Óvæntustu metsölubækur ársins

Alastair Campell og Rory Stewart

Á hverju ári slá einhverjar bækur í gegn og lenda á metsölulistum bæði erlendis og jafnvel hérlendis. Öll og ömmur þeirra lesa þessar bækur og hafa gaman af. Í þessu samhengi má nefna bækur á borð við Da Vinci CodeHarry Potter bækurnar, 50 Shades seríuna, Inngangur að efnafræði og Tomorrow and Tomorrow and Tomorrow. Það má rífast um gæði bókanna en það sem þær eiga sameiginlegt er að vera spennandi skáldskapur. Því má það teljast stórmerkilegt að á metsölulistum í Bretlandi og víðar á síðastliðnu ári voru tvær pólitískar bækur. Það voru bækurnar But What Can I Do? eftir Alastair Campbell og Politics on the Edge eftir Rory Stewart. Bækurnar eru mjög ólíkar en hvor um sig afar vel skrifaðar og mætti alveg kalla þær skyldulestur fyrir þau sem hafa mikinn áhuga á stjórnmálum.

Öll og ömmur þeirra að hlusta á hlaðvarpið

Um vorið 2022 fór í loftið hlaðvarpsþáttur sem ekki er frásögu færandi nema hann hefur ekki dottið úr efstu sætunum á vinsældalista hlaðvarpa í hverri viku í Bretlandi síðan þá (og er ofast í efsta sæti). Þátturinn nefnist The Rest is Politics og honum stjórna hinir fyrrnefndu Alastair Campbell og Rory Stewart. Alastair Campbell er þekktastur fyrir að hafa verið samskiptaráðgjafi Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, og er oft kallaður spin doctor. Tony Blair leiddi Verkamannaflokkinn og hefur Campbell einnig aðhyllst hugmyndafræði hans. Stewart var hins vegar þingmaður Íhaldsflokksins í tvö kjörtímabil þangað til hann bauð sig fram til formanns og tapaði gegn Boris Johnson og ákvað í kjölfarið að láta gott heita. Mennirnir eru eðli málsins samkvæmt ekki alltaf sammála og því er mottó þáttarins að vera ósammála á góðan hátt (en: disagree agreeably). Ég held að engan hafi getað órað fyrir því þegar þessi þáttur fór í loftið hvað hann myndi njóta mikilla vinsælda og ekki aðeins í Bretlandi heldur út um allan heim. Mennirnir tveir ræða í hverri viku það sem er efst á baugi í stjórnmálum en einskorða sig svo sannarlega ekki við Bretland. Mér finnst ég gáfaðri af því að hlusta á þennan þátt og vissi til dæmis að kosningar færu fram í Indónesíu í janúar vegna hans (sem ég hefði annars aldrei vitað). Mennirnir tveir höfðu báðir skrifað bækur  áður en vinsældir þáttanna hafa án efa spilað inn í ákvörðun þeirra að taka upp pennann á ný en hér að neðan verður fjallað um sitthvora bókina.

Hvatning fyrir öll að taka þátt

But What Can I Do? kom út í maí 2023 og er fræðibók. Fyrri hlutinn snýst um p-in þrjú; populism, polarisation og post-truth og í honum rekur Campbell það hvernig hann telur að heimurinn hafi endað á þeim skaðlega stað sem hann er núna, út frá pólitísku sjónarhorni. Frá lokum níunda áratugarins hafi verið mikið bjartsýnisskeið, allt fram að upphafi nýs árþúsunds, þegar lýðræðisríkum fór að fækka, stjórnmálamenn á borð við Trump birtist á sjónarsviðinu og ungt fólk fór að missa áhuga á pólitískri þátttöku. Þau sem hlusta í hverri viku á The Rest is Politics munu eflaust ekki læra margt nýtt í þessari yfirferð en hún er mjög fín fyrir þau sem vilja setja sig inn í hlutina almennilega. Seinni hluti bókarinnar er hagnýtari og snýst um það hvernig fólk sem hefur áhuga getur tekið þátt í að byggja upp samfélag, gefið kost á sér í stjórnmálum og komið málefnum sínum á dagskrá. Þetta þótti mér virkilega gaman að lesa og ég spændi alveg í gegnum bókina eftir að ég komst í síðari hlutann. Heilt yfir myndi ég mæla með bók Campbells fyrir öll en sérstaklega ungt fólk sem er ef til vill að velta fyrir sér hvort það geti breytt einhverju í heiminum í dag.

