Lítill fíll með langan rana kallaði á mig mig í úrvalinu á bókasafni Árbæjar einn regnþungann þriðjudag. Ég greip fílinn og laumaði í pokann með úrvali dóttur minnar, þriggja ára. Ég leyfi henni að velja sér bækur en helmingur af því sem kemur með okkur heim er valið af mér. Þá aðallega vegna þess að það sem grípur hana eru oftast bækur sem við höfum fengið lánaðar áður, eða eitthvað með Önnu og Elsu úr Frozen. Ég vil að hún lesi fjölbreyttar og vandaðar bækur en dægurefnið sem vekur áhuga má vera með í bland. Fíllinn með langa ranann náði að vekja lukku þegar lestur hófst við heimkomu.

Þessi litli bleiki fíll með langa ranann býr í bók sem heitir Pómeló líður vel undir biðukollunni og er eftir Ramonu Badescu með teikningum eftir Bemjamin Chaud.

 

Veikleikar verða styrkleikar

Bókin skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hluti fjallar um það hvernig veikleikar okkar geta einnig verið okkur styrkleikar en þar spilar langi raninn hans Pómeló lykilhlutverk. Raninn getur nefninlega verið honum til trafala vegna lengdarinnar en svo getur hann einnig nýst honum vel við ýmislegt. Í öðrum hluta er verið að fjalla um hvernig við getum öll orðið hrædd og óörugg. Þá verður Pómeló hræddur við ýmsa ímyndaða atburði en þeir fjalla um það að vera smeykur við óvissuna, við að vera einn og einmana og að missa sinn samastað í tilverunni. Þriðji hluti er svo um ánægjuna í lífinu, hvað Pómeló finnst skemmtilegast að gera og það er ýmislegt skondið.

Við nánari eftirgrennslan sé ég að hinn franski Pómeló á sér seríu af bókum en þetta er þó eina bókin sem hefur verið þýdd, en það eru Jessica Devergnies og Ásta H. Ólafsdóttir sem fara styrkum höndum um þýðinguna.

Textinn í bókinni er nokkuð ljóðrænn og rennur ljúflega í upplestri. Þýðandinn hefur valið að nota nokkur orð sem ekki eru algeng í talmáli, sem leiðir að sjálfsögðu til þess að börnin bæta við orðaforða sinn. Sagan er látlaus en tilvistarkreppa  kraumar alls staðar undir niðri sem gerir Pómeló að persónu sem hægt er að tengja við. Pómeló býr nefninlega í grænmetisgarðinum, nálægt blaðlaukunum, en hann veit ekki um veröldina fyrir utan og hann hræðist hana. Hann er í sinni búbblu og líður best þegar hann er öruggur á sínum samastað. Tilvistarkreppan kemur allra best fram í teikningum Benjamin Chaud, sem er meðal annars skapari Bangsa litla. Teikningarnar lýsa tilfinningalífinu vel og eru fullar af húmor og gríni sem er þó líklegra er að fullorðnir eða eldri börn grípi. Fyrir yngri börn eru þær einlægar og nokkuð einfaldar, segja sína sögu án þess að flækja málin neitt of mikið. 

Fyrir eldri og yngri

Það er eitthvað við Pómeló sem er heillandi, þótt gæna kápan heilli ekki við fyrstu sýn. Pómeló lokkar samt lesendur til sín. Þar sem aðeins er ein lína af texta á hverri síðu er bókin tilvalin í heimalesturinn fyrir eldri börn sem eru enn að stauta sig fram úr lestrinum. 

Sagan er mjög einlæg og blátt áfram. Myndskreytingarnar fylla síðurnar og eru einfaldar fyrir yngri markhóp en jafnframt fallegar, eftirminnilegar og fyndnar. Textinn á hverri síðu er stuttur svo mér finnst þetta einnig hin fullkomna bók fyrir 3-5 ára börn sem stundum hafa takmarkaða athygli og vilja fletta áfram og þurfa kjarnyrtan söguþráð sem skilur samt sem áður mikið eftir sig. Pómeló á að lesa hægt og rólega en þannig skilar ljóðræni tónninn sér best og samtöl verða til út frá orðum og teikningum.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...