Bókin Litlasti Jakinn er rímsaga sem segir frá Dísu sem er minnst í jakuxahópnum. Hún er ósátt með stærðina sina en mamma hennar segir henni að stærð geti verið alls konar. Dísa setur stækkunaráætlun í gang þar sem hún reynir að borða nóg af ávöxtum og klífa fjöll en ekkert virkar. Síðan kemur að því að hún fær verkefni sem aðeins hún ein getur leist einmitt vegna smæðar sinnar. Hún endar á því að bjarga deginum og áttar sig á að hún er fullkomin eins og hún er.

Þegar ég sá að bókin var rímsaga þá sló það strax í gegn hjá mér! Allt frá því að ég las bókina Þegar Trölli stað jólunum hef ég elskað rímsögur. Það er bara eitthvað svo ánægjulegt að fylgja hrynjandinni í ríminu þegar setningar enda á orðum sem ríma fullkomlega. Þá er eins og síðasta púslið smelli akkúrat á sinn stað.

Bókin var fyrst gefin út í Bretlandi árið 2020 en kemur út fyrir jólin í íslenskri þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur. Það er örugglega strembið að þýða rímsögur yfir á annað tungumál og passa að inntak sögunnar haldi sér en þýðingin sé bæði skemmtileg og skörp.

Lu Fraser, höfundur bókarinnar, býr í suður Englandi ásamt eiginmanni sínum og dóttur. Litlasti jakinn var fyrsta myndabók hennar en síðan hún kom út hafa þó nokkrar bækur bæst í safnið. Bókin féll í góðan jarðveg í heimalandinu og vann til ýmissa verðlauna. Kate Hindley myndlýsir bókina en hún hefur einnig myndlýst fjölda bóka og unnið til verðlauna fyrir verk sín.

Myndir eru mikilvægar

Myndlýsing Kate á stóran þátt í því hvað bókin er skemmtileg. Litapallettan er frábrugðin þeim barnabókum sem ég hef lesið með syni mínum undanfarið á þann hátt að hún notar svo fáa liti. Sumar barnabækur geta verið hálfgerð litasprengja en í þessari bók eru helst tónar af svörtum, hvítum og gráum ásamt gulum, rauðum og bláum. Það er góð tilbreyting. Stíllinn er einstakur og myndirnar skapa hugljúfa stemningu.

Litlasti eða minnsti?

Á ensku heitir bókin The Littlest Yak. Áður en ég byrjaði að lesa velti fyrir mér af hverju titillinn væri ekki þýddur Minnsti Jakinn. Ég hélt reyndar að littlest væri viðurkennt bullorð á ensku en svo fór að kanna það betur. Eftir því sem ég kemst næst er þetta orð almennt notað í Bretlandi og Litlasti er því bein þýðing úr frummáli bókarinnar. Hver getur ákveðið fyrir sig en eftir lestur bókarinnar er ég á því að það hefði ekki verið sami andi yfir sögunni ef hún hefði verið þýdd sem Minnsti jakinn.

Beint í hjartað

Boðskapurinn er sterkur og hitti mig beint í hjartað þar sem ég var alltaf með þeim smæstu í bekknum. Sagan kennir manni að allir hafi sína einstöku kosti og allir hafi eitthvað fram að færa. Þetta er dásamleg rímsaga um sjálfsviðurkenningu þar sem myndirnar spila lykilhlutverk. Bókin hentar einstaklega vel fyrir krakka á leikskólaaldri og upp í fyrstu bekki í grunnskóla.

Tvær aðrar bækur um jakann Dísu eru þegar komnar út á ensku og ég vona innilega að þær verði líka þýddar yfir á íslensku!

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...