Það er kalt á breska þinginu

Politics on the Edge kom út haustið 2023 og því gátu Campbell og Stewart báðir notið þess að kynna bækurnar sínar í hlaðvarpinu (sem þeir gerðu nú alveg nóg af!) án þess að vera í samkeppni. Bókin er allt öðruvísi en But What Can I Do? Um er að ræða æviminningar Stewart sem byggja mikið á dagbókarfærslum hans. Hann fer yfir sinn bakgrunn, en aðal áherslan er á tíma hans í stjórnmálum frá 2010 til 2019. Hann segir í byrjun bókar að hann hafi þurft að sleppa ýmsu, til dæmis fer hann ekki yfir þátttöku sína í borgarstjórnakosningunum í London 2020 (sem ég hefði viljað lesa um) en ég held að það hafi aukið dýpt bókarinnar að einblína einungis á þetta níu ára tímabil. Bókin hefur hlotið lof gagnrýnenda en ég myndi segja að bókin sé ekki jafn aðgengileg og bók Campbell. Ég tel að lágmarksáhugi á breskum stjórnmálum sé lykilatriði til að njóta lestursins.

Mér fannst ég fræðast heilmikið við lesturinn. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um hve erfitt er að komast að á breska þinginu, enda íslenska þingið eflaust aðgengilegra en flest önnur.

Til dæmis er hefð fyrir því að þeir sem bjóði sig fram í fyrsta sinn fyrir hönd Íhaldsflokksins bjóði sig fram í umdæmi þar sem er vitað að Verkamannaflokkurinn muni sigra kosningarnar (í breska kerfinu er aðeins einn frambjóðandi í hverju umdæmi og fer sá sem sigrar á þing, en ekki hlutfallsleg kosning eins og á Íslandi). Svo þurfa flest að bíða og bíða í mörg kjörtímabil sem þingmenn til að verða ráðherrar ólíkt því sem gerist hér á landi. Það er ljóst að Stewart vildi breyta hlutunum til hins betra og var einlægur þegar hann bauð sig fram. Hann komst þó fljótt að því að kerfinu er ekki auðveldlega breytt, sér í lagi þegar þingmönnum er skipað að kjósa með eða á móti málum samkvæmt vilja flokksins en ekki sem persónur. Fyrir fólk eins og mig eru þetta virkilega afhjúpandi æviminningar um hvernig raunverulega er að vera þingmaður og ljóst er að það er kalt á toppnum á breska þinginu. Ég upplifði sömu hugsun við lesturinn og ég hef fengið við að hlusta á Stewart: það er synd að maður með svona mikla sýn hafi hrökklast úr pólitík!

Þrátt fyrir að vera ekki spennandi skáldsögur, heldur eitthvað allt annað er ég ekki hissa að þessar bækur hafi notið svona mikillar velgengni á síðasta ári. Þetta eru bækur sem áhugafólk um stjórnmál ætti helst ekki að láta fram hjá sér fara, en jafnframt gætu þær kveikt áhuga annarra á stjórnmálum sem vanalega láta þau málefni sig ekki varða. Mín persónulega reynsla var að bók Campbell var meira grípandi, en eflaust þykir öðrum þetta öfugt. Ég hvet því lesendur Lestrarklefans til að breikka aðeins lesturinn sinn og íhuga að lesa þessar stjórnmálabækur.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...