Strætóbílstjóri sér ljósið á miðri vakt. Ekki rauða ljósið, eða það græna, heldur sannleikann. Guð er ekki einungis til, heldur einnig með honum. Jesú býr í brjósti hans og lætur nú á sér kræla. Bílstjórinn stöðvar vagninn til að taka við fagnaðarerindinu.

Unglingsstúlka bíður eftir strætó. Hún er að verða of sein í skólann, skólann þar sem hún er lögð í einelti af jafnöldrum sínum. Stúlkan býr hjá ömmu sinni og á móður í neyslu. Auk þessara vandræða er stúlkan hrjáð af alvarlegum sjúkdómi sem herjar á ungmenni landsins, ógurlegum viðtengingarháttsskorti.

 

Strætisvagninn er svo seinn að stúlkan fer ekki í skólann. Hún fer aldrei aftur í skólann. Strætóbílstjórinn á ekki afturkvæmt í vinnuna. Gervigreindarfyrirtækið að baki spjallmenninu DEUS er í leit að starfsfólki til að plægja sig í gegnum það sem liggur landanum á brjósti og hellir inn í spjallmennið í leit að sáluhjálp. Fyrrum blaðamaður er ráðinn til starfa og líf þessara þriggja einstaklinga fléttast saman.

Deus er fimmta bók Sigríðar Hagalín og er það sem á ensku myndi kallast speculative fiction, eða náframtíðarvísindaskáldskapur, á okkar ástkæra ylhýra. Það sem ber á milli náframtíðarvísindaskáldskapar og hreins vísindaskáldskapar er að sá fyrrnefndi einbeitir sér að samfélagi mannanna eins og það er í dag að mestu leiti, með örlitlum breytingum sem höfundur sér fyrir að gætu gerst á næstu árum, en vísindaskáldskapurinn sækir lengra fram í tímann eða jafnvel í óþekktar víddir. Í Deus sjáum við að sagan gerist á þessum tímum, en millikaflar í formi greina og frétta gegna því hlutverki að tíma- og staðsetja verkið. Í þessum fréttum sér lesandi að náttúran riðar til falls, minniháttar hamfarir og undarlegt háttalag dýra kemur við sögu, en þó ekkert svo undarlegt að það gæti ekki gerst á næstu árum. Það sama gildir um spjallmennið DEUS sem nýtir sér gervigreind til að komast að innsta kjarna mannsinns – sálinni.

Dansað á gröf viðtengingarháttar

Aðalpersónurnar þrjár, unglingsstúlkan Ísabella, strætisvagnsstjórinn Sigfús og blaðamaðurinn Andri Már eru þrjár raddir bókarinnar. Ísabella og Sigfús eru í þriðju persónu og kaflar Andra Más eru skrifaðir sem upptökur af viðtölum. Stílbragðið er skemmtilegt og brýtur upp söguna án þess að verða leiðigjarnt vegna endurtekninga. Mér fannst svo algjör rúllandi snilld að skrifa hluta frásagnarinnar án viðtengingarháttsins, þessu deyjandi málfræðibragði, til að fanga rödd unglingsstúlku. Eini gallinn á málfari ísabellu er að hún talar alveg eins og ég, sem er 32 ára, en ekki eins og 17 ára unglingur, allavega ekki eins og sá sem ég bý með. Burt séð frá því er saga Ísabellu falleg og sár. Tilfinningar unglingsins sem á í fá hús að leita eru hráar og djúpar. Leit hennar að öruggum stað til að lifa lífinu óáreitt er svo nýstandi og raunsæ. Ísabella hefur, eins og flest fórnarlömb einltis, ekkert til saka unnið en reynir þó að kenna sjálfri sér um hvers vegna önnur börn níðast á henni. Sambandið sem hún stofnar við Sigfús, þegar hann fer að venja komur sínar í bakaríið til hennar er ósköp fallegt, þar sem tvær litlar sálir knúsa hvor aðra yfir smurðu baguette og manngæsku.

Heillandi persónusköpun

Ég er einmitt líka mjög hrifin af persónu Sigfúsar, sem er fyrrum skáld og hefur misstigið sig ansi oft í lífinu. Hann á unglingsson sem hann hefur misst samband við sökum óreglu og stendur hjónaband hans á brauðfótum sem skilnaðarmýslur narta stöðugt í við hver mistök og afglöp sem Sigfús fremur í starfi. Þegar hann missir vinnuna hjá Strætó biður konan hans að hann fara að heiman, og það sem eftir er bókar ráfar Sigfús um götur, gistir í skýli, leitar á náðir bókasafna og bakaría til að forðast náttúruöflin. Þetta flakk Sigfúsar er áhugavert og ég kann að meta að sögu manns sem á ekki heimili séu gerð svona góð skil. Sigfús vekur samkennd þó að hann hafi gert mistök, hann er veikur og er að reyna sitt besta. Mér þykir vænt um Sigfús og vona að honum vegni vel.

Andri Már er sú persóna sem ég tengi minnst við, enda fáum við ekki innsýn í hans innra líf, heldur er hann fremur tól til að sýna lesendum samskipti Deus við Sigfús, og hvernig gervigreindarfyrirtækið reynir að leggja undir sig mannssálina, og er hann glæsilegur í því hlutverki, auk þess sem skot á deyjandi blaðamannastétt og ritlistarkennslu eru alltaf skemmtileg.

Svo vel skrifuð, svo þreytt plott

En jafnvel þó að mér þyki vænt um persónurnar og vil að þeim vegni vel, og burtséð frá því að Sigríði Hagalín hefur tekist það sem ótrúlega fáum hvítum íslenskum höfundum hefur náð, að skapa asíska persónu sem er ekki staðalmynd, heldur lifandi og tvívíð persóna, þá get ég ekki annað en dæst yfir meginstefi verksins. Ég er bara svo ótrúlega þreytt á skrifum um að gervigreind sé af hinu slæma og að spjallmenni og AI-list muni gera okkur öll atvinnulaus, áhugamálalaus og að lokum sálarlaus. Ég, persónulega, hef ekki svo miklar áhyggjur af þessu. Vissulega er oft gott að ganga hægt um gleðinnar dyr og hafa varann á, aðgát skal höfð í nærværu tölvu og svo framvegis, en come on! Fólk var líka hrætt um að skáldsagan myndi ala af sér leti og ómennsku og fólk sem héngi bara uppi í sófa og læsi skáldskap lon og don. Og hér erum við í dag, ekki það mikil ómenni, en eigum fullt af skáldum og bókum.

Að lokum

En svo ég hætti nú þessu væli, er Deus skemmtileg bók sem ánægjulegt er að lesa, hún er fljótlesin, enda ekki nema rúmar 200 blaðsíður og persónusköpunin, skrifin og stíllin eru æði. Svo er Deus líka mjög flott nafn á bók og kápan er fabulous. Ég mæli mikið með bókinni og ætla að næla mér í aðrar bækur höfundar næst þegar ég kemst á bókasafn.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....