Geimverubörn og njósnari sem elskaði skólamat

Geimverubörnin tóku kennarann minn og Njósnarinn sem elskaði skólamat eru léttlestrarbækur eftir Pamelu Butchart og eru gefnar út af bókaútgáfunni Setberg.  Bækurnar fjalla um Lísu og vini hennar, Jódísi, Magneu og Sigga. Sögurnar gerast í skóla krakkanna, við sögu koma kennararnir, nýir krakkar byrja í skólanum og ýmislegt gruggugt á sér stað, allavega svona við fyrstu sýn. Þá er líka um að gera að snúa bökum saman, láta ekki óvinina sigra og til þess þarf vináttu og hugrekki, samstöðu og kannski líka pínulítið glens.

Þessar bækur hafa hlotið verðlaun víða en eins og svo oft vill verða þegar barnabækur eiga í hlut, eru verðlaunin veitt af fullorðnu fólki, bækurnar dæmdar og vegnar af fullorðnum lesendum. Það er þess vegna mikið gleðiefni þegar börnin fá að  njóta sín, vega og meta það sem er markaðssett sérstaklega fyrir þau.

Frekað mikið fyndnar og skemmtilega skrifaðar

Jódís Kristín Jónsdóttir og Bergur Ingi Þorsteinsson eru nemendur í 5. bekk í grunnskóla Grundarfjarðar. Þau eru miklir lestrarhestar og ráðast oft ekki á garðinn þar sem hann er lægstur á skólabókasafninu, Harry Potter er vinsæll, sem og kjarnmiklar bækur um Lindu og leyndarmál hennar. Bergur Ingi og Jódís Kristín tóku að sér að lesa þessar tvær bækur sem þýddar hafa verið eftir Butchart og þar sem þau hafa bæði lokið léttlestrarbókatímabilinu sem skólinn setur fyrir, þá var sérlega gaman að heyra hvað einmitt þannig lestrarhestar hafa að segja um léttlestrarbækur.  „Ég finn ekki fyrir því að þessar bækur séu léttar bækur,“ segir Jódís Kristín. Henni finnst bókin fyrst og fremst spennandi og fyndin, „frekar mikið fyndin“ bætir hún við og Bergur Ingi tekur í sama streng: „Ég væri alveg til í að lesa fleiri bækur eftir þennan höfund,“ bætir hann við og segir að geimverurnar hafi verið skemmtilega skrifaðar og þó aðalpersónurnar hafi aðallega verið stelpur þá sé það algjört aukaatriði.

Sumar bækur myndu þau ekki nenna að líta á tvisvar.

Vináttan er boðskapurinn í bókinni að Jódísar mati, það að standa saman. Bergur er sammála Jódísi og bætir við að ekki sé allt sem sýnist í sögunum og því sé gott fyrir persónurnar einmitt að standa saman og passa upp á vináttuna. Þau eru bæði sammála um að söguþráðurinn sé góður, myndirnar bæti við hann og það skipti máli. „Þessar myndir eru flottar,“ segir Bergur Ingi og Jódís Kristín bætir við að myndir skipti nefnilega mjög miklu máli, þær þurfi þess vegna að vera vel gerðar.  Jódísi finnst svo ekki spilla fyrir að eiga nöfnu í bókunum, hún sjái nafnið sitt aldrei í bókum.  „En mamma Jódísar í bókunum er ekkert eins og mamma mín,“ segir hún svo og hlær. „Þetta eru mjög skemmtilegar bækur en ég er mjög feginn að vera ekki í þessum skóla sem krakkarnir í bókunum eru í,“ segir Bergur og brosir.

Bækurnar eru ekki barnalegar að þeirra mati, þó svo að þær séu í þeim flokki að vera léttlestrarbækur og þau segjast aldrei velta því fyrir sér þegar bækur eru valdar, hvort þær séu auðveldar í lestri eða ekki.

Kápur bókanna fá líka góða einkunn hjá krökkunum, þær þurfi að vera glaðlegar og litríkar svo þær grípi augað á bókaborðinu.  „Manni verður að langa að taka bókina upp og skoða hana betur,“ segir Bergur og Jódís er sammála honum með það. Þau tóku svo dæmi um nýútkomna barnabók sem lá á öðru borði og sögðu hana einmitt svona bók sem væri ekki flott og þau myndu jafnvel ekki nenna að líta á tvisvar.

Skiptir líka máli að fullorðnir lesi og hafi gaman af að lesa.

En af hverju ætli þessir krakkar hafi mikinn áhuga á bókum og séu dugleg við lesturinn?  Jódís er fyrri til að svara því: „Það skiptir máli að lesa fyrir börn þegar þau eru lítil. Mamma og pabbi voru mjög dugleg við að lesa fyrir mig og  lásu fyrir mig allskonar bækur.“ Sama segir Bergur: „Pabbi var mjög duglegur að lesa fyrir mig og ég held líka að það skipti máli. Líka að fullorðna fólkið lesi sjálft og hafi gaman af að lesa.“

Hvað finnst svo þeim sem eldri eru?

Guðrún Ósk er nemandi í 7. bekk í Nastuaskóla á Akureyri og hún var ekki eins hrifin og Jódís og Bergur af bókum Butchart. „Mér fannst þær ekki skemmtilegar fyrir minn aldur,“ segir hún og bætir því við að það hafi verið mjög greinilegt að um léttlestrarbækur væri að ræða, mikið af einföldum orðum og söguþráðurinn fyrirsjáanlegur. Myndskreytingarnar skipta máli að mati Guðrúnar, þær bæti við söguna og auki skilning á persónum og umhverfi þeirra.

En hverjir voru kostir og gallar við bækurnar eftir Butchart? „Mér fannst leiðinlegast að lesa um prumpubrandara og margir brandararnir voru bara leiðinlegir en skemmtilegast var að lesa um leyniherbergið undir stiganum.“ Guðún Ósk er ekki viss um að hún velji að lesa fleiri bækur eftir þennan höfund og það skiptir hana ekki máli hvernig bókakápur líta út og hefur ekki sérstaka skoðun á bókakápunum á þessum tilteknu bókum.

En hvað heldur Guðrún að sé ástæðan fyrir því að hún hefur alltaf haft áhuga á bókum og bókalestri? „Það er gaman að fá að nota ímyndunaraflið þegar ég les bækur og ég myndi alveg vilja að krakkar fengju meira að segja sitt álit á barnabókum. Það væri t.d gaman ef krakkar væru með bóka-podcast.“

Þá vitum við það. Léttlestrarbækurnar eftir Butchart sem Setberg gefur út er fín afþreying fyrir krakka alveg upp í 5. bekk en kannski ekki fyrir eldri lesendur. Við þökkum Jódísi Kristínu, Bergi Inga og Guðrúnu Ósk kærlega fyrir sitt innlegg í barnabókaumræðuna.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...