Þórdís Helgadóttir sló rækilega í gegn með margslungnu skáldsögunni Armeló sem kom út í fyrra. Í henni fylgja lesendur sögumanni um óþekkt land, eða lönd, og lenda í alls kyns ævintýrum. Í nýjasta verki Þórdísar, skáldsögunni Lausaletri fær lesandinn álíka spennandi leiðsögn í gegnum nýja heima, en þessi vegferð er ekki um framandi land heldur um framtíðina, mannshugann og ástina.

Prent og faraldur

Írena og Björn eru starfsmenn á prentsafni. Það er einhvers konar heimsfaraldur í gangi, það eru sóttvarnarreglur og samkomutakmarkanir, en þetta er ekki COVID. Þetta er eitthvað annað. Þau Írena og Björn takast á við hversdaginn hvort á sinn hátt þó þau séu saman í vinnunni flesta daga, og það tvö alein. Írena syrgir eiginkonu sína, Björn saknar mannlegrar snertingar og kynlífs. Þeim þykir vænt hvoru um annað, um hversdaginn og um grotnandi veröldina í kringum þau.

 

 Lesanda haldið á tánum

Bókin er hæg framan af en ótrúlegar vendingar gerast í lágstemmdum textanum með reglulegu millibili, svo að lesanda er haldið á tánum. Það magnaða er að þessar vendingar eru svo hversdagslega settar fram, á svo saklausan og blátt áfram hátt, að það er magnað að finna sterk áhrif þeirra og drifkraftinn í sögunni. Ég byrjaði lesturinn án þess að hafa hugmynd um umfjöllunarefni bókarinnar, og það er sennilega best að hafa það svoleiðis, þar sem bókin er ótal sögur í einu, hún rekur sig lag fyrir lag í gegnum þéttvafinn þráð atburða, endurtekninga og frásagna, hugsana og vona, til að skapa umvefjandi og heilsteyptan reynsluheim sem gleypir mann með húð og hári.

 

Alls staðar spírar óttinn upp af fræjum sínum. Bls. 159

 Frumleiki og fegurð

Höfundur hefur sérstakt lag á tungumálinu, hún skapar nýjar og frumlegar setningar og blandar þeim við gamlar. Hún vekur upp umhugsun og kallar fram fegurð með hárnákvæmlega staðsettum orðum, með eyðum sem þarf ekki að fylla í og stuttum köflum sem endurspegla hugrænt ástand persónanna. Þetta er bók sem þarf hundrað prósent að lesa oftar en einu sinni, og er ég viss um að meistaralega sköpuð fléttan nýtur sín betur í hvert skipti.

 

Opið samtal milli síðna

 Gallinn við að skrifa umsögn um þessa bók er að ég tel að hvert orð sem maður segir frá söguþræðinum sé orði ofaukið, og vil ég því heldur biðja lesendur að gera sér greiða og lesa þessa djúpu sammannlegu sögu sem er full af hversdagslegum hryllingi, fegurð, ofbeldi, flótta, ást, sjálfselsku, óeigingirni, seiglu og uppgjafarhug, fortíðarminningum, framtíðarvonum, furðum og raunsæi. Svo sakar ekki að höfundur hefur kynnt sér sögu prentsins ógurlega vel og gerir þeirri merku sögu góð skil auk þess sem hún sýnir hvernig mannfólkið hefur ítrekað komist í gegnum tímabil sem virðast endalaus en líða þó alltaf á endanum undir lok.

Án þess að vilja segja meira um framvindu og þemu vil ég enda á að nefna frábæra persónusköpun höfundar, sem galdrar fram raunsæjar, breyskar, fallegar og þungar persónur sem skilja eftir djúp spor í huga lesenda. Samband Írenu og Bjarnar er bæði ótrúlega fallegt og óhugnanlegt, rétt eins og bókin öll. Áleitnar spurningar sem við höfum öll um ástand heimsins, framvindu tíðanna, óreiðu og óvissu eru lagðar fram og þeim svarað á margbrotinn hátt, hvert svar tekur við af því fyrra, opnar samtal milli síðnanna og bíður lesanda að taka virkan þátt.

 

Ef ég gæfi stjörnur fengi þessi 6.

Lestu þetta næst

Að þekkja tilfinningarnar

Að þekkja tilfinningarnar

Í fyrra kom út bókin Litaskrímslið hjá Drápu en hún er bráðskemmtileg bók um stúlku sem hjálpar...

Raddir sem heyrast of sjaldan

Raddir sem heyrast of sjaldan

Ég vildi að ég hefði fæðst strákur er fyrsta útgefna skáldsaga Önnu Elísabetar Ólafsdóttur, sem er...

Tilbrigði við sannleika

Tilbrigði við sannleika

Staðreyndirnar er þriðja skáldsaga Hauks Más Helgasonar, sem er menntaður heimspekingur og hefur...