Þegar velja skal Múmínbók

Nú er Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli byrjaður en það er staðurinn þar sem oft er hægt að finna bækur sem eru ekki lengur í búðum á góðu verði. Ef þú ert með safnarahjarta er því tilvalið að kíkja þar við og fylla á hálfar seríur sem eru til í hillunni eða byrja að safna einhverju nýju. Eitt af því sem ég hef keypt grimmt á bókamarkaðinum eru múmínbækur, sem eru sérstakt áhugamál mitt. En sem múmínsafnari veit ég fullvel að það er hálfgert offramboð á mismunandi múmínbókum á íslensku og getur ruglað hvern sem er í ríminu. Sumt af því er eftir Tove Janson sjálfa og annað aðlaganir. Því hef ég ákveðið að setja saman sérstaka múmínúttekt, eftir seríum og útgefendum þeirra, með ráðleggingum um hentugan aldursflokk.

Harðspjalda múmínbækur:

Þessar kannast eflaust margir við úr úrvalinu fyrir allra yngstu börnin í bókabúðum. Þær eru (nokkuð augljóslega) aðlaganir á múmínheimi Tove Janson og upphaflega gefnar út hjá Penguin Random House í Englandi. Ugla útgáfa gefur þær út á íslensku.

Þetta eru gæðalegar og skemmtilegar bækur, blaðsíðurnar þykkar og þola flest og auðvelt að fletta þeim. Myndirnar eru fallegar og glaðlegar og konseptið bak við hverja bók oft mjög skemmtilegt. Hins vegar verð ég að vara við því að inn á milli kemur ein og ein bók sem ég bara botna ekkert í og finnst sérlega leiðinleg. Ég mæli heilshugar með þessum bókum fyrir 0-3 ára en samt er gott að kíkja aðeins inn í bækurnar áður en haldið er að kassanum.

Múmínsnáðinn og … :

Þessi bókaflokkur er lógískt aldursframhald á þeim að ofan. Myndheimurinn er sá sami og bækurnar búnar til hjá Penguin Random House í Bretlandi og gefnar út af Uglu á íslensku. Ég segi „búnar til“ en ekki samdar því það lýsir bókunum einfaldlega best. Í hverri bók er gefinn upp höfundur textans en hvað myndirnar varða tilheyra þær víst bara vörumerkinu Moomin Characters. Myndirnar byggja á svona klippa og líma pælingu, þetta eru í raun og veru alltaf sömu myndirnar af múmínálfunum en þeim er raðað saman á nýjan hátt í hverri bók. Engu að síður myndi ég nú segja að það séu myndirnar sem séu sterkasti þátturinn í þessum bókum, sögurnar eru oft óttalega þunnar.

Það er gaman fyrir foreldra og börn upp úr tveggja ára aldri að færa sig úr harðspjaldabókunum og yfir í þessar. Í það minnsta að skoða myndirnar, þó maður dembi sér ekki strax í allan textann. Ég myndi flokka þær fyrir 2-5 ára en þær halda ekki athygli barna mikið eftir það, eða allavega ekki sonar míns sem missti áhuga á þeim í kringum fjögurra ára. Ég kenni því helst um að það er sáralítil spenna í sögunum sjálfum og þær allar mjög grunnar. Einnig er það augljóst að Bretar skilja ekki hinn finnska húmor Tove Janson. Ein afleiðingin er sú að þessar bækur (og harðspjaldabækurnar) virka býsna íhaldssamar hvað varðar fatnað, áhugamál og hlutverk kynjanna.

…. í Múmíndal:

Þetta er sería frá Máli og menningu og ég held hún komi upphaflega út hjá sænska forlaginu Bonnier Carlsen. Líklega hefur sænsk/finnska múmínveldið séð hvað aðlaganir á sögum Tove Janson fyrir börn seldust vel hjá Penguin Random House og ákveðið að stökkva á vagninn.

Þetta eru virkilega fallegar bækur, í aðlaðandi litum og teikningarnar eru metnaðarfullar en samt nokkuð fjölbreyttar. Það er ekki sami myndhöfundur sem teiknar fyrir alla seríuna. Einnig fylgir textinn upprunalegum sögum Tove Janson mun nákvæmar en gert er í bókaflokki Penguin Random House/Uglu. Það er mikill texti í bókunum og því myndi ég líklega flokka þær fyrir eldri krakka en bækurnar að ofan. 4-7 ára kannski? Við eignuðumst fyrstu bókina í þessari seríu snemma, þegar sonur minn var tveggja ára, þökk sé jólagjöf frá frænku í Svíþjóð. Við byrjuðum strax að skoða hana en ég sagði bara sjálf sögu út frá myndunum sem féll barninu í geð, enda var barnið allt of ungt til að hlusta á allan þennan texta og ég sjálf ekki rétta manneskjan til að snara sænskunni jafnóðum yfir á íslensku.

