Ég var búin að hlakka til að lesa Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur í langan tíma, enda heyrði ég fyrst af henni meðan hún var enn í smíðum. Þannig vill til að vinkona mín deilir skrifstofu með Hildi og í gegnum hana heyrði ég ýmislegt um rannsóknarvinnuna sem höfundur lagði í fyrir bókina, og það sem ég heyrði lofaði svo sannarlega góðu. Tvær menntaskólavinkonur rannsaka gamalt morðmál eða mannshvarf frá fyrri hluta 20. aldar! Ekkert annað en hið fullkomna efni í bók. Svo hélt ég áfram að heyra af bókinni eftir ýmsum leiðum, svo sem facebook og blaðaviðtölum. Eftir lestur bókarinnar kom á daginn að ég hafði kannski fengið aðeins of miklar upplýsingar. Ég vissi til dæmis eitt mikilvægt atriði sem kemur líklega ekki í ljós fyrr en í bók tvö eða kannski þrjú, því Ljónið er upphafið á þríleik. Þetta er bók sem er bæði spennandi og dularfull, svo ég öfunda þá lesendur sem öfugt við mig vita ekkert þegar þeir hefja lesturinn. Ég ætla því að reyna að fjalla um hana án þess að segja of mikið.

Fyrsta lýsingarorðið sem kom mér í hug þegar ég fékk bókina upp í hendurnar var eiguleg. Þetta er bók sem mun sóma sér vel, bæði í gjafapappír og svo þegar hann er tekinn af og bókin hvílir í höndum þiggjandans. Í fyrsta lagi er hún rausnarleg að lengd, eða rétt yfir 400 blaðsíður. Ef ég verð einhvern tíma svo illa stödd að þurfa að lemja einhvern í hausinn með bók (og já, af einhverjum ástæðum þá er sú ólíklega atburðarrás mér undarlega hugleikin), þá er Ljónið ein af þeim bókum sem ég gæti hugsað mér að hafa innan handar. Kápan er líka óvenjufalleg, enda er hún hvorki meira né minna en unnin upp úr sérpöntuðu málverki eftir þekktan listmálara, sem mig minnir af samfélagsmiðlastalki mínu að hangi nú upp á vegg hjá höfundi. Sem ég segi, bók sem mun koma óhemju vel út úr gjafaumbúðum á aðfangadagskvöldi.

Kápan er falleg, elegant, og segja má að sami þokki svífi yfir söguþræðinum. Aðalsöguhetjan er hin sextán ára gamla Kría en bókin segir frá fyrsta skólaári hennar við Menntaskólann í Reykjavík. Rétt eins og ég sjálf gerði við sama skóla fyrir áratug síðan, þá mátar Kría sig í sífellu við ímynd fágaðrar ungrar konu, þó hún nái töluvert betri árangri en ég gerði. Hún eignast nýjar vinkonur í skólanum sem eru komnar af forsætisráðherrum og eiga 128 ára gömul hljóðfæri, þær kunna líka að mála sig og setja upp á sér hárið með perluskreyttum kömbum. Leið vinkvennanna liggur í ótal fyrirpartí í nýtískuleg einbýlishús eða vel hannaðar þakíbúðir með útsýni yfir Þingholtin. Þó Kría sé að mörgu leyti týpískur unglingur, gangi oft í gömlum íþróttapeysum og eigi töluverða erfiðleika að baki í grunnskóla, þá svífur ákveðinn andi yfir bókinni sem ég myndi kalla töfrandi, heillandi. Þau lýsingarorð eru einmitt notuð í bókinni sjálfri til að lýsa dularfullum karakter sem kemur og fer og Kría á erfitt með að skilja til fulls. Allur þessi glæsileiki hefur sterk heildaráhrif. Þó sagan sé að mestu raunsæ lýsing á menntaskólalífi í samtímanum, þá er einhver álagablær yfir henni. Þetta er góð bók til að lesa á náttfötunum á jóladag, með konfektskál innan handar og myrkur, snjókorn og jólaljós fyrir utan gluggann.

Við lesturinn varð mér oft hugsað til sænskrar bókar sem ég las um síðustu jól, Norra Latin eftir Söru Bergmark Elfgren. Báðar fjalla bækurnar um snobbaða menntaskóla og dularfullt mannshvarf í fortíðinni. Þó söguþráður og andrúmsloft sé ólíkt þá vill svo til að í báðum bókum er að finna grösugan en hættulegan handanheim, sem hótar í sífellu að brjótast í gegnum hversdagslegt yfirborðið. Norra Latin hefur ekki komið út á íslensku en Sara Bergmark Elfgren, ásamt meðhöfundi sínum Mats Strandberg, er þekkt á Íslandi sem höfundur þríleiksins um Hringinn. Sá bókaflokkur hefur hlotið mikið lof, ekki síst fyrir það hvernig höfundum tekst að flétta átakalaust saman yfirnáttúrulega atburði og raunæislegar unglingakrísur. Þetta hefur Hildur einnig gert í bókunum Vetrarfrí og Vetrarhörkur, og hið sama er upp á teningnum í Ljóninu. Ég vona að þyngdarafl bókmenntaheimsins dragi Hildi, Söru og Mats einhvern tíma á sömu bókmenntahátíðina, því þar er efni í mjög áhugaverðan panel.

Þessi blanda hins raunsæja og yfirnáttúrulega er dálítið sérstök í Ljóninu. Segja má að aðalsöguhetjan Kría sé sjálf sannfærð um að hún sé stödd í hefðbundinni raunsæislegri unglingabók, á meðan lesandann fer fljótt að gruna ýmislegt. Kría þekkir ekki hið yfirnáttúrulega þó hún horfist í augu við það í hrímföllnum almenningsgarði og eigi í djúpum samræðum við það um tilfinningalíf skóga. Mér leið eins og áhorfenda hryllingsmyndar sem æpir árangurslaust á skjáinn: „Líttu aftur fyrir þig, líttu aftur fyrir þig!“ En áfram heldur Kría að hafa áhyggjur af hversdagslegum vandamálum á borð við sumarvinnu, einkunnum, getnaðarvörnum og öldrunarsjúkdómum á meðan lesandinn nagar neglurnar angistarfullur.

Undir lok bókarinnar hefur raunsæishluta bókarinnar miðað vel áfram. Kría hefur þroskast mikið, tekið margar góðar ákvarðanir en líka nokkrar afskaplega slæmar. Þar er tekið á trúverðugan og vel heppnaðan máta á mörgum málum sem eiga fullt erindi í hvaða unglingabók sem er. En hvað hið yfirnáttúrulega varðar er svo mörgum spurningum ósvarað að það er ekki annað hægt en fara að telja niður í bók númer tvö.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...