„Hér hvílir íslensk tunga“

Veistu hvað á að standa á legsteininum mínum? Hér hvílir íslensk tunga.“ Auður Haralds, Rúv 2023.

Auður Haralds er látin. Samfélag bókanna syrgir. Það var engin eins og hún. Aðsópsmikil kona, skelegg í viðtölum, kankvís, sjarmerandi og gríðarlega vel máli farin. Fyrir marga var hún óviðeigandi, ögrandi og umfram allt, ekki við hæfi barna, kvenna, ekki nokkurra. Ég man að hafa horft á hana í sjónvarpinu sem krakki, ég man að hafa heyrt fuss og svei hér og þar. Ég man þegar skólasystir mín fékk ekki að taka að láni bókina Hvunndagshetja, „þetta er ekki bók fyrir þig“ hvein í bókasafnskonunni og svo saup hún hveljur við tilhugsunina um hvaða afleiðingar það hefði nú haft ef vinkona mín hefði náð að lauma bókinni heim. Við vorum fimmtán ára, svona bækur þóttu ekki við hæfi. SVONA bækur. Forboðnar bækur eru bestar. Við fórum næsta dag, önnur stóð vörð á meðan hin stal bókinni. Ekki skal sagt frá hér hvor okkar var sú þjófótta og bókinni þorðum við ekki að skila aftur.

Hvunndagshetjan var lesin, lesin svo aftur mörgum árum seinna og við lesturinn vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Hárbeittur húmorinn, kaldhæðnin og undirliggjandi reiði.  Það var ekki fyrr en þá sem ég gat sett þetta fyrrum fuss og svei í samhengi. Umræðan var hin mesta tepra á árum Hvunndagshetjunnar, hún kom út árið 1979 og þá var ég sex ára. Fjölmiðlar voru ritskoðaðir á þessum árum og ansi margt sem ekki þótti við hæfi að ræða opinskátt enda hvort sem er ekki nokkur sem þorði því. En Auður spilaði ekki eftir þessum óskrifuðu reglum. Hún bjó til sínar eigin. Hvunndagshetjan opinberaði hluti eins og ofbeldi innan heimilis, ofbeldi í hjónaböndum, samskipti kynjanna og svo margt fleira sem aldrei hafði verið áður skrifað um.

Í viðtali sem Auður Jónsdóttir tók við Auði Haralds og var sýnt á Rúv árið 2023 (virkilega skemmtilegt viðtal sem ég mæli með að bókaunnendur horfi á) ræddi Auður ferilinn sinn, hvernig neyðin kom henni til að gefa út skrifin sín, hún var einstæð móðir, baslaði og bjó. Hafði átt í sambandi við ofbeldismann. Hvunndagshetjan er byggð á hennar lífi.  Hversu mikil opinberun hlýtur bókin að hafa verið konum sem í svipuðum sporum stóðu.  Auður ruddi brautina, kenndi konum að kalla hlutina þeim nöfnum sem þeir nefndust. Kenndi konum að heimskan væri ekki þeirra, ofbeldisfullir karlmenn væru hreinlega svín. Umfram allt kenndi hún konum að það væri eðlilegasti hlutur í heimi að leggja fæð á karlmenn sem berja konur, að það væri ekkert eðlilegt við slík ofbeldisfull samskipti og ætti ekki að líðast. Munið, árið var 1979.

 „Karlmenn gráta ekki og hafa ekki tilfinningar. Karlmenn eru æðri verur, allt kvenfólk er heimskt og skiptist í mellur, lesbíur og gamlar kellingar. Konur með meðalgreind og þar yfir eru skelfileg ögrun við ofurefli karlmannsins og eina leiðin til að sýna þeim hvað þær eru illa gerðar er að berja úr þeim vitið“.

Af þessu eina dæmi má sjá hversu Hvunndagshetjan var ólík öllu öðru sem áður hafði verið gefið út, íslenski bókmenntaheimurinn varð ekki samur á eftir. Sem betur fer.  Auður hélt áfram að skrifa, Læknamafían kom út ári seinna og Auður fór að verða fyrir aðkasti og svívirðingum Hún hætti að birtast í viðtölum, hún var orðin útskúfuð vegna óviðeigandi skrifa. Hlustið þér á Mozart kom út 1982 og enn voru aðstæður einstæðu móðurinnar henni hugleiknar.

Auður skrifaði ekki bara skáldsögur. Hún þýddi, skrifaði blaðagreinar og svo fæddist Elías, fyrirmynd barna í góðum siðum. Elías var hugarfóstur Auðar og Valdísar Óskarsdóttur, leikinn af Sigurði Sigurjónssyni og hann fékk sitt pláss í Stundinni okkar.  Mig minnir að ekki hafi farið hátt hver það hafi verið sem skapaði hann. Samt get ég í minningunni kallað fram upphafsatriði þáttanna um Elías og þar stóð skýrum, örlítið barnalegum stöfum, Auður Haralds og Valdís Óskarsdóttir. Elías var fyndinn. Allir elskuðu hann, börn, foreldrar, ömmur, afar, systkini. Og aftur var þarna eitthvað nýtt á ferðinni sem ekki hafði sést áður. Heimilisfólkið á mínu heimili hópaðist að skjánum þegar hann birtist og á mínu heimili var afskaplega breitt aldursbil. Í minningunni var umræðan um Elías á þann veg að vinsældir hafi verið Sigurði Sigurjónssyni leikara að þakka. En ekki höfundinum. Hann sást hvergi. Baneitrað samband á Njálsgötunni kom út árið 1985, algjörlega stórkostleg unglingabók, skrifuð af virðingu fyrir unglingum, málfarið var hressandi fyrir okkur þau sem muna hversu litlausar og beinlínis leiðinlegar unglingabækur voru á þessum árum.

Árin liðu og á níunda áratugnum hvarf Auður sem rithöfundur.  En svo snéri hún til baka með barnabókinni Litla, rauðhærða stúlkan árið 2007.  Síðasta bók Auðar Hvað er Drottinn að drolla kom árið 2022 og tónninn er sá sami, textinn uppfullur af húmor og hæðni eins og henni einni var lagið.

„Hræra þeir í súpunni með tittlingnum? Og ef þeir gera það get ég ekki bara fengið að nota sleif?“

Ég þakka Auði af öllu hjarta fyrir að gefa samfélaginu hressilega á kjaftinn með sinni fyrstu bók árið 1979, fyrir öll hlátrasköllin um miðjar nætur sem ég reyndi svo mikið að hemja til að vekja ekki aðra á heimilinu og fyrir að taka slaginn og ryðja veginn. Að lokum vil ég þakka henni fyrir að gefa frat í yfirborðsmennsku og tilgerð, sumir bara hafa þetta af guðs náð og Auður var svo sannarlega ein af þeim.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...