Ein færsla, tvær bækur! Kópavogskrónika og Horfið ekki í ljósið

Á meðal þeirra fjölmörgu bóka sem mig langaði að fá í jólagjöf voru Kópavogskrónika eftir Kamillu Einarsdóttur og Horfið ekki í ljósið eftir Þórdísi Gísladóttur. Ósk mín rættist reyndar ekki, en við hjónin björguðum því með sameiginlegu skiptiátaki og státum nú af báðum titlunum uppi í hillu. (Og það er ekki lítil upphafning fyrir bók, skal ég segja ykkur, því við höfum í vikunni gengið í gegnum þá þrekraun að fækka bókaskápum heimilisins úr fimm í fjóra. Sumar hillur skarta nú tvöfaldri röð af bókum, en þetta kallaði engu að síður á róttæka grisjun. Þar sem ég veit að Katrín Lilja,  höfuðpaur Lestrarklefans, fær kaldan hroll við þá tilhugsun að bókum sé hent, þá vil ég taka fram að við laumuðum hlassinu í smáum skömmtum á gjafaborð Þjóðarbókhlöðunnar, og fundu bækurnar þannig vonandi góð heimili. Allar nema ein. Henni henti ég í ruslið, full af sigri hrósandi heift, enda á hún hvergi annars staðar heima, og mun ég ef til vill segja ykkur frá henni síðar)

En jæja nú jæja, hvert var ég komin? Kópavogskrónika og Horfið ekki í ljósið. Af hverju í ósköpunum er ég að fjalla um tvær bækur í einu? Að flestu leyti eru þetta mjög ólíkar bækur. Þær eiga það kannski helst sameiginlegt að vera nokkuð stuttar (126 og 160 bls.) og báðar hafa fallegt blómaþema á kápunum. En ég las þær hvor á eftir annarri með litlu millibili, og einhvern veginn fóru þær að kallast á í huga mínum. En kannski var það aðallega vegna þess að báðir höfundarnir njóta þess vafasama heiðurs að þekkja mig lauslega. Ekki hittumst við nú oft, en ég er ákaflega dugleg að setja like á allskonar hluti sem þær gera á netinu, enda eru Kamilla og Þórdís báðar mjög fyndnar. Þar af leiðandi fannst mér það sérkennileg upplifun að lesa bækurnar þeirra, því aðalpersónurnar eru að því er ég best fæ séð meira eða minna byggðar á þeim sjálfum.

Þetta eru mjög ólíkar bækur, jafnvel andstæður, sem kom mér ekki á óvart, því internetfyndni höfundanna er af ólíku tagi. Báðar skrifa þær nokkuð mikið á samfélagsmiðla, en ég veit engu að síður töluvert meira um einkalíf Kamillu heldur en Þórdísar. Þessi sami munur endurspeglast í frásagnarmáta bókanna (sem enginn annar en ég sér líklega nokkra ástæðu til að bera saman, sorrí með mig). Í Kópavogskróniku er allt á útopnu. Þetta er bók um ástarsorg þar sem aðalpersónan, þrátt fyrir tíðar yfirlýsingar um eigin tilfinningakulda, verður heltekin af óendurgoldinni ást til verðbréfamiðlara í Kópavogi. Stílbragðið er mjög í anda ákveðins kima íslenskra samfélagsmiðla, þar sem allir eru alltaf að deila vandræðalegum, sárasukafullum og einlægum augnablikum í lífi sínu, innan úr djúpu lagi af kaldhæðni. Í Horfið ekki í ljósið er annað uppi á tengingnum. Aðalpersónan rifjar upp sína eigin æsku en beinlínis stærir sig af því að vera óáreiðanlegur sögumaður og það er margoft gefið í skyn að ýmsu sé sleppt úr frásögninni sem aðalpersónan kærir sig ekki um að muna eða deila með öðrum. Í bókinni er líka að finna hugleiðingar um offramboð orða og frásagna í nútímanum, sem ég túlkaði meðal annars sem gagnrýni á það andrúmsloft játninga sem ríkir á fyrrnefndum samfélagsmiðlum.

En í báðum þessum bókum þá töluðu sögumennirnir alltaf til mín með raunverulegri rödd höfundanna og ég velti því oft fyrir mér hvar skáldskapurinn tæki eiginlega við. Ég veit til dæmis að Þórdís er alin upp í Hafnarfirði eins og sögupersónan Klara, hún á vinkonu sem er unglingabókahöfundur og rétt eins og Klara þá er höfundurinn líka hrifinn af dönsku smurbrauði, svo eitthvað sé nefnt. Og ég veit að Kamilla fer oft á einhverja suddabari í Kópavogi, vinnur á bókasafni og hefur brennandi áhuga á skjölum Landsnefndarinnar fyrri.  (Kannski finnst einhverjum lesendum persónusköpun aðalsöguhetjunnar í Kópavogskróniku eitthvað ótrúverðug, þessi harði djammari með grúskaralegan áhuga á aftökustöðum fyrr á öldum, en, það er sumsé til allavega ein manneskja sem raunverulega hefur þetta víða áhugasvið)

Ég gæti talið upp margt fleira sem höfundar og sögupersónur þeirra eiga sameiginlegt, en ég hljóma nú þegar eins og brjálaður stjáklari, svo ég læt hér staðar numið. Það er afar sennilegt að báðir höfundarnir hafi mætt í ótal viðtöl fyrir jól þar sem þeir svöruðu gáfulegum spurningum um skil skáldskapar og veruleika í bókum sínum, en ég hef verið svo léleg undanfarið í því að fylgjast með menningarumfjöllun. Svo ég iða í skinninu. Fundust kannski raunverulega óhugnalegar líkamsleifar á háalofti ömmu Þórdísar? Gaf Kamilla vinkonu sinni í alvörunni nanfspjöld virtra skilnaðarlögfræðinga í brúðargjöf? Og svo ótal margt fleira sem ég ætla ekki heldur að telja upp, því ég vil sem fyrr segir fela stjáklaratendensa mína.

