Tveir álfar sem gleðja lítil hjörtu

Leikhópurinn Miðnætti hefur sérhæft sig í vönduðu menningartengdu efni fyrir börn og hafa komið með kærkomnar sviðsetningar fyrir þá meðlimi samfélagsins sem eru að hefja fyrstu kynni sín af leikhúsi. Hópurinn var stofnaður af leikkonunni og leikstjóranum Agnesi Wild, tónlistarkonunni Sigrúnu Harðardóttur og leikmynda – og búningahönnuðinum Björgu Harðardóttur. Leikhópurinn er meðal annars þekktur fyrir uppsetningar á borð við Tjaldið í Borgarleikhúsinu sem var einstök og kærkomin leiksýning gerð sérstaklega fyrir mjög unga leikhúsgesti, brúðuleiksýninguna Á eigin fótum sem fékk Grímuverðlaunin árið 2017, og svo eru þau þekkt fyrir hin ýmsu ævintýri álfanna Þorra og Þuru.

Leiksýningin Jólaævintýri Þorra og Þuru er sýnd um þessar mundir í Tjarnarbíó enn á ný, en hún var fyrst sett upp árið 2019. Það er eitthvað sérstaklega hátíðlegt við það að fara með börnin sín í leikhús á aðventunni og sprengja algjörlega út töfra jólanna fyrir þeim. Ég viðurkenni að ég hef beðið spennt eftir að geta upplifað leikhúsgleðina með minni elstu og þá allra helst að fá þessa samtvinnun jólanna, barnæskunnar og leikhúss sem að hlýtur bara að vera ein tærasta sæla sem til er.

þorriogþura

Lengið líftíma gleðinnar

Jólaævintýri Þorra og Þuru er skemmtileg sýning sem höfðar til barna allt frá þriggja ára aldri. Leikmyndin er einföld en töfrandi og það hvernig lýsingin er notuð til að skapa stemmingu og auka áhrif er einkar vel gert. Það sem gerir Þorru og Þuru líka einstaklega góða sýningu fyrir yngstu börnin er það að börnin geta myndað meiri tengsl við sýninguna bæði fyrir og eftir hana með því að nýta sér allt aukaefnið sem til er. Bæði er til bók um Þorra og Þuru sem hefur að geyma einmitt sömu sögu og í leiksýningunni með myndlýsingum eftir Bergrúnu Írisi, og svo er einnig hægt að hlusta á alla tónlistina á streymisveitunni Spotify. Þannig er hægt að lengja líftíma gleðinnar sem sýningin skapar og einnig kynna börnin fyrir sögunni fyrirfram svo þau séu betur undirbúin og öruggari. Sýningin er þar að auki í fullkominni tímalengd fyrir yngstu börnin.

Búið ykkur undir sönglandi börn

Grínið var vel tímasett og uppskar mikinn hlátur frá áhorfendum. Leikhópurinn nýtir sér síðan brúður til að túlka ýmsar persónur sem var skemmtilega óvænt og þá þótti mér jólakötturinn alveg sérstaklega vel heppnuð og falleg brúða. Tónlistin sem er eftir Sigrúnu Harðardóttur er litrík, gáskafull og vönduð en foreldrar geta átt von á því að vera með barnið sitt sönglandi og dansandi í marga tíma eftir leikhúsheimsóknina. Að minnsta kosti var mín dama undir miklum áhrifum af orkuskotinu sem leikhústöfrar geta borið með sér. Það er mikilvægt að við höfum hér á landi fjölbreytta flóru í menningu okkar og að minni leikhús geti starfað. Alls kyns leikhús sem að bjóða upp á sýningar sem að eru minni og einfaldari, en sem fyrst og fremst virka og veita ómælda gleði.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...