það er margt í þessari bók sem stuðar lesandann. Hann hefur enga siðferðiskennd þegar kemur að kvennamálum og sér ekkert rangt við sig eða sína hegðun, hann telur sig frekar vera fórnarlamb aðstæðna og bernskunnar. Undir textanum kraumar þessi ósagða staðhæfing að það séu tvær hliðar á öllum málum. Sem er auðvitað rétt í flestum tilvikum. Sumt er þó til þess fallið að hin hliðin bjargar engu og atriðið í strætisvagninum, þegar Högni missir algjörlega stjórn á sér við unglingsstúlkur, er skrýtið. Það er öllum ljóst að framkoma stelpnanna í vagninum var óásættanleg. Hins vegar er framkoma Högna þar með engu réttlætanleg enda fær hann að kenna á afleiðingum þess og þar spila samfélagsmiðlar stórt hlutverk.

Hvers sök?

Öll erum við eins og á leiksviði í lífinu, við vitum sjaldnast hverjir áhorfendurnir eru eða hvernig sýn þeirra á okkur og okkar hegðun, birtist þeim. Í gegnum tíðina hefur ýmislegt viðgengist í samskiptum kynjanna sem konur hafa þurft að láta yfir sig ganga. En ekki lengur. Slaufun er eitt af þeim verkfærum sem konur hafa þegar allt um þrýtur, þegar ekkert annað virkar og í málum sem eru erfið og öðru fólki finnst oft á gráu svæði, það er ekki skrýtið þó hrikti í stoðum samfélagsins þegar taka á til í aldagrónum samskiptum.

Slaufun Högna í bókinni er þess eðlis að hún ýtir undir og hampar þeim rökum að það beri að huga að hinni hliðinni þegar slaufun er annars vegar. Lesandinn veit strax hver sök unglinganna er, það er freistandi að láta sig hlakka til þegar og ef stúlkurnar verða afhjúpaðar. Því er það fyrir mörgum lesandanum eflaust sönnun þess að slaufun er óréttmæt þar sem það sé alltaf þessi hin hlið. Mikið hefði mér þótt gaman ef þetta samtal sem Högni fékk í lok bókarinnar frá einum af feðrum stúlknanna, hefði bara snúist um hversu röng hans viðbrögð voru ÞRÁTT fyrir allt sem á undan gekk. En í stað þess fær Högni viðurkenningu á því að sökin hafi ekki verið hans í raun og veru og það er lagt á herðar unglinganna að hafa ekki áttað sig á því að hann væri ekki í jafnvægi. Og munum að það er gífurlegur þroskamunur á annars vegar Högna, hámenntuðum sérfræðingi og svo unglingunum. 

Þetta atriði bókarinnar er nokkurs konar vatn á myllu þeirra sem telja uppeldi unglinga ábótavant og að það séu alltaf tvær hliðar á öllum málum, ekki sé það alltaf augljóst hverjir séu gerendur og hverjir þolendur í svona málum. Þegar það uppgötvast svo að upptökin voru ekki Högna fellur allt í ljúfa löð þrátt fyrir allar konurnar sem stigu fram og lýstu ömurlegri og ofbeldisfullri framkomu hans við þær. Sú hlið á honum fékk ekki nánari skoðun.

Að endingu.

Hafi Auður ætlað að deila á hvernig samfélagið flokkar ofbeldisfulla hegðun, þar sem ein birtingarmynd þess er liðin þegar önnur er fordæmd, þá fannst mér það algjörlega missa marks. Mér fannst höfundurinn vera með Högna í liði alla söguna. Upplifunin er sú að það geti verið réttlætanlegt að missa algjörlega stjórn á sér ef viðkomandi hefur góða afsökun og þó það sé ekki æskilegt að beita ofbeldisfullri orðræðu og ógnandi hegðun gagnvart börnum þá sé það skiljanlegt hafi börnin sýnt af sér dónalega og meiðandi framkomu.

Þessi bók höfðaði ekki til mín, hún vakti þó hjá mér sterkar tilfinningar en ekki góðar. Mér fannst hún uppfull af karlrembu, undirtónninn skrýtinn og karllægur og ósamræmi í persónusköpuninni, sérstaklega varðandi persónu Högna. Jafn félagslega vanhæfur einstaklingur og Högni á að vera, hann kæmi aldrei til með að geta náð konum til lags við sig með því einu að blikka þær. Til þess þarf færni í mannlegum samskiptum sem einstaklingur með slíka félagslega vanhæfni hefði ekki á sínu valdi. 

Svo alltof mörg voru þau orð. Sumar bækur þurfa bara lengri umræðu en aðrar, Högni er svo sannarlega ein slík bók. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...