Virkilega fallegar bækur sem ættu að kveikja í mörgum söfnurum en ég verð að játa að mér finnst nóga að eiga tvær hér heima. Textinn er alveg fínn en það verður seint sagt að hann sé leiftrandi skemmtilegur. Það er nefnilega líka alltaf hægt að fara bara í orginalinn.

Hvað gerðist þá? og Hver vill hugga krílið?

Já nú erum við farin að tala saman, stuttar myndabækur í bundnu máli, texti og myndir eftir Tove Janson sjálfa.

Þessar bækur eru einfaldlega listaverk, báðar tvær. Gerólíkar samt, Hvað gerðist þá? er létt og skemmtileg en Hver vill hugga krílið? aðeins alvarlegri, með pælingum um einmanaleikann og hvernig sé best að vinna bug á honum. Þetta eru að vísu ekki bækur sem börn geta lesið sjálf, þó þau séu orðin læs. Bæði er letrið óvenulegt, og hugsað meira upp á fagurfræðina en aðgengilegan lestur, og svo er bundið mál einfaldlega skemmtilegra upphátt en í hljóði. Þetta eru bækur til að lesa upphátt fyrir krakka, 3 ára +. Auðvitað myndu fá þriggja ára börn nenna að hlusta á allan textann á blaðsíðunni, ég leyfði mér alveg að lesa bara mikilvægustu línurnar og leyfa myndunum að njóta sín. Svo væntanlega mun krökkum á endanum finnast þeir vaxnir upp úr þessu, áður en þeir koma aftur til vits og ára og skilja að þessar bækur eru alltaf skemmtilegar.

(Tove Janson gerði allavega eina svona rím-myndabók í viðbót en ég held að bara þessar tvær hafi komið út á íslensku.)

Múmínálfarnir. Heildarútgáfa á myndasögum eftir Tove Jansson

Falleg og vönduð útgáfa sem kom út hjá myndasöguútgáfunni Froski. Hérna heima eigum við bara Bók 1 (halló bókamarkaður, hér kem ég í leit að bók 2 og 3) og þetta er dálítið ruglandi bók. Sögupersónurnar eru múmínálfarnir en það sem þeir taka sér fyrir hendur passar ekki 100% inn í múmínkanónuna, ef svo má segja. Þetta er samantekt á myndasögum sem birtust í framhaldssöguformi í dagblaðinu Evening News í London á árunum 1953 til 1959. Þær eru með öðrum orðum ætlaðar sem létt og stutt dægradvöl fyrir fullorðna og áfengi kemur töluvert við sögu. Flestir brandaranna fljúga langt yfir höfuð sex ára sonar míns en hann elskar þetta samt, þökk sé sætum teikningum og gnægð af aulahúmor og frösum á borð við „broddgöltur á núggatbeði“. Aldursflokkur 5 ára +.

Múmínálfarnir: stórbók. Bindi 1-3.

Tove Janson gaf út átta skáldsögur og eitt smásagnasafn um múmínálfana. Þær eru myndskreyttar af henni sjálfri en á annan hátt en myndabækurnar hennar og myndirnar eru ekki í aðalhlutverki. Fimm af skáldsögunum komu út á Íslandi á sjöunda áratugnum eða þar um bil og smásagnasafnið kom út á tíunda áratugnum. Upp úr 2018 tók Mál og menning þá þörfu ákvörðun að klára dæmið og gefa út þýðingar á þeim bókum sem voru óþýddar og endurútgefa um leið gömlu bækurnar. Allar sögurnar komu síðan út í tímaröð í því sem útgáfan kallaði stórbók, þrjár bækur í hverju bindi.

Ég sjálf lít á þessar skáldsögur sem yndislestur fyrir fullorðna en þolinmóð og bókhneigð börn og unglingar ættu alveg að geta haft gaman af þeim líka. Þetta eru samt eiginlega fyrst og fremst fullorðinsbækur. En málið er, að ef þú hefur umkringt afkvæmi þitt með eintökum af öllum þeim múmínflokkum sem upp hafa verið taldir, þá þekkir það þessi fyrirbæri og sýnir þeim forvitni.

Sonur minn kom auga á þessar múmínbækur í minni eigin hillu þegar hann var 4 ára og heimtaði að ég læsi þær. Ég beitti bara minni vanalegu aðferð, að lesa brot úr textanum og byggja á myndunum, og þetta virkaði alveg . Við lásum þær ekki í réttri röð heldur litum á hvern kafla fyrir sig sem afmarkaða einingu og gripum í bækurnar við og við. Smásagnasafnið virkaði samt eiginlega best og það get ég sko sagt ykkur að sagan um Fílífjonkuna sem trúði á hörmungar hafði örugglega mótandi áhrif á barnið fyrir lífstíð. Í það minnsta held ég að það séu ekki mörg fjögurra ára börn sem hafi verið jafn meðvituð um þá ógn sem getur stafað af fellibyljum og hann var á sínu fimmta aldursári.

Hipp hipp, allir á bókamarkaðinn! Múmín, hér komum við!

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...