Orð gegn orði í Þjóðleikhúsinu

Tessa Ensler er ungur stjörnulögfræðingur. Hún kláraði skólann með toppeinkunnir og vann eins og hestur til að komast þar sem hún er í dag. Allir í kring um hana eru forríkt yfirstéttarlið en Tessa, hún klóraði sig þangað sem hún stendur nú á engu nema stálviljanum, gáfum og eljusemi. 

Sem verjandi trúir Tessa á lögin – þau eru óhrekjanleg og réttlát – og ef einhver tapar máli þá er það af því sá hinn sami hafði ekki lagalegan fót að standa á. Eða er það ekki?

Lögfræðidrama

Tessa er leikin af Ebbu Katrínu Finnsdóttur og birtist á sviðinu í lögmannsskikkju yfir pen jakkaföt og hvíta skyrtu. Hún er í smekklegum hælaskóm, ljóst hárið er rennislétt og förðunin óaðfinnanleg. Ebba er eini leikari sýningarinnar, sem er einleikur, og fer með texta Tessu á kraftmikinn og trúverðugan hátt. Hún byrjar verkið með sprengju, sýnir áhorfendum  hvernig hún ber sig að við vitnaleiðslur í dómssal – hvernig hún lokkar vitnin til að tala af sér, hvernig hún vinnur hvert málið á fætur öðru.

En Adam var ekki lengi í lögfræðiparadísinni. Þegar Tessa lendir sjálf í að verða fyrir glæp flækist málið. Konan sem hefur alltaf trúað á lögin og treyst því að verjendur eins og hún séu ekki að frelsa glæpamenn, heldur að vernda þá saklausu, þarf að hugsa dæmið upp á nýtt þegar hún sjálf stendur í vitnastúkunni sem brotaþoli – eða meintur brotaþoli – og öll vopn lögfræðinnar og kerfisins snúast gegn henni.

Leiksigur á litlu sviði

Verkið er 105 mínútur án hlés og er Ebba Katrín á sviðinu allan tímann, utan kannski hálfrar mínútu þar sem hún er skuggamynd. Hún veldur hlutverkinu ótrúlega vel, fangar persónuleika Tessu og allra persónanna sem Tessa á í samskiptum við – en Ebba bregður sér í allra kvikinda líki með augnsvipnum einum saman. Hún skiptir um stöðu, hallar höfðinu, geiflar sig aðeins, og hún er orðin ný manneskja. Einnig grætur hún þegar Tessa grætur og hlær með henni líka, er fyndin, klár, snögg upp á lagið en einnig viðkvæm og lítil. 

Verkið er sett á svið í Kassanum og nánd milli áhorfenda og leikara er mikil. Ebba innir af hendi mikið þrekvirki með leik sínum. Ég sat á fremsta bekk og það var ómögulegt annað en að hrífast algerlega með verkinu. Smitast af tilfinningum Tessu, að hlæja þegar hún sagði eitthvað sniðugt, að fá sjálfur tár í augun þegar Tessa átti bágt. 

Öflug útfærsla á áleitnu verki

Lýsingin skipti sköpum í uppsetningu verksins, en ljósahönnuður er Jóhann Friðrik Ásgeirsson. Bæði er lýsingin notuð til að hrista upp í áhorfendum og koma þeim á óvart, halda þeim á tánum, en einnig til að draga fram ákveðna svipi hjá Ebbu og breyta stemningunni algerlega. Þá er hljóðheimur verksins viðkvæmnislegur en þó sterkur, hannaður af Kristjáni Sigmundi Einarssyni. Tónlist eftir Gugus er aðeins notuð til að segja sögu en ekki sem skreyting sem mætti sleppa. Þá er myndbandshönnun Ástu Jónínu Árnadóttur grípandi og brýtur upp verkið eins og hálfgert hlé og færir okkur áfram í tíma.

Ég var auk þessa einkar hrifin af notkun leikmuna, en bæði búningar og leikmunir eru í umsjá Finns Arnars Arnarsonar. Í einleik er erfitt að finna jafnvægið milli þess að nota of mikið af leikmunum og enda í brellufangelsi, eða nota ekkert og vera þá hugsanlega að neita leikaranum um tól sem gætu lyft performansinum á hærra stig. Í Orð gegn orði eru leikmunir svo sannarlega akkúrat nægilega margir, nægilega einfaldir og nægilega fjölbreyttir. Maður býst ekki við þeim, en þegar þeir koma er eins og þeir hafi alltaf verið á sviðinu. Búningaskipti Ebbu eru einnig mínímalísk en þó sterk, hver flík er augljóslega úthugsuð og vel nýtt og skapar sögunni ramma, styður við narratívu og veitir sjónræna nautn. Þá er vert að nefna að umtanumhald um alla þessa þræði sem gera verkið svona gott eru í höndum Þóru Karítasar Árnadóttur, sem einnig átti stóran hlut í þýðingu verksins. Augljóst er að verkinu er mjög vel leikstýrt og samvinna leikstjóra og aðalleikara skila sér í stórkostlegu verki.

Orð gegn orði

Á ensku heitir verkið Prima Facie (sem er ekki enska heldur latína) og útleggst sem „við fyrstu sýn,“ og er með því heiti vísað í sönnunarbyrði saksóknara í sakamálum. Íslenski titillinn, Orð gegn orði, er eitt dæmi um vel heppnaða þýðingu á verkinu, en í textanum er nefnt að kynferðisbrotamál séu oft orð gegn orði. Þýðingin er listavel gerð en Ragnar Jónasson þýddi texta Suzie Miller með Þóru Karítas, leikstjóra. Enskan skín hvergi í gegn, heldur rennur textinn lipurlega og óþvingað á íslensku, eins og hann hafi verið skrifaður á okkar tungu. Öll orð og samræður koma vel út, aldrei er hik á framsögn eða augljóslega óþjált orð. Greinilegt er að leikarinn kann textann aftur á bak og áfram og útkoman er sú að það virðist sem svo að Ebba sé Tessa, að hún sé virkilega að segja áhorfendunum sögu sína, en ekki að þetta sé leikrit. 

Ef ég ætti að setja út á eitthvað væri það verkið sjálft, en eftir miðbik finnst mér það setjast í predikunarstól sem fer því ekki jafn vel og aðrir hlutar þess. Mér finnst að höfundur ætti að treysta áhorfendum aðeins betur til að draga ályktanir og láta atburði tala sínu máli fremur en að útskýra fyrir okkur nákvæmlega hvers vegna þeir eru góðir eða slæmir, sanngjarnir eða ekki. Þó er vert að nefna að verkið er frumflutt árið 2019 og þó stutt sé síðan er ótrúlega hröð þróun í samfélagsáliti og umræðu um sekt og sakleysi. 

Ég mæli hiklaust með sýningunni fyrir alla sem langar á stutt og laggott leikhús, alla sem fíla ótrúlega góðan og sterkan leik og aðdáendur lagadrama.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...