Eldur í Eyjafjallajökli

Björk Jakobsdóttir heldur áfram með sögu merarinnar Hetju í nýrri bók sinni sem heitir EldurSagan gerist undir Eyjafjöllum árið 2010, þegar gos hófst í Eyjafjallajökli. 

Glöggir lesendur muna eflaust eftir bókinni Hetju sem kom út árið 2020. Í þeirri bók fylgdist lesandinn með merinni Hetju takast á við náttúruöflin þegar hún óð beint yfir miðhálendið til að komast frá Skagafirðinum og aftur heim til sín á Suðurlandið. 

Í þessari bók er Hetja aftur aðalsöguhetjan en hún deilir sviðsljósinu með Björgu, mannasystur sinni sem er 16 ára, Eldi nýköstuðu folaldi sínu, og Ævari syni Tóta glæps úr Skagafirðinum sem reyndi að stela Hetju í fyrri bókinni.

Tæp tvö ár hafa liðið frá því lesendur skildu við Hetju og Björgu. Þær hafa þroskast og lært enn betur á hvora aðra og eru orðnar gott lið í hestaíþróttinni og sigra hvert mótið á eftir öðru. Samband þeirra er einstakt. 

Eldgos!

Sagan hefst skömmu eftir að Björg er hyllt fyrir sigur á hestamóti. Á sama tíma er Hetja kominn í haga með stóðinu sínu, undir Eyjafjöllum. Svo kveður við hvellur, hestarnir styggjast og gestir við verðlaunaathöfnina fá sms í símana sína. Gos er hafið í Eyjafjallajökli og allir þurfa að yfirgefa svæðið. Það fyrsta sem bændur á Suðurlandi hugsa út í eru dýrin á svæðinu og gegningar. Hvernig er hægt að koma dýrunum í skjól? Hver á að sinna þeim á meðan á rýmingu stendur? Björg vill helst af öllu koma Hetju úr hættu. 

En stóðið er útsjónarsamt. Þau flýja öskuna og eimyrjuna sem eldfjallið spýr yfir hagana. Og hér kemur sérþekking Bjarkar sér vel. Björk hefur mikla þekkingu á hestum og þeirra eðli og það skín í gegnum skrif hennar þegar hún bregður sér yfir í huga Hetju. Hestarnir eru hræddir, hvekktir og óttast hið óþekkta. Þeir vilja þó helst af öllu komast burt frá drununum og öskufallinu og leiðast því út í hættur, sem þeir vona að leiði þá á öruggari stað. Það var taugatrekkjandi að fylgjast með stóðinu fara yfir vakra, gamla brú yfir beljandi jökulá í vexti. En málin vandast fyrir Hetju, sem er fylfull á flóttanum. Á miðjum flottanum dregur hún sig úr stóðinu og kastar litla folanum Eldi og verður viðskila við stóðið. Til allrar óhamingju hittir hún á Tóta glæp úr Skagafirðinu, eða Rúllubaggannn úr fyrri bókinni, sem ber kalt hatur til Hetju. Tóti er staddur á Suðurlandi til að selja hryssur úr landi og til að freista gæfunnar að kaupa ódýra hesta af örvæntingafullum bændum undir Eyjafjöllum. 

Aðdáendur verða ekki sviknir

Atburðarásin í bókinni er æsispennandi og hröð. Skiptingin á milli sjónarhorna veitir lesandanum stærra sögusvið. Mér þótti þó sjónarhorni Elds ofaukið. Hann bætti heldur litlu við frásögnina greyið litla og mér hefði þótt skemmtilegra að sjá hann í gegnum augu Hetju, hinnar stoltu móður. Það er gaman að sjá sveitakrakka takast á við lífið án þess að þeim sé stillt upp á móti barni úr borg, ég kunni vel að meta það. Bæði Ævar og Björg fá að blómastra sem sveitakrakkar, eða unglingar í þessu tilviki. 

Stíll Freydísar Kristjánsdóttur, myndhöfunds, á einkar vel við bókina. Freydís teiknar raunsæjar svarthvítar myndir, þar sem fegurð hestanna fær að njóta sín til fulls, þrátt fyrir litleysið. Á kápu bókarinnar má sjá Hetju og Eld á hlaupum undir logandi eldfjalli og móðurástin skín úr augum Hetju. 

Aðdáendur Hetju verða ekki sviknir af þessari bók. Eldur er æsispennandi saga, vönduð og tilfinningarík. Bókin hentar einstaklega vel fyrir krakka á síðustu árum yngsta stigs í grunnskóla og á miðstigi. Þetta er líka bókin sem ungt hestaáhugafólk vill lesa. 

 

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...