Kópavogskrónika er samtímasaga sem gengur út á vandræðalegar játningar en Horfið ekki í ljósið er períóðusaga (þó hún gerist í fremur nálægri fortíð) og gerir mikið úr þögn og leynd. Sögupersónan í Kópavogskróniku þjáist af höfnunartilfinningu en í Horfið ekki í ljósið er það svefnleysi sem amar að. Klara, svefnlausi málvísindamaðurinn úr Hafnarfirði, þjáðist að auki af kvíða sem barn, enda var móðir hennar með einhvers konar áfallastreituröskun og sjálf æfði hún sig í lestri í gömlum leiðbeiningabæklingum um viðbrögð við kjarnorkusprengingu. Í Kópavogskróniku er ekki dregið neitt undan í lýsingum á þeim fjarstæðukenndu sársauka sem jafn hversdagslegur karakter og verðbréfasali í Kópavogi getur valdið með ástleysi sínu, en í Horfið ekki í ljósið er þvert á móti fjallað um býsna stór áföll af töluverðri fjarlægð. Þrátt fyrir allt tekst bókinni með óáreiðanlega og fáorða sögumanninum að vera aðeins lengri en ósérhlífna játningabókin, en ég verð að segja eins og er að mér fannst báðar bækurnar of stuttar.

Stemmingin á Rútstúni

Væntanlega er það með ráðum gert hjá höfundum og útgefendum að hafa bækurnar svona stuttar. Kópavogskrónika á örugglega að vera hraðlesin saga fyrir snjallsímafólk sem hefur ekki tíma til að lesa, og sögumaður í Horfið ekki í ljósið tekur margoft meðvitaða ákvörðun um að hafa frásögnina stutta eða segja ekki meira, eins og til að stríða forvitnum lesandanum. En mér fannst að í báðum bókum væri efni sem hefði mátt gefa fleiri blaðsíður. 126 blaðsíður er einfaldlega of stutt fyrir harðspjaldabók, þær eru dýr vara og ég les mjög hratt. Ég get ekki eytt fimm, sexþúsund krónum í eitthvað sem tekur mig rúman klukkutíma! Það var til dæmis frábær lýsing á sálarlífi raftónlistarskálda í Kópavogskróniku, og svo auðvitað 17. júní hátíðarhöldin á Rútstúni í Kópavogi, sem ég hefði viljað sjá meira af. Það er í raun og veru bara ein alvöru persóna í bókinnni, og það er sögumaður. Hvað til dæmis með kærustuna sem kveikti í Ikea-geitinni? Í næstu bók vil ég hafa stærra persónugallerí og ítarlegri lýsingar, og heyrirðu það Kamilla.

Þó að bók Þórdísar sé lengri í blaðsíðum talið, þá truflaði lengdin, eða skorturinn á henni, mig jafnvel meira. Það er nefnilega nóg af persónum og stórum efnum til umfjöllunar í bókinni, og ég var orðin dáleidd af áhuga, sokkin ofan í söguna, og svo allt í einu voru bara ekki fleiri blaðsíður! Hvert er gagnið, ánægja lesandans, af óáreiðanlegum sögumanni, ef enginn nema höfundurinn veit í raun hvar hann hagræðir frásögn sinni? Það voru svo mörg áhugaverð efni, sem mér fannst að hefði mátt kreista töluvert meira úr. Til dæmis er aðalpersónan Klara málvísindamaður og rannsakar það hvernig fólk notar tungumálið á ólíkan hátt eftir þjóðfélagsstöðu. Þessi áhugi er augljóslega sprottinn frá þýskri ömmu hennar, sem aldrei náði góðum tökum á íslensku, og þunglyndri móður sem kunni ekki að tjá tilfinningar með öðrum hætti en að tala um verki. En það var eins og aðalsögupersónan hefði þroskast fullkomlega frá þessum áhugaverðu fjölskyldumeðlimum og virti þá fyrir sér úr fjarska tímans af fjarlægri yfirvegun. Sjónarhorn félagslegra málvísinda varð heldur ekki jafn viðamikið og ég hafði vonast eftir. (Svo hefði ég líka endilega viljað sjá þýskuskotna íslensku ömmunnar, setningar hennar voru alltaf umorðaðar á lýtalaust mál, sem mér fannst taka eitthvað frá karakternum) Í stuttu máli sagt þá fannst mér að bókin væri ekki búin, þegar hún var búin. Mig langaði að lesa lengra! Ég verð meira að segja að játa það, að ég er hálfvegis að vona að bókin sé kannski upphaf á þríleik. Sögumanninum Klöru, sem þjáist af svefnleysi, verður nefnilega tíðrætt um endurminningar annars svefnleysingja, Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust. Öfugt við bók Þórdísar er það verk alræmdur doðrantur og kom þar að auki út í þremur bindum. Því segi ég, tvær bækur í viðbót Þórdís, og heyrirðu það! 

Úps, þetta er ekki þríleikur heldur sexleikur. En vandræðalegt.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....