Óðurinn til stuttu bókarinnar

Stundum lít ég á bók og sé mjög fljótt að ég muni ekki geta lesið hana. Hún er of þykk. Sumar bækur eru svo þykkar og stórar að það er full vinna að lesa þær. Bæði að halda athygli í gegnum alla bókina og halda henni yfir andlitinu í rúminu. Þetta krefst vöðvastyrks og athyglisgáfu og ekki má gleyma tíma án truflana. Sumar bækur eru jafnvel ekki lesandi nema sitjandi við borð! Og hver vill sitja við borð og lesa!?

Liðin ár hins endalausa lesturs

Mögulega er þessi millifyrirsögn heldur dramatísk. Staðreyndin er samt sú að ég öfunda fólk sem getur lesið sig í gegnum langa bók, notið hennar og smjattað á henni og sleikt puttana á eftir. Fólkið sem borðar steikur í kvöldmat alla daga. Það fólk getur slegið um sig með því að lýsa því yfir að það hafi, jú, lesið þennan doðrant eða hinn. Þau meira að segja muna hvert smáatriði, eru með góða tilvitnun á reiðum höndum. Ég man ekki tilvitnanir. Get ekki slegið um mig. Heilinn á mér er eins og hlaup, það skoppar allt af honum. Einu sinni gat ég lesið langar bækur en síðustu ár hef ég forðast þær eins og heitan eldinn. Einfaldlega vegna þess að ég veit að ég get engan veginn haldið athyglinni í gegnum 700 síðna bók. Ég man daga þar sem ég las langar bækur leikandi – las á nóttunni, yfir daginn og yfir matnum. Ég las. En tímarnir eru breyttir. Lífið er breytt.

Hin mismunandi skeið lesturs

Hér ætla ég því að gerast svo kræf að slengja fram mjög óvísindalegri kenningu, sem ég byggi á reynslu minni og annara í kringum mig. Ég velti nefnilega mikið fyrir mér lestri og lestrarvenjum og hef komist að þeirri niðurstöðu að við göngum í gegnum mismunandi lestrarskeið á lífsleiðinni. Og til að auðvelda ykkur lesturinn set ég uppgötvanir mínar í eftirfarandi lista:

  • Sem börn lesum við mikið, en helst ekki of þykkar bækur
  • Unglingur (sem lesa) sækja í þykka, enska doðranta. Helst fantasíur
  • Þegar kemur að menntaskóla og háskóla árunum þarf almennur lestur að víkja fyrir skólabókunum. Við lesum glæpasögur og laufléttar ástarsögur. Lengdin skipti ekki máli
  • Þegar fjölskyldulífið, barnaeignir og uppeldi á hug okkar allann lesum við ekki langar bækur. Stuttar, hnitmiðaðar en góðar skáldsögur hitta í mark.

Eftir að ég ræddi mína vankanta gagnvart löngum bókum hrönnuðust inn sögurnar af svipaðri reynslu. Fólk hefur ekki tíma til að sinna lestri sem skyldi vegna anna. Stuttar bækur eigi mun frekar upp á borð hjá þeim. Ljóðabækur og prósar, jafnvel smásagnasöfn. Sjálf er ég ansi hrifin af ljóðum og prósum í bland í bók, líkt og Ewa Marcinek gerir í Ísland pólerað. Í þessari tegund bóka er ríkt innihald í fáum orðum og bækurnar eru oftar en ekki stuttar í blaðsíðutali.

Það sem ég er sem sagt að segja er að bækur þurfa ekki að vera langar til að vera innihaldsríkar. Færri orð segja meira. Og ég er of þreytt til að lesa langar bækur.

Stuttar og hnitmiðaðar

Hérna eru því nokkrar bækur sem eru stuttar og virkilega góðar. 

Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos

Flot eftir Rebekku Sif

Sumarbókin eftir Tove Jansson

Bókaknippi Sverris Norland

Innræti eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Getnaður eftir Heiður Vigdísi Sigfúsdóttur

Allavega eftir Ernu Agnesi

Mamma þarf að sofa eftir Díönu Sjöfn

Þær eru fleiri, stuttu bækurnar. Þetta eru bara þær sem ég man eftir núna

Á þessu lestrarskeiði segi ég: Lifi stutta bókin!

 

E.S. Á síðunni erum við með sér flokk tileinkaðan stuttum bókum og höfum skrifað ófáa pistla um þennan bókaflokk.

Kíktu á þessar færslur eða flokka og finndu næstu bók fyrir þig:

„Um skrattann sem leynist í veislunni“

„Um skrattann sem leynist í veislunni“

Árlega er gefin út bók sem inniheldur ferskar sögur eftir meistaranema í ritlist í Háskóla Íslands. Þessi verk hafa yfirleitt sýnt sneiðmynd af því sem koma skal frá rithöfundum framtíðarinnar, en flestir höfundarnir eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum....

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...